Guðni Guðmundsson fæddist í Reykjavík 14. febrúar 1925. Hann andaðist á Landspítalanum 8. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Helgi Guðnason, gullsmiður í Reykjavík, f. 6.1. 1884, d. 10.3. 1953, og Nikólína Hildur Sigurðardóttir húsmóðir, f. 8.11. 1885, d. 28.1. 1965. Guðni var yngstur fimm barna þeirra, en systkini hans voru Bjarni, deildarstjóri, f. 27.8. 1908, d. 28.1. 1975, Gunnar, framkvæmdastjóri, f. 25.3. 1912, d. 23.4. 1976, Kjartan, tannlæknir, f. 16.1. 1914, d. 16.9. 1988, og Sigríður, húsmóðir, f. 16.9. 1917, d. 6.12. 1997.

Árið 1951 kvæntist Guðni Katrínu Ólafsdóttur, f. 30. september 1927 á Eskifirði, d. í Reykjavík 27. febrúar 1994. Foreldrar Katrínar voru hjónin Ólafur Hjalti Sveinsson, f. 19.8. 1889, d. 18.11. 1963, sem lengi var verslunarstjóri hjá ÁTVR, og Guðrún Björg Ingvarsdóttir, f. 1.12. 1896, d. 3.12. 1967. Börn Guðna og Katrínar eru: 1) Guðmundur Helgi, f. 4. nóv. 1951, maki Lilja Jónatansdóttir. 2) Guðrún, f. 9. jan. 1953, maki Jóhann S. Hauksson. 3) Ólafur Bjarni, f. 1. júní 1954, maki Anna G. Sigurðardóttir. 4) Hildur Nikólína, f. 2. júní 1957, maki Friðrik Jóhannsson. 5) Anna Sigríður, f. 22. júlí 1959, maki Gylfi Dýrmundsson. 6) Sveinn Guðni, f. 15. jan. 1964, maki Erna Jensen. 7) Sigurður Sverrir, f. 12. nóv. 1965, maki Sigurborg Þ. Sigurðardóttir. Barnabörn Guðna og Katrínar eru 22 og barnabarnabörn eru orðin fimm.

Guðni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1944, stundaði nám við Háskóla Íslands veturinn á eftir en hélt til náms við Edinborgarháskóla haustið 1946. Þaðan lauk hann MA-prófi í ensku og frönsku árið 1951, en hafði jafnframt sótt nám við Sorbonne-háskóla í París veturinn 1948-49 og námskeið þar 1951. Hann sinnti stundakennslu við gagnfræðadeild Miðbæjarskólans í Reykjavík 1950 til 1953 og við Gagnfræðaskóla verknáms veturinn 1954, auk þess að vera stundakennari við Menntaskólann í Reykjavík frá árinu 1951 til ársins 1956, en þá var hann fastráðinn kennari við skólann og gegndi því starfi uns hann var skipaður rektor skólans árið 1970. Hann lét af því embætti fyrir aldurs sakir árið 1995. Guðni var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1980.

Meðal annarra starfa Guðna má nefna að hann kenndi um tíma við Málaskóla Halldórs Þorsteinssonar og á námskeiðum á vegum Loftleiða og Flugfélags Íslands. Þá var hann blaðamaður við Alþýðublaðið með breytilegu starfshlutfalli á árunum frá 1952 til 1968, auk þess að vera á þeim tíma íhlaupafréttaritari bresku fjölmiðlanna BBC og The Times. Hann sat í stjórn Félags menntaskólakennara frá 1962 til 1970, í stjórn Fulbright-stofnunarinnar frá 1967 til 1987, var í nefnd á vegum Blaðamannafélags Íslands sem samdi fyrstu siðareglur félagsins og var í stjórn félagsins Anglia. Hann sat í útvarpsráði sem fulltrúi Alþýðuflokksins, sem varamaður 1978 til 1987 og sem aðalmaður frá 1987 til 1995.

Fyrstu árin eftir að hann kom heim frá námi lagði Guðni einnig nokkra stund á þýðingar. Guðni var mikill söngmaður, söng í Karlakórnum Fóstbræðrum og síðar með Gömlum Fóstbræðrum, og var um skeið formaður þeirra. Hann var einnig frá barnæsku einlægur stuðningsmaður Knattspyrnufélagsins Víkings.

Útför Guðna verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Ég var á 16. ári þegar ég kom fyrst á heimili tengdaforeldra minna, Guðna og Katrínar, sem lést árið 1994. Elstu börnin voru flogin úr hreiðri eða í þann veginn að taka flugið. En fjölskyldan er samheldin og að minnsta kosti einu sinni í viku komu flestir eða allir saman á heimili þeirra við Laufásveginn. Þegar við litum inn um helgar heyrði það til undantekninga ef ekki var eitthvað af skyldfólki í heimsókn og erilsamt í húsinu. Rætt var um heima og geima enda af nógu að taka og þau hjón voru bæði afar vel að sér um margvísleg málefni og höfðu frá mörgu að segja. Guðni var jafnaðarmaður að lífsskoðun og því var oftar en ekki rætt um pólitík. Guðna þótti vænt um þessa lífsafstöðu og taldi sig eiga ríku uppeldishlutverki að gegna á heimaslóðum að miðla henni til barna og tengdafólks og má raunar bæta því við að ég man ekki eftir því að við höfum verið sammála eitt einasta skipti!

Einhverju sinni hittust föðurbróðir minn, Kristján í Últíma, og Guðni í flugvél, voru góðglaðir og tóku saman spjall. Upp úr Kristjáni duttu stundum skemmtileg gullkorn og í miðju samtali kom þetta: "Þú ert fallegasti maður, mér óskyldur, sem ég hef hitt." Þetta auðvitað sagt meira í gríni en alvöru en víst er að það gustaði af Guðna. Guðni var glaðsinna maður allt til lokadægurs, tók í nefið ótæpilega og orðaði skoðanir sínar teprulaust og lá ekki lágt rómur þegar svo bar við enda hlaut hann alkunnugt viðurnefni sitt af þessum sökum og hispursleysi í tilsvörum. En þetta var einungis skel sem sneri út á við. Hann var í raun tilfinninganæmur og tók nærri sér að þurfa að beita viðurlögum sem þó hlaut að verða býsna oft í starfi rektors.

Til er saga um mann sem kom og heimsótti Guðna á skrifstofu hans í MR og var hann þá að leggja kapal í tölvu sinni. "Hvað er þetta?" spurði gesturinn, "ertu bara að leggja kapal?" "Já," svaraði Guðni, "mitt starf er að láta tímann líða, konrektor sér um hitt," og hló síðan. Öll starfsár sín í MR var Guðni vakinn og sofinn í skólanum og heima við var hann sífellt eitthvað að velta vöngum yfir skólanum, ekki að breyta honum, síður en svo, hann var fastheldinn á fornar hefðir, heldur hvað betur mætti fara í rekstri og umsýslu.

Guðni var áhugamaður um íþróttir, ekki síst enska boltann og horfði á flesta leiki í sjónvarpi hin síðari ár - og fékk sér snúss.....

Guðni naut sín vel á mannamótum og var oftar en ekki hrókur alls fagnaðar.

Að leiðarlokum þakka ég honum ánægjulega og gefandi samfylgd og kveð þau hjón, Guðna og Katrínu, með söknuði.

Friðrik Jóhannsson.

Mig langar að skrifa nokkur minningarorð um minn kæra tengdaföður Guðna Guðmundsson. Hvernig ætti ég nú að hafa þetta, af nógu er að taka svo sem. Jú ætli sé ekki rétt að byrja eitthvað í þessa veru. Mín kynni af Guðna Guðmundssyni og hans fjölskyldu hófust fyrir rúmum 30 árum, þegar ég kynntist elstu dóttur hans. Við frekari kynni komst ég að því hversu skemmtileg fjölskyldan var, og hversu mikill afbragðsmaður Guðni var. Aldrei féll honum verk úr hendi, var alltaf að annaðhvort í vinnunni eða með fjölskyldunni, eða hvort tveggja, skólinn og fjölskyldan var honum allt og...... ha hvað, æ já fyrirgefðu ég gleymdi mér bara alveg, var búinn að lofa að vera ekki með neitt svona hjal. Bien, eftir öll þessi ár sem liðin eru síðan ég varð hluti af fjölskyldunni og kynntist þér, þá hefði ég átt að vita betur. Biðst forláts og sleppi öllu svona. Hef þetta stutt og laggott og segi einfaldlega fyrir hönd fjölskyldu minnar: Kærar þakkir, elsku tengdapabbi, afi og langafi, fyrir allt sem þú gafst okkur í veganesti, og yljar okkur í minningunni framvegis. Au revoir.

Prúðmannlegi pilturinn sá

prinsinn af Óðinsgötu

horfinn er nú foldu frá

og farinn til sinnar Kötu.

Jóhann Svanur Hauksson.

Sú harmafregn barst mér fimmtudaginn 8. júlí að Guðni Guðmundsson, uppáhaldsfrændi minn og vinur, hefði látist þá um nóttina. Samtal sem ég hafði átt við hann nokkru áður gaf að vísu ekki tilefni til bjartsýni þótt hann virtist hress í skapi og stutt í glensið. Guðni sagði mér blátt áfram að hann ætti eftir ólifaða nokkra mánuði. "Svona gengur þetta nú til, Halldór minn, en þá er um að gera að nýta tímann sem bezt," sagði hann rólegur í bragði. "Við náum þá að horfa á enska boltann saman," sagði ég til þess að segja eitthvað. "Já, ætli maður geri mikið annað en að horfa á íþróttirnar næstu mánuði, sagði hann og lét sem hann hugsaði sér gott til glóðarinnar. Aðeins nokkrum dögum síðar var hann látinn. Þess vegna var mér brugðið, en "Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma," sagði Prédikarinn.

Af ýmsum ástæðum var Guðni sá ættingi minn sem var mér og systrum mínum kærastur og nánastur. Þau systkinin, Guðni og Sigríður, móðir mín, voru mjög náin og sömu sögu er að segja af þeim mágum Guðna og Halldóri, föður mínum.

Guðni frændi var alinn upp á Óðinsgötu 8a eða á "Lóðinni" (Óðinsgata 8, 8a og 8b). Á Óðinsgötu 8a, heimili foreldra Guðna og afa og ömmu, var oft gripið til svokallaðs "lóðarmáls", sem var slangur sem kallað er á fræðimáli "gáskafullir nýgervingar". Á því "tungumáli" var Guðni ávallt kallaður "lóðarprinsinn", yngsta barnið.

Guðni bjó á "Lóðinni" fyrstu hjúskaparár sín áður en hann og Katrín Ólafsdóttir, eiginkona hans, sprengdu utan af sér húsnæðið vegna "ótrúlegrar" frjósemi þeirra hjóna, eins og við systkinin lýstum barnaláni þeirra. Guðni var vel giftur. Katrín Ólafsdóttir bar af öðrum konum, fríð sýnum og björt yfirlitum. Katrín og Guðni eignuðust sjö mannvænleg börn.

Okkur systkinunum þótti þetta ótrúlegur dugnaður hjá þeim hjónum. Eldri systir mín hafði einhvern tíma ung á orði við Guðna að hún ætlaði sko aldeilis ekki að standa í slíkum og þvílíkum barneignum, það væri á hreinu. Þá sagði Guðni við hana að bragði: "Þú ræður engu um það, vina, það fer bara eftir því hvað maðurinn þinn elskar þig mikið!"

Guðni fór í Menntaskólanum á Akureyri. Þá bjuggu foreldrar mínir á Akureyri og tóku þau skólapiltinn Guðna að sér þar sem þau bjuggu í Brekkugötunni. Hann varð hluti af fjölskyldunni, uppeldissonur mömmu og pabba á þessum árum. Ávallt síðan kallaði hann föður minn Halldór fóstra".

Guðni var góður maður, ljúflyndur, blíður og viðkvæmur. Opinbera myndin af honum var hins vegar allt önnur. Sem kennari var hann kröfuharður og sætti sig illa við aulaskap og leti nemenda. Í slíkum tilvikum gat hann verið harður í horn að taka og heimtaði að það væri agi í "hernum". Og stundum kom fyrir að hann særði viðkvæmar sálir án þess að gera sér grein fyrir því. Sjálfur tók hann það nærri sér þegar hann áttaði sig á því að hann kynni að hafa farið yfir strikið gagnvart einstökum nemendum.

En hann lét nemendur fá það óþvegið ef þeir stunduðu ekki námið. Þeir væru í vinnu hjá sér og laun hans væri góður árangur. Guðni var mótfallinn silkihanzkatökum á nemendum og hann var andvígur því sem hann kallaði mélkisuhegðun kennara. Mjög snemma á kennaraferli sínum var Guðni fenginn til að kenna "vonlausum" bekk í gagnfræðaskóla verknáms ensku, sem aðrir höfðu gefizt upp á að kenna. Þennan vetur segist hann hafa kennt "með handafli" og að loknum prófum kom í ljós að í bekknum voru margir frambærilegir nemendur. Honum tókst það sem engum öðrum hafði tekizt.

Vegna áherzlu sinnar á aga og notkun skammaryrða í tímum fékk Guðni viðurnefnið "kjaftur", sem honum var ávallt illa við. Móðir mín átti alltaf mjög erfitt með að skilja að ljúflingurinn, bróðir hennar, hefði fengið þetta viðurnefni.

Önnur saga, sem faðir minn sagði mér fyrir löngu, er mér minnisstæð. Einhverju sinni að áliðnum vetri kom Guðni inn í kennslustofu í MR og á kennaraborðinu lá bókin "Mannasiðir" árituð af öllum í bekknum - nema einum. Guðni lét sem lítið væri, lauk kennslu og skildi bókina eftir. Þetta var á föstudegi en á mánudögum hafði Guðni alltaf stíl. Hann var ekki viss um hvernig hann ætti að bregðast við og spurði Halldór föður minn ráða. Hann stakk upp á að hann léti bekkinn gera stíl upp úr bókinni. Guðni tók því ráði, bjó til níðangurslega erfiðan stíl sem reyndist öllum bekknum að sjálfsögðu um megn. Og þegar hann skilaði stílunum sagði hann: "Það er greinilegt að þið kunnið ekki mannasiði, drengir!"

Við systkinin eigum margar góðar minningar um Guðna. Í mörg herrans ár komu hann og Kata í heimsókn á sunnudögum með börnin, alla strolluna, fyrst í strætó en síðar í Skóda-bíl, fyrsta bílnum sem Guðni eignaðist. Þá var líf og fjör heima og gjarnan gripið í kjuðaspilið "bobb". Samgangurinn var mikill og ósjaldan hélt Guðni uppi fjörinu í samkvæmum, sem foreldrar mínir efndu til. Ég man fyrst eftir gítarspili og söng Guðna, þegar ég bjó barnungur í Hafnarfirði. Þá lögðum við krakkarnir oft eyrun við gólfið eða læddumst úr risinu niður í miðjan stiga til að hlusta á sönginn. Síðar meir, þegar við vorum orðin eldri, tókum við þátt í fjörinu. Alltaf þegar von var á Guðna með gítarinn hlakkaði ég mikið til. Og ekki var síðra að fara heim til Guðna á Laufásveginn. Þrátt fyrir fjölbreytt lagaval stendur þó "Alúetta" efst á blaði minninganna.

Guðni var söngvari góður og mér þótti satt að segja hálfgerð synd að hann skyldi ekki hafa orðið trúbador að ævistarfi. Ég er viss um að hann hefði slegið í gegn. Raunar söng hann og spilaði ásamt námsfélögunum sínum í Edinborg á krám og fengu þeir greitt með ókeypis bjór. Sama gerði hann í París þegar hann var í Svartaskóla. Þar bjó hann á ekki ómerkilegri stað en við hliðina á hinu margfræga Café Sélect. Í Edinborg fóru Guðni og félagar hans einu sinni í hrörlegt stúdíó og töluðu og sungu nokkur lög inn á plötu. Nú virðist hún týnd og tröllum gefin. Ég man vel eftir plötunni, sem Guðni sendi foreldrum mínum, bráðgóður kvartettsöngur með íslenzkri harmóníu. Foreldrum mínum þótti ekki sízt vænt um plötuna því á henni var sérstök kveðja til "Siggu systur og Halldórs mágs".

Í seinni tíð hitti ég Guðna alltof sjaldan en þó áttum við eitt sameiginlegt áhugamál, að undanskildum "genetískum kratisma" og vináttu og stuðningi við stjórnmálahugmyndir Vilmundar Gylfasonar heitins, en það var enski boltinn. Það var ósjaldan sem ég fór til Guðna á Kleppsveginn til að horfa með honum á fótboltaleiki. Eftir að Guðni missti Kötu sína eftir mjög erfiða sjúkdóma fór hann að hugsa sér til hreyfings enda börnin flutt að heiman og rektorinn seztur í helgan stein. Hann endaði á Kleppsveginum, í sama stigagangi og á sömu hæð og foreldrar mínir.

"Fóstursonurinn var kominn heim aftur!"

Ég og systur mínar, Hildigunnur og Elísabet, vottum börnum Guðna, barnabörnum og barnabarnabörnum dýpstu samúð okkar við fráfall hans.

Halldór Halldórsson.

"Að það skyldi verða maður úr honum Guðna eins og látið var með barnið," sagði hún móðir mín eitt sinn, þegar hún minntist á uppeldið á honum. Guðni var tíu ára þegar hún giftist inn í fjölskylduna, langyngstur systkinanna, fallegur, skemmtilegur, hvers manns hugljúfi, prinsinn á lóðinni, Óðinsgötunni allri, og vafði heiminum um fingur sér. Fyrsta starf hans var að sendast fyrir Hattabúð Gunnlaugar mágkonu sinnar.

Amma var einhver skemmtilegasta kona sem ég hef kynnzt, en brandararnir voru oft óvægnir og lævi blandnir. Hún hlífði hvorki börnum né tengdabörnum, og eiginlega ekki barnabörnunum heldur. Hún var orðin mjög heyrnarskert, þegar Guðni fæddist. Móðurmál hans var á hærri nótum en systkinanna. Afi Guðmundur var aftur á móti hæglætið uppmálað, svo frú Nikólínu þótti oft nóg um.Við systkinin vorum mjög hrifin af þessum glaðsinna frænda, sem nennti að spila og syngja og var óþrjótandi uppspretta hlátra og gleði. Við urðum heimagangar hjá þeim Katrínu. Eftir að börnin fæddust, var oft leitað til okkar og vinkonurnar sóttust eftir að fá að passa með okkur.

Það var því ekkert smá reiðarslag, þegar Guðni reyndist eldspúandi dreki í kennslustofunni, og enginn var óhultur, allra sízt frændfólk. En öll menntaskólaárin ríkti eins konar ógnarjafnvægi, eða ef til vill skízófrenía. Uppnám og æsingur í skólanum, og skemmtun og friðsemd utan hans.

Þau Katrín fengu sér snemma sjónvarp, og í þá daga sýndi Sjónvarpið oft vandaða þætti, svo sem leikrit Shakespears. Það voru fleiri en við sem fengum að horfa á sjónvarpið hjá þeim hjónum, ef gott efni var á boðstólum, og þar hitti maður aðra kennara. Þeir höfðu þá líka haft hamskipti. Þegar gestirnir fóru átti Guðni oftast eftir að leiðrétta stíla. Það beið kvöldsins, eftir að lokið var hinni vinnunni á Alþýðublaðinu.

Barnalánið lék við þau hjónin, en margs þurfti búið við. Og Guðni tók á sig vinnu umfram vinnuskyldu í Menntaskólanum á sumrin. Árum saman tókst Katrínu ekki að draga hann í sumarfrí, nema kannske vikutíma eftir að leigubústaðir risu í Húsafelli og á Edinborgarhátíðina. Þess vegna hélt maður að þessum vinnuþjarki yrði lítið úr lífinu eftir að hann komst á eftirlaun, og Katrín var dáin. En hann vann úr því eins og öðru, meðal annars reyndist hann Sigríði systur sinni og Halldóri stoð og stytta eftir að þau misstu heilsuna.

Ég þakka fyrir skemmtilegt samferðafólk.

Hildur Bjarnadóttir.

Guðni Guðmundsson rektor var eftirminnilegur maður. Ég sá hann fyrst í húsi foreldra minna á Akureyri þar sem hann kom með konu sinni, Katrínu, einni af fallegu frænkunum mínum að sunnan, dóttur Guðrúnar Ingvarsdóttur, móðursystur minnar. Það sópaði að þessum unga manni, sem virtist geta lagt heiminn að fótum sér með öryggi og mælsku, og skýr augnsvipur og fríðleiki stendur mér enn fyrir hugskotssjónum. Seinna urðum við samkennarar við MR og unnum á sumrum sem fréttamenn, hann á Alþýðublaðinu ég á Fréttastofu RÚV.

Með tveggja ára millibili urðum við forstöðumenn gömlu skólanna tveggja, sem við kölluðum Lærða skólann í Reykjavík og Norðlenska skólann. Sjálfur var Guðni stúdent frá Norðlenska skólanum lýðveldisvorið 1944. Á Akureyri naut hann fósturs mágs síns, Halldórs Halldórssonar, síðar prófessors, eins fremsta málfræðings Íslendinga, og systur sinnar, heiðurskonunnar Sigríðar Guðmundsdóttur. Á Akureyri naut Guðni einnig tilsagnar Sigurðar Guðmundssonar, hins svipmikla skólameistara MA. MA kom rektor MR því til manns, eins og ég leyfði mér að segja á góðri stund. Sjálfur hafði Guðni svör á reiðum höndum, orðvís eins og hann var, en þau orðaskipti verða ekki rakin nú. Síðast tókumst við í hendur við jarðarför frænda míns, Einars Ólafssonar, mágs Guðna, í maí. Handtakið var hlýtt, en ekki grunaði mig, að það yrði í síðasta skipti, sem við sæjumst.

Leiðir okkar Guðna rektors lágu því lengi saman, og margt áttum við saman að sælda, sem er geymt en ekki gleymt. Gott er að eiga minningu um heimsmann og góðan dreng, sem bak við skrápinn var bæði viðkvæmur og góðviljaður. Guðni rektor var trúr sínum gamla skóla, Menntaskólanum á Akureyri, og sýndi það síðast með höfðinglegri gjöf í tilefni 60 ára stúdentsafmælis síns 17. júní s.l., eins og fram kom í ræðu Jóns Más Héðinssonar skólameistara. Frá Norðlenska skólanum flyt ég þakkir fyrir góða viðkynningu sex áratugi. Börnum og fjölskyldu Guðna sendum við Gréta kveðjur og vottum samúð okkar.

Tryggvi Gíslason.

Kveðja frá Menntaskólanum í Reykjavík

Látinn er Guðni Guðmundsson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Hann gegndi því starfi í aldarfjórðung, en áður hafði hann kennt í skólanum í 19 ár. Því var starfsferill hans í skólanum alls 44 ár.

Þegar Guðni varð rektor, voru óróatímar í skólum, og mörg og erfið mál komu til úrlausnar hans. Guðni var ósérhlífinn og einkar röskur í störfum sínum, nánast hamhleypa til vinnu.

Guðni hafði mikinn metnað fyrir hönd skólans og vildi efla hag hans með margvíslegum hætti. Honum sárnaði mjög tómlæti og aðgerðaleysi stjórnvalda í húsnæðismálum skólans áratugum saman. Hann lagði ríka áherslu á að standa vörð um bekkjarkerfi skólans, enda er það ein af traustustu stoðum skólans og er mikilvægi þess stundum vanmetið. Einnig var honum umhugað um, að skólinn hefði það að markmiði að gera nemendur sína sem hæfasta til að stunda háskólanám. Skólinn yrði því að gera allstrangar kröfur til nemenda sinna og kennara.

Ég kynntist fyrst Guðna sem nemandi hans í ensku og frönsku. Hann var röggsamur kennari og var mjög vel að sér í þeim greinum, enda hafði hann stundað nám í ensku í Edinborg og frönsku í París. Mörg tilsvör hans í tímum voru ógleymanleg. Það var ánægjulegt að kenna undir stjórn Guðna og var hann ekkert að fara í felur með skoðanir sínar. Guðni var mikill söngmaður og ég minnist margra ánægjustunda þegar hann söng Alouette með miklum tilþrifum. Hann naut sín vel við stundatöflugerð á sumrin enda mjög laginn töflusmiður og hafði þá gaman af að segja skemmtilegar sögur um spaugilega atburði. Ávallt var gott að leita ráða hjá honum. Guðni var mjög ljúfur og raungóður maður.

Menntaskólinn í Reykjavík stendur í þakkarskuld við hinn atorkumikla rektor og kennara, Guðna Guðmundsson. Skólinn mun lengi búa að stefnumótandi störfum hans. Ég sendi börnum hans, tengdabörnum og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Ég minnist Guðna Guðmundssonar rektors með söknuði og þakklæti.

Yngvi Pétursson.

Kveðja frá Skólameistarafélagi Íslands

Í dag kveðjum við Guðna Guðmundsson, fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík. Við minnumst margra stunda og atvika á samráðs- og samtarfsnefndarfundum stjórnenda framhaldsskólanna. Í löngum lotum um viðbrögð vegna verkfalla eða í umræðum um innra starf skólanna var Guðni aldrei langorður. Hann var ævinlega beinskeyttur, stundum hvass, en jafnan stuttorður og gagnorður. Þó minnast menn helst gamanseminnar og afar hnyttinna tilsvara í heitum orðræðum.

Guðni var trúr sínu starfi og farsæll þann langa tíma sem hann gegndi embætti rektors. Leiðarljósið var skýrt: Að auka og varðveita hróður Menntaskólans í Reykjavík.

Hann var hrókur alls fagnaðar og naut sín vel í góðra vina hópi. Í 20 ára afmælisveislu Skólameistarafélags Íslands fyrir þremur árum söng Guðni af mikilli snilld og heillaði alla veislugesti. Aldurinn hafði ekki sett neitt mark á manninn það kvöldið.

Skólameistarar senda fjölskyldu Guðna innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning um góðan dreng og félaga.

Þorsteinn Þorsteinsson.

Við fráfall Guðna Guðmundssonar, rektors Menntaskólans í Reykjavík, lifna í minningunni margvíslegir atburðir frá samstarfi okkar um nær fjörutíu ára skeið.

Það var haustið 1956, sem Guðni hóf langan starfsferil sinn í skólanum, og fór þegar vel á með okkur, enda tel ég það hafa verið gæfu skólans, hve samkomulag skólastjórnar og kennara, sem og raunar alls starfsliðs þessarar öldnu stofnunar, hefur að öllum jafnaði reynzt gott, a.m.k. nú um langt skeið.

Segja má um Guðna rektor, að á honum hafi áþreifanlega sannazt kenningin um réttan mann á réttum stað og tíma. Á þessum árum var sem sé farið að efna til stofnunar nýrra menntaskóla vegna mikillar stækkunar Reykjavíkurborgar, og gripu menntayfirvöld þá til þess óyndisúrræðis að kenna hinar nýju stofnanir við göturnar, sem þær stóðu við. Þessi lágkúrulega nafngift skyldi nú einnig gilda um hina öldnu stofnun, Menntaskólann í Reykjavík, og hún framvegis bera hið ,,virðulega" nafn Menntaskólinn við Lækjargötu! Jafnaðarmaðurinn Guðni rektor gerði sér þegar í stað fullkomlega ljóst, að hér var of langt gengið í ,,jafnaðarmennskunni" og skólanum til hinnar mestu óþurftar. Neitaði hann nú með öllu að samþykkja þetta litlausa nafn, og kvað svo rammt að þeirri einbeitni hans, að hann þverneitaði að veita viðtöku hverju því plaggi eða pakka, sem svo væri merkt, og endursendi það þegar í stað póstþjónustunni og öðrum sendendum með þeim orðum, að enga stofnun þekkti hann með þessu nafni. Er ekki að orðlengja það, að rektor hafði brátt fullan sigur í viðureign þessari, enda naut hann í henni eindregins stuðnings bæði kennara og nemenda auk ótal annarra. Er enginn vafi á, að hið gamla nafn hefur nú um langt skeið, rúmlega hálfa aðra öld, haft giftudrjúg áhrif á velgengni skólans og glæsilegan árangur nemenda hans, bæði á innlendum vettvangi og alþjóðlegum.

Um leið og ég þakka Guðna rektor, nú þegar hann er allur, langt og gott samstarf okkar og farsælt starf í þágu Menntaskólans í Reykjavík, kennara hans og annarra skólaþegna, sendi ég vandamönnum hans öllum innilegar samúðarkveðjur.

Jón S. Guðmundsson.

Það var með hálfum huga árið 1974 sem ég hringdi í Guðna rektor til að grennslast fyrir um möguleika á kennslu við Menntaskólann í Reykjavík. Ég hafði aldrei hitt manninn en heyrt að hann gæti átt það til að vera snöggur upp á lagið og fljótur til svars. Hann tók mér ákaflega ljúfmannlega og bað mig um að hitta sig við tækifæri.

Þetta sumar fyrir réttum þrjátíu árum hófust kynni okkar Guðna rektors sem hafa staðið óslitið síðan. Síðar sagði Guðni mér að hann hefði að sjálfsögðu ráðið mig því ég uppfyllti mjög mikilvæg skilyrði svo sem að vera kvæntur frænku hans og að vera gamall Víkingur.

Eftirminnilegustu stundirnar eru þegar ég hóf að gera stundatöflur með Guðna árið 1979. Í stundatöflugerðinni var Guðni í essinu sínu. Þarna sátum við tveir á sumrin eftir að aðrir starfsmenn skólans voru farnir í sumarfrí og gerðum stundatöflu næsta vetrar. Síðar bættist svo þriðji Víkingurinn, Árni Indriðason, í hópinn. Þetta voru þægilegar stundir þegar við röðuðum upp helstu forgangskröfum og óskum kennara um kennslu. Óteljandi sjónarmiða þurfti að gæta en Guðna var umhugað um að gera sem flestum til hæfis, ekki síst ef hann vissi að viðkomandi kennari átti við erfiðar aðstæðar að glíma. Hann vildi ekki að mikið bæri á því að hann tæki tillit til séróska en lét það boð út ganga að allir þyrftu að standa sína plikt.

Við þessa vinnu flutu með sögur af gömlum kennurum skólans, sögur frá gömlu Reykjavík og skólaárum hans á Akureyri. Oftast unnum við aðeins hálfan daginn en vorum í sumarfríi hinn helming dagsins. Þegar honum fannst mikið liggja við að ljúka verkinu, óx ákefðin og var þá unnið allan daginn. Matartímar voru stuttir, og skruppum við í mesta lagi út á Laufásveg heim til Katrínar til að gleypa í okkur einhvern mat og Guðni las Alþýðublaðið sem hann sagði mun innihaldsmeira en Moggann þótt það væri tíu sinnum þynnra.

Hann var stöðugt að hvetja og áminna þá nemendur skólans sem hann taldi fulla þörf á að veitt væri aðhald. Árum saman ræddi hann við alla þá nemendur sem hann taldi ekki hafa staðið sig nægjanlega vel á jólaprófum eða verið of mikið fjarverandi

Hann var fljótur að afgreiða málin og stundum sagði hann eitthvað í hálfkæringi sem vildi misskiljast. Hann átti það t.d. til að segja við nemendur sem báðu um leyfi til að fara í keppnisferðir að enginn fengi leyfi nema hann væri að keppa fyrir hönd Íslands eða Víkings. Þegar óharðnaður Valsari eða Framari var í þann veginn að beygja af vegna svarsins þá bætti Guðni kannski við: - "Farið þér nú samt" - og klappaði á öxlina á nemandanum hlæjandi og kvaddi hann með handabandi.

Fátt þótti Guðna erfiðara en að þurfa að tilkynna nemanda að viðkomandi næði ekki stúdentsprófi og gæti því ekki útskrifast með samnemendum sínum. Þetta gerði hann á mjög einlægan hátt en um leið hvatti hann nemandann þannig að ógleymanlegt var á að hlýða. Einhver inspector scholae mun hafa borið Guðna þannig söguna að hann hafi reynst æ betur eftir því sem erindin sem borin voru fram voru alvarlegri, ekki síst ef þau snertu persónuleg vandamál einhvers nemanda.

Árið 1995 lét Guðni af störfum sem rektor við Menntaskólann í Reykjavík. Um sama leyti ákváðum við að halda sambandi á reglubundinn hátt en Guðna sagði að sér þætti ákaflega þægilegt að geta farið eftir stundatöflu eins og hann hefði vanist frá barnsaldri.

Síðan þá hittumst við öll árin ásamt Árna Indriðasyni u.þ.b. einu sinni í mánuði og borðuðum saman hádegisverð, skröfuðum, hlógum og höfðum það skemmtilegt. Sum sumrin brugðum við svo undir okkur betri fætinum og fórum í einsdags jeppaferðir - eitthvað upp á hálendið. Þessir samfundir við Guðna voru alltaf jafnskemmtilegir og ekki brást það að alltaf kom maður í góðu skapi af þessum samfundum.

Á samstarfsárum okkar Guðna átti hagur og velgengni Menntaskólans í Reykjavík hug hans allan í bókstaflegri merkingu. Hann var vakinn og sofinn í því verkefni að gera veg skólans sem mestan. Stundum neyddist hann til að setja í herðarnar til að verjast ósanngjörnum árásum á skólann og lét þá menn hafa það óþvegið. Ekki var hann neitt að erfa slíkt við menn en sagði e.t.v. að þá vantaði örlítið meira "omløb i hovedet".

Að öllum öðrum samstarfsmönnum mínum ólöstuðum á um það bil þrjátíu árum þá held ég að ég hafi hvorki starfað með eins ósérhlífnum manni né manni sem átti jafnauðvelt með að skapa glaðværð og koma manni í gott skap. Þegar hann fann að maður var hálfpirraður út af einhverju kom hann í dyragættina á samliggjandi skrifstofum okkar og sagði: "Elías, hefur þú heyrt af ...?" Og svo kom skemmtisaga af einhverju sérkennilegu fólki sem hann taldi að ég þyrfti að heyra. Að verða lifandi þjóðsagnapersóna eins og Guðni var getur stundum verið erfitt en nú að honum gengnum munum við sem þekktum hann fyrst og fremst sakna hans og minnast hans sem ágæts manns sem setti svip á umhverfi sitt með frábærri kímnigáfu og góðri nærveru.

Blessuð sé minning Guðna Guðmundssonar.

Elías Ólafsson.

Guðni rektor Guðmundsson sagði sjálfur svo frá að hann hafi þegar í menntaskóla ætlað ser að verða kennari. Þessu markmiði sínu náði hann ungur og var því trúr alla ævi. Og hann var ekki "bara" kennari heldur kennari, sem vissi hvað hann vildi. Hann vildi koma öllum nemendum sínum til þekkingar. Sú þekking átti síðan að leiða til frekari þroska og menntunar. Hugmyndir hans um skóla helguðust af þessu. Þeir áttu að veita nemendum sínum trausta undirstöðu undir frekari þekkingarleit. Þetta átti bæði við um góða nemendur og hina lakari. Hann vildi ekki síður fá hina lakari inn í skóla sinn og gladdist yfir því, ef þeim gekk vel. Skóli hans átti ekki að vera neinn "elítuskóli".

Nú er um hálf öld liðin síðan ég fyrst heyrði af Guðna Guðmundssyni, en það var haustið 1952. Hann hafði þá aðeins kennt í eitt ár, en það var þegar farið að tala um hann sem strangan kennara sem kynni að spila á gítar. Hins vegar var hann aldrei kennari minn og ég varð því aldrei vitni að frægu stílabókakasti, hótunum um að henda mönnum út um glugga o.s.frv. Þegar ég hóf kennslu við skólann haustið 1961 var Guðni tekinn til við ýmis störf fyrir Kristin Ármannsson rektor svo sem stundatöflugerð, fjarvistaeftirlit, prófstjórn og fleira. Ætli það megi ekki kallast fyrsta æfing hans í rektorsmennsku. Þessu hélt hann svo áfram í tíð Einars rektors Magnússonar 1965-70. Það hefur líklega verið á þessum árum sem við Guðni fórum að kynnast betur. Hann skikkaði mig í að vera með sér í prófstjórninni og ég kynntist einstakri vinnusemi hans og hæfileikum til þess að bregðast við hverjum vanda.

Þegar Einar Magnússon lét af rektorsstörfum 1970 þótti Guðni Guðmundsson nánast sjálfsagður til þess að taka við hinu virðulega rektorsembætti við elstu menntastofnun landsins. Og hafi einhver verið í vafa um þá stöðuveitingu þá hvarf sá vafi innan tíðar. Hinum nýja rektor gekk vel að ná tökum á starfinu og tókst með ágætum að vinna með nemendum og kennurum skólans. Þetta var ekki hvað síst því að þakka að hann vann verk sín fyrir opnum dyrum og það í bókstaflegri merkingu. Allir áttu aðgang að honum og með því að leggja á sig mikla vinnu, taka engin frí og vera nálega alltaf á staðnum tókst Guðna að hafa alla þræði í hendi sér. Hann var ekki mikið fyrir að halda fundi en ræddi við menn og komst síðan að niðurstöðu, sem hann taldi rétta.

Eftir að Guðni lét af rektorsstörfum 1995 var hugur hans enn bundinn við skólann. Hann var viðstaddur skólasetningu og skólaslit og sótti samkomur kennara. Hann var síðast viðstaddur skólaslit nú í vor og hugðist sækja hina árlegu skemmtun Nemendasambandsins, þar sem hann hafði ávallt verið hrókur alls fagnaðar með sitt Funiculi, funicula og sína Alouettu. Þessa samkomu gat hann ekki sótt vegna óvæntra og óvæginna veikinda. Og nú er rödd hans þögnuð en við minnumst góðs drengs og gæfumanns, sem fékk að starfa við það sem hann stefndi að ungur. Við Steinunn sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðna Guðmundssonar.

Heimir Þorleifsson.

Ég átti þess kost að starfa með Guðna Guðmundssyni í rúman áratug við blaðamennsku. Við vorum blaðamenn á Alþýðublaðinu. Guðni annaðist erlendar fréttir. Ég sá um innlendar fréttir ásamt Sigvalda heitnum Hjálmarssyni. Samstarf okkar var mjög gott. Það var skemmtilegt að vinna með Guðna. Hann var glaðlyndur og lífgaði mikið upp á umhverfið. Það gustaði af honum. Það var engin lognmolla í kringum hann. Guðni var mjög hæfileikaríkur. Hann var tungumálamaður og duglegur starfsmaður. Erlendar fréttir voru í öruggum höndum hjá honum. Hann hlustaði mikið á erlendar útvarpsstöðvar og las að staðaldri öll helstu erlendu blöðin en auk þess fékk Alþýðublaðið á þessum tíma fréttir frá NTB og Reuter. Guðni sá alfarið um að koma þeim fréttum til skila við lesendur Alþýðublaðsins. Hann var mjög vel að sér um erlend málefni. Það var mikill fengur að því fyrir Alþýðublaðið að fá að njóta starfskrafta Guðna.

Það var góður andi á Alþýðublaðinu á þessum árum. Það var ekki stór hópur starfsmanna á blaðinu en góðir starfsmenn. Vinnutíminn var langur og kvöldvaktir til miðnættis eða lengur. Marga kvöldvaktina tókum við Guðni í sameiningu. Við náðum vel saman á þessum árum, við Guðni og Björn heitinn Jóhannsson. Það var margt skrafað og skeggrætt, ekki síst um málefni Alþýðuflokksins og jafnaðarstefnunnar en einnig um alþjóðamál en þau voru Guðna og Birni mjög hugstæð. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Guðna og starfa með honum.

Guðni var alla tíð eldheitur jafnaðarmaður og flokksbundinn Alþýðuflokksmaður. Í bókinni "Guðni rektor", sem Ómar Valdimarsson blaðamaður skráði, segir Guðni, að hann hafi orðið krati um fermingu. En hann gekk ekki í Alþýðuflokkinn fyrr en hann var 35 ára gamall. Guðna farast svo orð í bókinni: "Það er í rauninni aðeins ein ástæða fyrir því, að ég er krati og gekk á endanum formlega í flokkinn: Jafnaðarstefnan höfðar til mín og ég er á móti misrétti og forréttindum. Ég er á því, að allir menn eigi að hafa jafna möguleika." Guðni hafði mjög ákveðnar skoðanir, ekki aðeins á stjórnmálum heldur á flestum málum. Hann hafði mjög sterka réttlætiskennd.

Guðni kvæntist Katrínu Ólafsdóttur árið 1951 og varð þeim sjö barna auðið. Katrín lést 1994. Ég votta börnum hans innilega samúð mína vegna fráfalls föður þeirra. Guð blessi minningu Guðna.

Björgvin Guðmundsson.

Við skólaslit í vor talaði ég við Guðna og sagðist hann þá ekki vera vel góður til heilsunnar. Rúmum mánuði síðar var hann allur. Læknar höfðu sagt honum hvert stefndi og mun hann hafa sagt að kannski næði hann áttræðisafmælinu snemma næsta árs. Um miðjan júní sagðist hann ætla að þrauka fram yfir Ólympíuleikana í ágúst.

Þegar ég fékk fréttirnar af láti Guðna rektors sat ég við stundatöflugerð fyrir næsta vetur. Hugur minn reikaði til liðinna ára en Guðni fékk mig til að hjálpa sér við stundatöflugerð skólans eftir að Þóroddur Oddsson, yfirkennari og ágætur vinur Guðna, hætti því. Við þá vinnu kynntist ég Guðna betur en unnt var í kennslustörfunum einum. Eftir að Guðni hætti sem rektor hafði Elías Ólafsson, konrektor í tíð Guðna, þann sið nokkur sumur í röð að bjóða okkur Guðna með sér í dagsferðir um hálendið. Höfðum við mikla ánægju af því.

Guðni var einhver skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Það var enda eitt af mörgum orðatiltækjum hans að skylt væri að hafa það heldur sem skemmtilegra reyndist. Hann var að sönnu skapmikill og gat rokið upp og æst sig við viðstadda um stund, bæði nemendur og kennara. En sá æsingur stóð aldrei lengi enda sagði hann oft að hann nennti ekki að eyða tíma í slíka hluti. Hann hafði gaman af því að segja skemmtilegar sögur af samferðamönnum sínum lífs og liðnum og hann vildi að menn segðu honum slíkar sögur og ekki spillti að sögurnar væru í vísuformi. Þegar vel tókst til og honum fannst sagan eða vísan góð þá hló hann svo rosalega hátt að svo virtist sem þakið á Menntaskólanum lyftist aðeins.

Með Guðna er fallinn í valinn vandaður maður og einkar eftirminnilegur. Börnum hans og öðrum vandamönnum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Árni Indriðason.

Guðni Guðmundsson var landsþekktur maður á besta aldri þegar við skólafélagar úr Hagaskóla hófum hjá honum enskunám í þriðja bekk MR haustið 1967. Hann var kunnur ensku- og frönskukennari en hafði einnig verið blaðamaður á Alþýðublaðinu og m.a. komið fram sem slíkur á fyrsta starfsári sjónvarpsins 1966-67. Hann var þéttur á velli á þessum tíma og tók í nefið með stæl. Ég man að hann flýtti sér alltaf úr tímum síðdegis á fimmtudögum þegar sinfónían var með tónleika og dreif sig á gamla Blöðruskódanum í Háskólabíó. Gunnar bróðir hans var þá framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar. Guðni lét menn ekki komast upp með moðreyk í tímum, tók hlutina föstum tökum en var sjálfur manna skemmtilegastur þegar vel stóð á. Það var tilhlökkunarefni að mæta í enskutímana þennan vetur.

Fyrir hvað er dagurinn í dag merkilegur annað en að vera afmælisdagurinn minn? man ég að hann spurði 14. febrúar 1968. Þannig komumst við á snoðir um að þessi dagur var jafnframt Valentínusardagurinn. Guðni átti það til að taka lagið á skemmtunum nemenda enda gítaristi góður og gamall Fóstbróðir. Gamlir MR-ingar muna "númerin" hans á árlegum skemmtunum nemendasambandsins þar sem nýstúdentar skemmta sér með afmælisárgöngum.

Vorið 1970 voru skipaðir skólameistarar við fjóra menntaskóla landsins og varð Guðni þá rektor Menntaskólans í Reykjavík. Þá voru umbrotatímar í menntamálum en Guðni var ekki gefinn fyrir tískusveiflur í þeim efnum þó svo skólinn tæki auðvitað eðlilegum breytingum í tímans rás.

Hann skilaði skólanum af sér aldarfjórðungi síðar og hafði þá af mikilli alúð staðið dyggan vörð um góðar hefðir og gömul gildi og útskrifað nokkur þúsund stúdenta. Hann leit svo á, að á meðan bestu háskólar í heimi tækju athugasemdalaust við stúdentum úr MR væri skólinn á réttri braut.

Ég kynntist Guðna vel á menntaskólaárunum. Fyrsta árið sem hann var rektor gegndi ég embætti inspectors scholae, forseta nemendafélagsins. Hann kenndi mér aftur ensku þann vetur og við strákarnir grínuðumst með að hann segði sömu sögurnar þá og í þriðja bekk. Hann tók slíkri stríðni vel enda gamansamur með afbrigðum. Samstarf okkar þennan vetur var náið og gott og héldum við sambandi alla tíð síðan. Inga Jóna, kona mín, og hann sátu síðar saman í útvarpsráði í mörg ár og gaf það samstarf tilefni til ánægjulegra endurfunda.

Mig langar að minnast sérstaklega á þau tengsl sem Guðni rektor ræktaði við Brandeis-háskólann, sem staðsettur er í útjaðri Boston í Massachusetts í Bandaríkjunum. Mér bauðst námsstyrkur frá þessum skóla strax að loknu stúdentsprófi 1971 fyrir milligöngu Íslensk-ameríska félagsins og bandarískrar stofnunar. Strax þennan vetur tókst hins vegar að koma á beinu sambandi milli Guðna rektors og aðila við Brandeis með þeim árangri að í mörg ár stóð stúdent úr MR til boða hár námsstyrkur við Brandeis, en hann er einhver dýrasti háskóli í Bandaríkjunum. Guðni lagði mikið upp úr þessum tengslum og ég hef alla tíð verið pínulítið hreykinn af mínum atbeina að því að þau komust á. Mér er kunnugt um að stúdentarnir úr MR stóðu sig vel við Brandeis en leitt þótti mér að Guðni skyldi aldrei komast þangað sjálfur í heimsókn.

Guðni Guðmundsson var litríkur persónuleiki og margt til lista lagt.

Þrátt fyrir hrjúft yfirborð á stundum var hann næmur og hlýr, glettinn en umfram allt traustur og vandaður skólamaður. Hann lagði áherslu á að hlutverk framhaldsskólanna væri fyrst og fremst að veita nemendum góða almenna grunnmenntun áður en sérhæfing á háskólastigi tæki við. Hann var metnaðarfullur fyrir hönd skólans síns, gerði miklar kröfur til kennara og nemenda og ekki að ástæðulausu að hann varð eins konar goðsögn og ímynd MR á síðari hluta starfsævinnar.

Ég kveð gamlan læriföður og samstarfsmann með virðingu. Við Inga sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Geir H. Haarde.

Fyrir fáeinum dögum barst sú fregn, að Guðni Guðmundsson væri látinn. Guðni er mér mjög minnisstæður af ýmsum ástæðum, og hans skal minnst hér í fáeinum orðum.

Guðni kenndi mér ensku og frönsku í MR á árunum 1960-1962. Hann var áhugasamur um kennsluna og einkar ósérhlífinn. Hann gekk og eftir því, að nemendur stunduðu námið vel. Engin lognmolla var í tímum hjá Guðna, heldur þvert á móti líf og fjör. Hann var svo sannarlega "glaður og reifur", eins og segir í Hávamálum.

Sumarið 1970 bauð Guðni rektor mér kennslu í MR, og þáði ég boðið. Það var gott að vinna hjá honum. Unnt var að treysta orðum hans, og ef í harðbakkann slægi, gat maður verið viss um að fá sanngjarna úrlausn mála. Það var einn af mörgum kostum Guðna, að hann lét óskir sínar í ljós með skýrum hætti. Við upphaf kennslu hafði ég ekki fyllilega lokið námi í uppeldis- og kennslufræðum. Er Guðni ræddi þetta við mig, taldi ég litla þörf á skjölum um það nám. En Guðni sagði þá ákveðinn, að ég skyldi ljúka þessu sem fyrst, og ekki orð um það meir! Ég gerði eins og yfirmaðurinn óskaði, og varð ég honum síðar þakklátur fyrir það.

Margar minningar koma í hugann, þegar Guðni er kvaddur. Ég man, þegar hann sýndi mér eitt sinn teikningar af húsbyggingu. Hann var þá glaður, og eflaust taldi hann þá, að betri tímar færu nú í hönd. En hann varð hér sem oftar fyrir vonbrigðum. Guðni kom í Háskólabíó, þegar MR var slitið í vor, og eftir athöfnina kom hann í kaffiboð í skólanum. Hann virtist hress, og ekki grunaði mig, að þá sæi ég hann í síðasta skipti.

Guðni var raungóður maður með ríka réttlætiskennd. Hann var hrifnæmur, örgeðja og tilfinningaríkur, allra manna ófalskastur. Sumum fannst hann stundum fullharður í tilsvörum, en þeir sem þekktu hann vel, vissu, að þetta var aðferð hans til að dylja viðkvæma lund.

Að lokum eru Guðna þökkuð ljúf og góð kynni á liðnum árum. Ég sendi börnum hans og öðrum vandamönnum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Guðna Guðmundssonar.

Ólafur Oddsson.

Kveðja frá Nemendasambandinu

Það má nú ekki minna vera en að Nemendasamband Menntaskólans í Reykjavík sendi hlýjar kveðjur þegar hinn aldni rektor hefur nú kvatt þetta tilverustig, svo oft hefur hann glatt hugi þeirra sem í þessum ágætu samtökum eru.

Nemendasamband Menntaskólans í Reykjavík er svolítið einkennilegt félag. Enginn veit tölu þeirra sem eru félagar og engin eru árgjöldin; meira að segja er svolítið á huldu hvenær sambandið varð til. Eitt öruggt lífsmark er þó Nemendasambandshófið sem haldið er á hverju vori, þegar nýjustu hvítu kollarnir eru settir upp. Þar var Guðni rektor ómissandi. Hann var prúður framan af hófi, þrátt fyrir alþekkt viðurnefni, en af því að maðurinn var með afbrigðum músíkalskur, fór þó ævinlega svo, að fyrr en varði var Guðni kominn í forystuhlutverk, tók lagið, svosem eins og eina Alúettu eða Fúnícúlífúnícúla við ómældan fögnuð viðstaddra.

Það er ekki lítil ábyrgð að vera meginmótandi uppvaxandi kynslóðar. Og úr MR hafa komið margir mætustu þegnar þessarar þjóðar. Á tæplega 50 ára ferli sem skólamaður, þar af í aldarfjórðung sem rektor hins sögufræga skóla, hefur Guðni kynnst mörgum kynslóðum og margar kynslóðir kynnst honum, og það hlýtur að hafa verið skemmtilegt. Sá sem hér heldur á penna kynntist Guðna fyrst sem ungum kennara - hann var þá að þreifa sig áfram - kannski ekki alveg búinn að finna persónuleikanum mót - og eins og títt er um unga kennara, þá var honum tekið með hæfilegri varfærni. En svo fór hann með okkur í Selið og brátt var hann orðinn uppáhaldskennari. Og lögin sem hann kenndi okkur þar syngjum við enn í árgangnum. Seinna unnum við Guðni saman í blaðamennsku - meira að segja sömdum einu sinni leikgagnrýni saman - og þar kynntist ég öðrum hliðum, samviskuseminni, ljúfmennskunni, hæfninni til að setja sig inn í mál og finna kjarnann. Litríkur var hann auðvitað og skemmtilegur, en enginn hégómamaður og gæddur bæði réttlætiskennd og heilbrigðri skynsemi.

Aðrir munu verða til þess að lýsa daglegum störfum Guðna á hans langa ferli sem skólamanns. Við í Nemendasambandsstjórninni horfðum auðvitað aðeins álengdar á þau störf. Hins vegar blasti við okkur eins og reyndar hverjum þeim sem lét sig einhverju skipta, að Guðni hefur verið afar farsæll á ferli sínum. Jafnfarsæl voru öll okkar skipti við hann og því sendum við aðstandendum hans í dag innilegar samúðarkveðjur með þakklæti og virðingu.

F.h. Nemendasambands Menntaskólans í Reykjavík.

Sveinn Einarsson.

Kennarinn beinir haukfránum augum yfir bekkinn. Loks sér hann af óbrigðulu innsæi hverja verður best að taka upp í fyrsta enskutíma busanna. Fyrir valinu verða ég og sessunautur minn, Eysteinn Hafberg. Valið heppnast fullkomlega miðað við þann tilgang, sem virðist vaka fyrir kennaranum, að þetta verði eftirminnilegasta kennslustund lífs okkar og geri okkur ljóst að nú sé kominn tími til að drengir verði að mönnum og að hér dugi ekkert væl eða gauf, því að þetta sé lærði skólinn í Reykjavík en ekki eitthvert andskotans námskeið, eins og hann orðar það. Mestöll kennslustundin fer í þessa busavígslu okkar tveggja; við erum dregnir sundur og saman í háði, okkur er rúllað upp, hann tollerar og saltar okkur í þessari eldskírn svo að bekkjarfélagarnir veltast um í hlátri. Kannski umdeilanlegir kennsluhættir en ekki hefði ég viljað missa af þessari hundahreinsun og lífsreynslu fyrir nokkurn mun; hún er á við mörg skólaár í leiftrandi minningu um hinn hvetjandi kennara, Guðna Guðmundsson, vin, sem til vamms sagði. Því að frá og með þessari fyrstu brýnu okkar tókst með okkur undursamleg vinátta sem á yfirborðinu virtist oft stormasöm og oft teflt á tæpasta vað en var í raun sönn og djúp. Hann vildi koma okkur til manns og lagði sig fram við það. Guðni uppnefndi stundum nemendur enda uppnefndur sjálfur. Í 5. bekk lék ég hirðfífl í Þrettándakvöldi Shakespeares og Guðni kvittaði strax í næsta tíma með þessari athugasemd: "Andskotinn hafi það að með frammistöðu yðar í þessu leikriti hafið þér stimplað yður inn sem yfirfífl nemenda það sem þér eigið eftir í þessum skóla." "Það er ekkert verra en að vera kennari," svaraði ég. "Hvað meinið þér?" spurði Guðni. "Jú, svo ég vitni í leikritið," svaraði ég, betra er viturt fífl en flónskur vitringur. "Svei mér þá," sagði Guðni, "ef þér eruð ekki mesta spitzbub und galgenvogel, sem hefur komið í þennan skóla." "Segjum tveir," svaraði ég. "Kjafturinn á yður!" hvein í Guðna. "Líka á yður," svaraði ég. Þannig voru samskipti okkar og við elskuðum þau.

Í hvert skipti eftir þetta sagði hann þegar hann tók mig upp: "Fíflið, lesa!" Og ég byrjaði að lesa. Yfirleitt hafði hann betur í þessum snerrum enda frábær húmoristi. Og nú er hann farinn og það er tómlegt þegar þessi einhver minn besti og skemmtilegasti vinur er allur. Nú getur hvorugur okkar lengur gantast á kostnað hins eins og við gerðum alltaf. Fyrir fullu bíóhúsi af nemendum, mörgum áratugum eftir fyrstu kennslustundina, gafst tækifærið til að jafna leikana án þess að hann væri í aðstöðu til að svara fyrir sig, því engan hafði hann hljóðnemann. Þá var gaman að líta yfir salinn og á Guðna og segja: "Hugsa sér, hvað allt hefur breyst síðan ég var í skóla. Hér lítur maður yfir kennara og nemendur skólans og þekkir ekki kjaft nema Guðna." Og úr leiftrandi augum hans fannst mér ég lesa: "Oh, helvítið yðar; ósvífinn eins og fyrri daginn."

En klappandi hendur hans sögðu það sem segja þurfti; að það er yndislegt að fá að lifa og mega láta gamminn geisa. Fyrir örfáum árum söng Guðni Alúettu á Broadway á ógleymanlegan hátt. Hafði engu gleymt. Nú mun enginn hérna megin grafar geta framar sungið Alúettu með slíkum meistaratöktum og lagt húsið að fótum sér. En ef okkur auðnast að hittast handan við móðuna miklu, hlakka ég til að heyra hann taka á móti mér sem nýgræðingi í annað sinn og segja: "Mér þykir þér vera bjartsýnir að halda að þér getið orðið yfirfífl á þessum stað líka, andskotinn hafi það. Hér eru gerðar kröfur."

Ég veit að minningarorð í þeim dúr, sem hér hafa verið rituð, tíðkast yfirleitt ekki. En orðaskipti í anda Guðna voru heldur ekki venjuleg og ég held að honum hefði fundist út úr stíl að fara að breyta því í mærð eða væmni. Ég er einn þeirra mörgu sem eiga honum mikið að þakka, sakna þessa mikla gleðigjafa og velgjörðamanns sárt og sendi ættingjum og aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Ómar Þ. Ragnarsson.

Guðni Guðmundsson átti til skemmtilegra að telja; hann var litli bróðir hans Bjarna kuggs. Það vissi ég, þegar ég kom í 5. bekk Menntaskólans og kynntist enskukennaranum, sem strunsaði inn í stofu A-bekkjarins í kvisti skólahússins og þrælaði okkur stelpunum gegnum bókmenntatexta, sem voru ekki allir af léttara taginu. Hann tók ekki á okkur með neinum silkihönzkum og skammaði okkur óspart fyrir leti og hyskni, þegar okkur rak í vörðurnar. Stundum fannst mér við eiga það skilið, stundum ekki, því að hver gat búizt við, að nemendur með aðeins fjögurra vetra enskunám að baki gætu skilið og þýtt viðstöðulaust leikritið Julius Caesar eftir Shakespeare. Ræður þeirra fjandmannanna, Brútusar og Antoníusar, áttum við líka að kunna utanað og geta flutt þær uppi við töflu. Það var reyndar snöggtum auðveldara en þýðingin.

Þetta var gervið, sem stundakennarinn ungi hafði valið sér, og ég skildi það, þegar ég vissi, að hann hafði áður kennt í Gagnfræðaskóla verknáms strákum, sem voru í skóla til að læra allt annað en erlend tungumál. Þar hafði hann beinlínis þurft að berja nemendur til bókar og sýna strákunum, hver væri sterkastur. Ég er þakklát Guðna fyrir kennsluna þennan vetur, og ræðu Antoníusar má heita, að ég kunni enn.

Með aukinni reynslu og öryggi í kennarastól, fór að skína æ meir í eðlislæga kátínu Guðna og styttast í hláturinn, svo að ég tali ekki um rektorsárin, þegar hann naut þess að byrja starfsdaginn á að skemmta sér við að kenna einn tíma í 6. bekk.

Það var glaðværi Guðninn, sem ég kynntist á kennarastofunni, þegar atvikin höguðu því svo, að ég var ráðin hálfur rektorsritari, þá nýorðin stúdent. Pálmi rektor Hannesson, Stefanía, fráfarandi rektorsritari, og allir, sem höfðu kennt mér, tóku mér opnum örmum. Þegar hringt var út, og kennararnir komu eftir átökin við kennsluna, fylltust kennarastofan og skrifstofa rektors hlýju, glaðværð, glettni og hlátrasköllum. Þar var Guðni kominn í sitt "element".

Guðni var rektor Menntaskólans um aldarfjórðungs skeið. Fyrstu rektorsár hans voru bæði umbóta- og umbrotatímar í skólamálum. Þá urðu breytingar á námsskipan í Menntaskólanum, deildum var fjölgað, og nemendur áttu fleiri kosta völ. Ýmsir mætir menn, þeirra á meðal þjóðkunnir skólamenn, vildu ganga miklu lengra. Þeir boðuðu, að í öllum framhaldsskólum skyldi vera áfangakerfi, en ekki árgangar og bekkir. Margir vildu helzt, að skólarnir yrðu allir með "fjölbrautasniði" og Menntaskólinn í Reykjavík yrði Fjölbrautaskólinn við Lækjargötu. Handleiðsla ætti að koma í stað prófa og einkunna. Hætt yrði að kenna svokölluð fortíðarfræði. Sumir vildu jafnvel enga málfræði kenna, nemendur ættu að læra erlend tungumál bókarlaust eins og börn.

Guðni virti slíka "hvatvísi og nýjungagirni" að vettugi. Hann hélt góðu heilli í bekkjakerfi, hefðbundin stúdentspróf og vildi hvergi slaka á námskröfum. Haustið 1972 lét hann líka hefja kennslu í grísku og fornaldarfræði fyrir þá, sem þess óskuðu, en gríska hafði ekki verið kennd síðan Steingrímur rektor Thorsteinsson útskrifaði síðustu stúdentana frá Lærða skólanum vorið 1909.

Guðni rak Menntaskólann af dugnaði, ráðdeild og sparsemi, en krafta sína sparaði hann aldrei og lagði á sig ómælda vinnu í þágu skólans bæði vetur og sumar. Hann var síðastur rektora til að ráða sér konrektor, en naut þess að hafa duglega rektorsritara og vinnufúsa kennara, sem hann gat falið ýmis verkefni.

Það er alkunna, að Guðni átti það til að vera stórorður og hranalegur í viðmóti við nemendur og kennara, en þeir, sem þekktu hann, vissu að það var brynja og undir henni sló gott, hlýtt og stundum viðkvæmt hjarta. Guðni var drenglundað ljúfmenni, sem vildi hvers manns vanda leysa, þó að hann tæki mönnum ekki alltaf vel, þegar þeir báru upp erindi sín.

Guðni var gæfumaður í einkalífi. Hann átti góða, greinda og gullfallega konu, Katrínu Ólafsdóttur. Hún lézt fyrir rúmum áratug eftir langvarandi veikindi. Það voru Guðna erfið ár, og þá var hann líka farinn að lýjast, en hann átti marga góða að, bæði innan fjölskyldunnar og í Menntaskólanum. Þeim þótti vænt um hann og reyndu að létta honum lífið.

Guðni var félagi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur rúma tvo áratugi, og þar eru haldnir hádegisfundir á hverjum miðvikudegi árið um kring. Guðni mat þann félagsskap mikils, átti þar marga vini og vildi ekki missa af nokkrum fundi.

Síðast talaði ég við Guðna á klúbbfundi viku fyrir andlát hans, og það var gott að heyra hann gera að gamni sínu og gantast sem fyrr við sessunautana, þó að nokkuð væri af honum dregið og við vissum öll, hvert stefndi. Fáum mönnum hef ég kynnzt, sem hefur tekizt betur að lifa eftir heilræði Hávamála: "Glaður og reifur skyli gumna hver, unz sinn bíður bana."

Ég kveð Guðna með söknuði, en er glöð yfir að hafa þekkt hann hálfa öld og átt hann að læriföður, starfsbróður, húsbónda og vini.

Ég votta börnum hans og öðrum, sem syrgja hann, innilega hluttekningu mína og minna.

Ragnheiður Torfadóttir.