Glaðbeittir forstöðumenn, þeir Þorkell Lindberg Þórarinsson tv. og Óli Halldórsson, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra á Húsavík í gær.
Glaðbeittir forstöðumenn, þeir Þorkell Lindberg Þórarinsson tv. og Óli Halldórsson, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra á Húsavík í gær. — Morgunblaðið/Hafþór
Húsavík | Þekkingarsetur Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands voru opnuð formlega á Húsavík á þriðjudaginn.

Húsavík | Þekkingarsetur Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands voru opnuð formlega á Húsavík á þriðjudaginn. Það var Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra sem opnaði Náttúrustofuna og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnaði Þekkingarsetrið. Viðstaddir voru fjölmargir gestir, þar á meðal Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, alþingismenn úr kjördæminu og sveitarstjórnarmenn af svæðinu.

Nokkrir gestir tóku til máls við athöfnina og virtist það vera mál manna að einstaklega vel hafi tekist til með að koma þessum stofnunum á laggirnar og það ekki síst fyrir framgöngu þeirra Óla Halldórssonar, forstöðumanns Þekkingarsetursins, og Þorkels Lindberg Þórarinssonar, forstöðumanns Náttúrustofunnar.

Húsnæði Þekkingarsetursins og Náttúrustofunnar, sem er á efri hæð Landsbankahússins á Húsavík, hefur verið vel nýtt í sumar. Þar hefur ungt fólk verið að vinna að fjölbreyttum verkefnum og auk fastra starfsmanna hafa átta aðilar verið að vinna að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum. Þá er Fræþing, Fræðslumiðstöð Þingeyinga, í samstarfi við Þekkingarsetrið um rekstur háskólaseturs innan setursins á Húsavík. Frumkvöðlasetur Norðurlands er einnig með vinnuaðstöðu innan Þekkingarsetursins og t.d. er eitt verkefni í gangi nú í sumar. Það varðar rannsókn á aðstæðum til fisk-eldis við Húsavík.

Forstöðumennirnir Óli og Þorkell Lindberg voru ánægðir með daginn, enda ærið tilefni til, veðrið frábært, bærinn skartaði sínu fegursta og draumur þeirra vel á veg kominn. "Það er góður byr í seglum þessara stofnana," sögðu þeir félagar sem með eljusemi sinni og dugnaði hafa komið á nýjum möguleikum fyrir unga Þingeyinga í langskólanámi að snúa heim að námi loknu og starfa þar.