Aukinn loðnukvóti: Tekjuauki Síldarvinnslunnar getur orðið 200 milljónir Menn svartsýnir á að takist að veiða allan kvótann "ÉG ER svartsýnn á að íslensku loðnuskipin nái að veiða kvóta sinn á þessari vertíð," segir Jón Reynir Magnússon framkvæmdastjóri...

Aukinn loðnukvóti: Tekjuauki Síldarvinnslunnar getur orðið 200 milljónir Menn svartsýnir á að takist að veiða allan kvótann "ÉG ER svartsýnn á að íslensku loðnuskipin nái að veiða kvóta sinn á þessari vertíð," segir Jón Reynir Magnússon framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins. Í sama streng taka Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað og Sveinn Ísaksson skipstjóri á Hábergi GK, en íslensku skipin eru búin að veiða um 100 þúsund tonn af 577 þúsund tonna kvóta sínum. Þau hafa mest veitt 612 þúsund tonn á vetrarvertíð en það var árið 1990.

Loðnuveiðarnar hafa gengið frekar illa undanfarið og loðnan hefur verið dreifð úti fyrir öllum Austfjörðum. Loðnuveiðum lýkur yfirleitt um 20. mars en þær geta staðið um hálfum mánuði lengur þegar um vestangöngu er að ræða.

Ákveðið hefur verið að auka heildarloðnukvótann um 300 þúsund tonn á þessari vertíð og þar af er hlutur Íslendinga 234 þúsund tonn. "Þessi aukni loðnukvóti þýðir 13 þúsund tonna aukinn kvóta fyrir okkar skip og skiptir auðvitað miklu máli, bæði fyrir fyrirtæki okkar og Neskaupstað, þar sem við byggjum mikið á loðnunni," segir Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. "Þessi kvótaaukning þýðir um 200 milljóna króna tekjuaukningu fyrir Síldarvinnsluna, auk þess sem hún þýðir verulega tekjuaukningu fyrir bæjarfélagið í gjöldum."

Finnbogi telur að byrjunarkvóti íslensku skipanna, um 250 þúsund tonn, hafi verið alltof lítill og veiðunum hefði verið hagað með allt öðrum hætti, en gert hefði verið, ef kvótinn hefði verið meiri í upphafi. "Það var ekkert tillit tekið til þeirrar loðnu, sem skipstjórarnir fundu, og þeirra sjónarmiða." Finnbogi segir að hægt hafi verið að halda uppi fullri atvinnu í Neskaupstað í vetur. Þó hafi ekki verið ráðið í stöður, sem hafi losnað, og færri hafi flust til bæjarins í fyrra en næstu ár á undan.

Þar sem loðnuveiðin hefur verið lítil og slitrótt hefur ekki verið talin ástæða til að bræða loðnu í öllum verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins á þessari vertíð, að sögn Jóns Reynis Magnússonar framkvæmdastjóra. Ekkert hefur verið brætt í verksmiðju SR á Siglufirði í vetur. SR á Raufarhöfn og Seyðisfirði bræddu loðnu fyrir áramót en einungis SR á Seyðisfirði og Reyðarfirði hafa brætt loðnu í ár. Hins vegar þarf að setja loðnuverksmiðjur í gang allt í kringum landið ef veiðin glæðist, að sögn Jóns Reynis.

Fullt tungl var aðfaranótt laugardags, þannig að loðnan stóð djúpt og veiðarnar gengu frekar illa, að sögn Sveins Ísakssonar skipstjóra á Hábergi GK. Hann segir að flestöll íslensku loðnuskipin hafi verið á miðunum djúpt út af miðjum Austfjörðum í gær en norsku skipin hafi verið aðeins norðar.

Mjög góð síldveiði hefur verið í Lónsvík sl. 2-3 sólarhringa. Síldin er nú 14-17% feit en hún þarf að vera a.m.k. 12% feit til að vera söltunarhæf fyrir Rússlandsmarkað. Hins vegar horast síldin hratt úr þessu. Íslensku loðnuskipin eru rúmlega 30 talsins. Fimmtán þeirra hafa veitt síld í vetur en þau eru öll farin á loðnuveiðar, nema Kap VE, sem verður áfram á síldveiðum.