Hveragerði | Orkuveita Reykjavíkur og Hveragerðisbær undirrituðu í gær samning um kaup OR á Hitaveitu Hveragerðis. Það voru þeir Þorsteinn Hjartarson, forseti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar, og Alfreð Þorsteinsson, formaður stjórnar OR, sem undirrituðu samninginn í glampandi sól og hita við hverasvæðið í Hveragerði.
Orkuveita Reykjavíkur kaupir Hitaveitu Hveragerðis með öllum borholum, götuæðum og öðrum búnaði og verður hitaveitan hluti af starfsemi OR framvegis. Í haust verður opnuð sérstök þjónustuskrifstofa OR í Hveragerði.
Kaupverð er tvö hundruð og sextíu milljónir króna og er kaupverðið m.a. miðað við áætlanir um endurnýjun og uppbyggingu á hitaveitukerfum á þann hátt, sem gert hefur verið á síðustu árum. Við yfirtöku á rekstrinum mun OR færa gjaldskrá á veitusvæðinu til samræmis við gjaldskrá OR í Reykjavík, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá samningsaðilum.
Fyrir utan uppbyggingu veitukerfanna og endurnýjun þeirra, kemur fram í ákvæðum samningsins að Orkuveita Reykjavíkur muni beina verkefnum tengdum Heilsuborgarverkefninu að Hveragerði að svo miklu leyti sem það er talið henta og í samráði við stjórnendur Heilsuborgarverkefnisins og Hveragerðisbæjar.
Aðgerðir í þágu ferðafólks
Í fréttatilkynningunni segir að Orkuveita Reykjavíkur muni í kjölfar undirritunar samningsins halda áfram að sinna umbótum og aðgerðum í þágu ferðafólks á Hellisheiði og Hengilssvæðinu. Verkefni sem fallið geta undir þetta eru t.d lagfæring og merking göngu- og reiðleiða í samstarfi við aðra hagsmunaaðila, uppgræðsla og gerð upplýsingaskilta fyrir ferðamenn.Þá mun Orkuveitan, skv. nánara samráði við Hveragerðisbæ, aðstoða við nauðsynlegar endurbætur á hverasvæðinu í Hveragerði.
Ennfremur kemur fram að OR muni leggja ljósleiðara (háhraðanet) um Hveragerðisbæ samkvæmt nánara samkomulagi og í samráði við bæjaryfirvöld. Ljósleiðarinn verður eign og alfarið rekinn á ábyrgð OR. Íbúar Hveragerðis munu þá njóta sömu tækni í gagnaflutningum og Reykvíkingar. Lagning ljósleiðara til heimila verður unnin í samræmi við slíka uppbyggingu Orkuveitunnar í Reykjavík.