19. júlí 2004 | Menningarlíf | 505 orð | 1 mynd

Tónlist | Hvanndalsbræður gefa út geisladiskinn Hrútleiðinlegir

Höfum öðlast meiri trú á okkur sjálfa

Hvanndalsbræður, f.v. Sumarliði, Rögnvaldur og Valur Hvanndal.
Hvanndalsbræður, f.v. Sumarliði, Rögnvaldur og Valur Hvanndal.
Hrútleiðinlegir. Þetta er heiti á nýjum diski Hvanndalsbræðra sem nýkominn er út. Áður hafa þeir bræður sent frá sér diskinn Út úr kú. Sá er uppseldur, en hann fékk að sögn bræðranna frá Hvanndal feikigóðar viðtökur.
Hrútleiðinlegir. Þetta er heiti á nýjum diski Hvanndalsbræðra sem nýkominn er út. Áður hafa þeir bræður sent frá sér diskinn Út úr kú. Sá er uppseldur, en hann fékk að sögn bræðranna frá Hvanndal feikigóðar viðtökur.

Hvanndalsbræður eru þeir Rögnvaldur sem lengi hefur kennt sig við gáfnafar sitt,Rögnvaldur gáfaði, Valur og Sumarliði, allir Hvanndal að sögn. Hvanndalur liggur á milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar og þar segjast þeir bræður stunda fjölbreyttan og blandaðan búskap. En hljómsveitin varð hins vegar til um áramótin 2002 og 2003. "Það var þegar ég keypti fjölskyldupakkann frá skátunum," segir Rögnvaldur, en upp úr því datt honum það snjallræði í hug að gaman væri að stofna hljómsveit. "Það voru allir til í slaginn," sagði hann. "Þetta átti bara að vera svona hobbý, sem byggðist á okkar kunningsskap, en hæfileikar okkar spurðust fljótt út," bætir hann við. Fljótlega eftir umrædd áramót voru þeir félagar fengnir til að spila í fertugsafmæli og þá varð ekki aftur snúið. Bræðurnir frá Hvanndal léku æ meira og víðar eftir því sem á leið árið og gáfu svo sem fyrr segir út diskinn Út úr kú. "Hann fékk góða dóma," segir Rögnvaldur og félagar hans ljóstra því upp að borinn hafi verið bjór í gagnrýnanda. "Yfir honum var svo samið um ágætisdóma og lögðum við sjálfir þó nokkuð í púkkið." Á þeim diski voru 11 lög, þar af 4 frumsamin. Á nýja disknum eru 14 lög, öll frumsamin. "Við höfum öðlast meiri trú á okkur, höldum jafnvel stundum að við séum bestir. Áður fyrr treystum við meira á önnur tónskáld. Sá tími er liðinn," segja þeir félagar. Þeir eiga nú þegar töluvert efni á þriðja diskinn og munu eftir því sem tími gefst til vinna að útkomu hans.

Þeir Hvanndalsbræður hafa mikið verið á ferðinni í sumar og heilmikið er framundan, þeir leika á Fullveldishátíð í Hrísey, koma fram í Galtalæk og á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgi og þá troða þeir upp á Fiskideginum mikla á Dalvík. "Ætli við látum okkur ekki svo hverfa eftir það, við þolum ekki svona mikið sviðsljós," segir Sumarliði. "Þetta eru býsnin öll af gleði, við þurfum góða pásu eftir hana," bætir Valur við. Einkum hafa þeir komið fram á landsbyggðinni, einungis leikið í höfuðborginni einu sinni, "og þá kom enginn," segir Rögnvaldur.

Útprjónaðar lopapeysur og laglegar skotthúfur eru einkennisklæðnaður félaganna þegar þeir koma fram. "Kraftur okkur liggur mikið til í búningunum," segja þeir en viðurkenna að á stundum séu þeir í nokkru hitakófi á tónleikum, "en þessi klæðnaður kemur sér líka stundum vel þegar andar köldu." Þeir hugleiða að taka upp varabúning, upphlut, en enn er þó ekkert ákveðið í þeim efnum. Þá stefna þeir líka að því að fá að koma fram í Stundinni okkar. "Það er okkar takmark, börn hafa sýnt leik okkar mikinn áhuga, þau virðast kunna að meta hæfilegan fíflagang og gleði. Ætli við séum ekki bara á svipuðu þroskastigi og þau," segja þeir félagar.

Diskinn er hægt að nálgast á Netinu, á vef þeirra bræðra, hvanndal.com. Hann er gefinn út í takmörkuðu upplagi og verður ekki til sölu í verslunum.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.