Kanadamaðurinn John Bosnitch (t.h.) og Ichiji Ishii, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Japans, efndu til fréttamannafundar í Tókýó í gær þar sem þeir svöruðu spurningum og ræddu mál Fischers.
Kanadamaðurinn John Bosnitch (t.h.) og Ichiji Ishii, fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra Japans, efndu til fréttamannafundar í Tókýó í gær þar sem þeir svöruðu spurningum og ræddu mál Fischers. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjálfskipaður ráðgjafi Bobbys Fischers segir að heimsmeistarinn fyrrverandi hafi sætt harðræði þar sem honum er haldið föngnum á Narita-flugvelli í Tókýó. Helgi Snær Sigurðsson ræddi við John Bosnitch í gær.

John Bosnitch, kanadískur almannatengslaráðgjafi og blaðamaður, hefur tekið að sér hlutverk ráðgjafa í máli Bobbys Fischers, fyrrum heimsmeistara í skák. Fischer var handtekinn á Narita-flugvelli í Tókýó, höfuðborg Japans, hinn 13. þessa mánaðar og kann að verða framseldur til Bandaríkjanna fyrir þá sök að hafa brotið gegn alþjóðlegu viðskiptabanni gagnvart Júgóslavíu árið 1992 þegar hann háði einvígi þar í landi gegn Borís Spasskí.

"Ég kom af fundi Fischers fyrir fimm mínútum," sagði Bosnitch í símaviðtali við Morgunblaðið í gær. Hann var þá staddur á Narita-flugvelli í nágrenni Tókýó þar sem Fischer er haldið. Bosnitch sagði flugvallarbygginguna tiltölulega nýtískulega og því hvarflaði það varla að fólki að þar væri að finna fangelsi.

Bosnitch sagði líðan Fischers góða miðað við aðstæður. "Honum er haldið á stað sem kallaður er "varðhalds-miðstöð" en er í raun ekkert annað en lítill, gluggalaus fangaklefi. Þar hefur hann verið frá 13. júlí, í dag er 29. júlí, þannig að hann hefur ekki séð dagsljós í 16 daga. Hann reykir ekki og hefur ofnæmi fyrir sígarettureyk, en þó er loftið þarna reykmettað. Hann hefur kvartað yfir því en ekkert tillit er tekið til þess."

Bosnitch segir erfitt að ná tali af Fischer þar sem hann fái ekki að hringja og símtöl til hans séu takmörkuð. "Við höfum leyfi til að tala við hann í hálftíma á dag. Þar af leiðandi er mjög erfitt að vinna að málsvörninni. En þrátt fyrir þessa örðugleika og þá staðreynd að hann var ekki handtekinn með löglegum hætti heldur í raun rænt, þá er hann jákvæður, skýr í hugsun og undirbýr málsvörn sína og baráttu." Fischer hafi hingað til ekki viljað "göfga þessa ólöglegu aðgerð", eins og hann hafi orðað það sjálfur, með því að ráða sér lögfræðing.

Beittur harðræði við handtöku

Bosnitch segir Fischer hafa verið beittan harðræði við handtökuna. Þegar þeir hafi hist fyrsta sinni, rúmri viku eftir handtökuna, hafi Fischer verið marinn og skorinn og brotið úr einni tönn. Þeir Fischer megi aðeins ræða saman með þykkt gler á milli sín svo ekki sé hægt að rétta honum hluti. Hann megi ekki einu sinni fá penna. Hann hafi við höndina lagabækur og uppsláttarrit en fátt annað.

Bosnitch sendi japanska skáksambandinu bréf þar sem hann óskaði þess að fá að aðstoða Fischer þar sem hann hefði þónokkra lagaþekkingu og væri mikill aðdáandi hans frá barnæsku. Sambandið samþykkti það. Bosnitch segist þekkja vel sögu Fischers og vita að Fischer sé í fangelsi af þeirri ástæðu einni að hann hafi ögrað bandarískum stjórnvöldum með skákeinvíginu gegn Spasskí í Júgóslavíu þrátt fyrir viðskiptabann. Enginn skipuleggjenda skákeinvígisins hafi verið ákærður vegna einvígisins og Spasskí ekki heldur sem þó fékk greitt fyrir.

"Handtökuskipunin á hendur honum [Fischer] var gefin út í Bandaríkjunum í desember árið 1992. Vegabréfið hans rann út 1997. Þá gekk hann inn í bandarískt sendiráð án þess að vera handtekinn og afhenti útrunnið vegabréf sitt og fékk nýtt í staðinn. Það átti að gilda til 2007, í tíu ár, " segir Bosnitch. Fischer hafi oft komið til Japans og fengið vegabréfsáritun nú seinast í mars á þessu ári án nokkurra vandræða. Þegar hann hafi síðan ætlað að yfirgefa landið 13. júlí hafi hann fengið brottfararstimpil. Stuttu síðar hafi annar eftirlitsmaður birst og ógilt áritunina. Fischer hafi verið hnepptur í varðhald og barinn.

"Næsta dag sögðu verðirnir honum að ræðismaður frá bandaríska sendiráðinu hér [í Japan] væri kominn og vildi hitta hann. Þeir spurðu hvort Bobby vildi hitta hann en hann neitaði því," segir Bosnitch. Verðirnir hafi þá ítrekað að Fischer yrði að hitta hann og að lokum hafi hann verið "dreginn" á fund ræðismannsins gegn vilja sínum. Fischer hafi tilkynnt ræðismanninum í upphafi viðtalsins að hann myndi nýta sér þagnarrétt sinn.

Ræðismaðurinn hafi talað dágóða stund þar til Fischer hafi spurt hann að nafni. "Peter" hafi hann svarað og Fischer þá beðið um eftirnafn en fengið það svar að það kæmi honum ekki við. Ræðismaðurinn hafi þá ætlað að fara og taka með sér vegabréf Fischers en Fischer hafi mótmælt því og sagt það ólöglegt þar sem vegabréfið væri hans eign. Ræðismaðurinn hafi þá sagst ætla að skilja vegabréfið eftir og farið. Þegar hann hafi verið farinn hafi Fischer beðið um vegabréfið og komist að því að ræðismaðurinn hafi tekið það. Ræðismaðurinn hafi logið að honum.

Bosnitch segir bandarísk lög mæla fyrir um hvernig gera eigi vegabréf upptæk. Handhafi þess hafi í raun þrefaldan áfrýjunarrétt.

Braut ræðismaðurinn m.ö.o. lög?

"Að sjálfsögðu! Ræðismaðurinn lét Bobby hafa ljósrit af bréfi, sem bandaríska sendiráðið á Filippseyjum átti að hafa sent "Robert James Fischer" en það er ekkert heimilisfang á bréfinu og hvergi kemur fram hvert það var sent. Það er dagsett 11. desember en þá var Bobby í Sviss," segir Bosnitch. Hann kveður Fischer aldrei hafa séð bréfið. Hann og Bosnitch hafi nú krafist þess að fá að sjá bréfið sjálft (en ekki ljósrit) og vilji vita hvert það hafi verið sent. Áfrýjunartíminn eigi þar að auki að miðast við þann dag sem tekið sé við bréfinu og þeir sem færi mönnum slík bréf þurfi að sverja viðtöku þess eið.

Fyrirfram ákveðin niðurstaða

Bosnitch segir Fischer ávallt hafa ferðast undir eigin nafni og því aldrei farið leynt með hver hann væri. Í október 2003 hafi allar blaðsíður vegabréfs hans verið fullar, þá hafi hann verið í Sviss. Bandaríska sendiráðið í Bern hafi bætt blaðsíðum í vegabréfið 6. nóvember og því tekið sér marga daga til að fara yfir mál Fischers. Þá hafi hann flogið til Japans, farið til Hong Kong í mars, þá Kína og svo aftur til Japans.

"Hann fór aldrei til Filippseyja á þessu tímabili [frá útgáfu endurnýjaðs vegabréfs í Bern fram að handtökunni]," segir Bosnitch.

Bosnitch segist hafa beðið um afrit af bréfi frá bandaríska sendiráðinu í Japan þar sem farið er fram á að Fischer sé hnepptur í varðhald en fengið þau svör að það teldist "leynilegar upplýsingar". "Í bréfi sendiráðsins dagsettu 8. júní til japanskra yfirvalda segir að vegabréf Bobbys hafi verið ógilt 21. nóvember. Það er enn ein lygin," segir hann. Ef það hefði verið rétt hefði bréf átt að fara frá bandaríska sendiráðinu í Sviss eða því landi þar sem Fischer var staddur á þeim tíma.

15. júlí hafi fyrstu yfirheyrslur verið haldnar. Þær hafi átt að leiða til niðurstöðu um framsal hans. Fischer og lögregluvarðstjóri hafi setið þar einir í litlu herbergi. "Varðstjórinn ræddi við hann í tvær klukkustundir og Bobby þagði...að tveimur tímum liðnum vildi varðstjórinn gera hádegishlé en Bobby vildi það ekki, sagðist ekki vera svangur." Bosnitch hefur eftir Fischer að þeir hafi rifist dágóða stund um hádegishléið. Varðstjórinn hafi þá staðið vandræðalega upp, náð í skjalatösku og dregið upp niðurstöðu yfirheyrslunnar, meira að segja innsiglaða.

Bosnitch segist hafa hitt Fischer fyrst hinn 15. þessa mánaðar og verið við fyrstu áfrýjunaryfirheyrslurnar föstudaginn 23. júlí. Hann hafi blandað sér í málið sem ráðgjafi Fischers en Fischer hafi neitað að undirrita heimild til þess að hann yrði ráðgjafi þar sem heimsmeistarinn fyrrverandi hafi ekki viljað viðurkenna lagalegt gildi varðhaldsins. Þá hafi Bosnitch verið sagt að yfirgefa herbergið en hann neitað því og sagt að hann hefði öll málsvarnargögn Fischers og því þyrftu japsönsk yfirvöld að viðurkenna hann. Hann hafi á endanum undirritað skjalið sjálfur og útnefnd sjálfan sig sem ráðgjafa Fischers í málinu. Hann hafi verið samþykktur sem "vinur dómstólsins" en ekki beinn, lagalegur ráðgjafi. Við hafi tekið yfirheyrslur yfir Fischer sem í upphafi hafi átt að taka 20 mínútur en tekið 23 klst. þess í stað. Eftir tíu tíma yfirheyrslur á þriðjudegi hafi Bosnitch verið stöðvaður í málsvörn sinni og áfrýjuninni hafnað. Þetta hafi verið skrípaleikur.

Áhrifamikill stjórnmálamaður ábyrgist Fischer

Bosnitch segir áhrifamikinn, japanskan stjórnmálamann, Ichiji Ishil, fyrrum aðstoðarutanríkisráðherra og þingmann á japanska þinginu, hafa gengist í ábyrgð fyrir lausn Fischers þannig að hann geti unnið að vörn sinni við mannsæmandi aðstæður. Fischer hafi undirritað beiðni um að vera leystur úr fangelsi. Mál Fischers er nú í höndum dómsmálaráðherra Japans og óvíst hvenær hann fellir úrskurð sinn. Bosnitch segir það geta tekið allt frá örfáum dögum upp í sex mánuði.

Bosnitch leitar nú tilboða um pólitískt hæli frá öðrum ríkjum og segir líklegt að Fischer sæki um þýskt vegabréf þar sem faðir hans hafi verið þýskur. Verði hann framseldur til Bandaríkjanna eigi hann von á tíu ára fangelsisdómi. "Bobby er 61 árs gamall og telur það því jafngilda dauðadómi."

helgis@mbl.is