4. ágúst 2004 | Minn staður | 435 orð | 1 mynd

Hljóðfæraverslunin Rín flutt í Brautarholtið

Helmingi stærri verslun og aðkoman betri

Skemmtilegt: Magnús Eiríksson tónlistarmaður er ánægður í hljóðfærabransanum.
Skemmtilegt: Magnús Eiríksson tónlistarmaður er ánægður í hljóðfærabransanum. — Morgunblaðið/Þorkell
Reykjavík | "Við erum enn þá að róta," segir Magnús Eiríksson, tónlistarmaður og eigandi hljóðfæraverslunarinnar Rín, en verslunin skipti um aðsetur nú um mánaðamótin júní-júlí og segir Magnús að það sé enn þá verið að koma sér almennilega...
Reykjavík | "Við erum enn þá að róta," segir Magnús Eiríksson, tónlistarmaður og eigandi hljóðfæraverslunarinnar Rín, en verslunin skipti um aðsetur nú um mánaðamótin júní-júlí og segir Magnús að það sé enn þá verið að koma sér almennilega fyrir.

"Við erum ekki alveg búin að raða þessu upp eins og við viljum hafa þetta," segir hann en býst þó við því að allt verði komið upp og búðin orðin skemmtileg fljótlega.

Verslunin hafði um áratuga skeið verið á Frakkastíg 16 en nú hefur hún flutt að Brautarholti 2 þar sem gamla Japis-verslunin var. "Búðin sjálf er svona helmingi stærri en sú gamla. Svo lítill lager hérna inn af." Í versluninni er því hægt að hafa helmingi fleiri hljóðfæri til sýnis en áður og segir hann að pantaðar hafi verið nýjar vörur sem séu óðum að koma.

Hann segir að það sé ekki hægt að neita því að þetta sé betri staður til að versla á. "Það er betra að fá bílastæði hérna, það var nánast útilokað á gamla staðnum." Þó segist hann sjá eftir gamla hverfinu enda búinn að vera þar lengi, en nýja búðin sé þó ekki svo langt frá þeirri gömlu þó að hún sé í öðru póstnúmeri í dag. Með Magnúsi í versluninni vinna þrír synir hans, auk Guðna Ágústssonar verslunarstjóra.

"Hann er skemmtilegur og hefur alltaf verið," segir Magnús spurður um hvernig hljóðfærabransinn sé í dag og bætir því við að áhugi á því sem menn séu að gera skipti öllu máli. Hann segir að fólk á öllum aldri komi til hans að versla. "Það er alveg frá fimm, sex ára og alveg upp í grafarbakkann." Hann segir öll möguleg hljóðfæri koma til greina, bæði hjá yngstu og elstu hljóðfærakaupendunum. Aðspurður hvort mikið sé um að fólk spyrji álits og leiti leiðbeininga varðandi hljóðfæri segir Magnús það vera mjög misjafnt. "Sérstaklega eru þessir yngri strákar með mjög fastmótaðar hugmyndir um hvað þeir vilja, og þú ekur þeim ekkert til."

Sakna gömlu holunnar

Þegar Magnús er inntur eftir því hvað gamlir viðskiptavinir hafi að segja um nýju verslunina segist hann fá blendin viðbrögð. "Sumir sjá eftir gömlu holunni en aðrir eru kátir með að fá bílastæði loksins. Þurfa ekki að keyra þarna í þrjú korter kannski að leita að bílastæðum. Þegar þú ert búinn að versla mjög lengi á sama stað þá kemur sérstakur andi, bæði þeirra sem hafa verið og þeirra sem eru að versla. Það eru margir búnir að vinna í því, mjög margir. Þekktir hljóðfæraleikarar reyndar.

Friðrik Karlsson, KK, svo ég nefni nú bara nokkra góða gítarleikara," segir Magnús og heldur áfram "Það tekur svolítinn tíma að gefa nýrri búð karakter."

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.