Sigurður Ægisson
Sigurður Ægisson
Sigurður Ægisson fjallar um þýðingar í sjónvarpi: "Í Evrópu merkir enska orðið "elk" því elgur, en ekki í Norður-Ameríku; þar er "elk" vapítihjörtur, næststærsta hjartartegund jarðar, næst á eftir elgnum."

ÁHUGAFÓLK um náttúrufræði sem fylgdist með þættinum Autopsy (Krufningar) á Stöð 2, 11. júlí síðastliðinn, hefur vafalaust rekið upp stór augu þegar á skjánum birtist vegna eins málanna hjartardýr, sem á ensku nefnist "elk" og var á íslensku þýtt sem "elgur". Augljóst var þó, að umrætt dýr var eitthvað allt annað.

Við þýðanda Autopsy er þó tæplega að sakast í þessu dæmi, enda málið dálítið flókið. Í Ensk-íslenskri orðabók frá 1984 segir m.a. um "elk": "1. elgur, elgsdýr (Alces alces) stærsta hjartardýr í Evrópu og Asíu" En þar á eftir: "2. U.S. wapiti" Setningin lætur ekki mikið yfir sér og auðvelt er að sjá hana ekki, en þarna er samt hið rétta komið. Og ef flett er upp á "wapiti" í orðabókinni segir: "vapítihjörtur (Cervus canadensis), stærsta hjartardýr í Norður-Ameríku" (sem að vísu er ekki rétt, því elgurinn er það; heimkynnin eru ekki bara í Evrópu og Asíu, heldur einnig í Norður-Ameríku, eins og reyndar kemur fram ef enn er flett í títtnefndri bók og nú undir "moose"). Vapítihjörturinn dregur þetta "einkennilega" nafn af tungumáli Shawnee-manna, þ.e.a.s. ættflokks indíána sem hafðist áður fyrr einkum við í Ohio, Tennesse og Suður-Karólínu, en er nú eingöngu í Oklahoma. Og þetta hjartardýr var sömuleiðis um alla Norður-Ameríku að heita má, en er þar nú sökum ágangs veiðimanna aðallega að finna í vesturhluta Bandaríkjanna (einkum í Kólóradó, Montana, Oregon og Wyoming) og í Kanada (Bresku Kólombíu, Alberta og Manítóba). Einnig er tegundin víða í háfjalllendi Asíu. Og svo er búið að flytja dýr til Nýja-Sjálands og Ástralíu. Undirtegundir vapítihjartarins eru sagðar vera 13 talsins.

Sumir fræðimenn eru raunar á því, að vapítihjörtinn (Cervus canadensis) og krónhjörtinn (Cervus elaphus) í Evrasíu, sem er dálítið minni, beri að líta á sem eina tegund, og þá undir vísindaheitinu Cervus elaphus, með 27 undirtegundum, en ekki eru samt allir á því, og greina enn á milli þessara tveggja glæsilegu hjartarkynja. Hins vegar er ljóst, að vapítihjörturinn er upphaflega gamlaheims-tegund, úr Evrasíu, en hefur komið um Beringsund yfir í Vesturheim fyrir um 120 þúsund árum.

Í Evrópu merkir enska orðið "elk" því elgur, en ekki í Norður-Ameríku; þar er "elk" vapítihjörtur, næststærsta hjartartegund jarðar, næst á eftir elgnum.

Sigurður Ægisson fjallar um þýðingar í sjónvarpi

Höfundur er guðfræðingur og þjóðfræðingur og áhugamaður um náttúrufræði.