Sigurjón Sigurðsson fyrrverandi lögreglustjóri fæddist í Reykjavík 16. ágúst árið 1915. Hann lést á Landakotsspítala 6. ágúst síðastliðinn, 88 ára að aldri. Foreldrar hans voru Sigurður Björnsson brunamálastjóri, f. 14. mars 1867 á Höfnum, d. 16. maí 1947, og Snjólaug Sigurjónsdóttir, f. 7. júlí 1878 á Laxamýri, d. 19. mars 1930. Systkini Sigurjóns voru Sigurjón (lést á fyrsta aldursári), Elín, gift Ludvig Storr, Snjólaug, gift Kaj Aage Bruun og síðar Ottó Baldvins, Ingibjörg, gift Sigursteini Magnússyni, Jóhanna, gift Sveini Péturssyni, og Björn sem kvæntur var Sólveigu Sigurbjörnsdóttur, en sjálfur var Sigurjón yngstur í hópnum. Samfeðra hálfsystir Sigurjóns og elst í hópnum var Guðrún. Öll systkini Sigurjóns eru látin og makar þeirra einnig nema Sólveig.

Hinn 31. júlí 1942 kvæntist Sigurjón Sigríði Kjaran, dóttur Soffíu Kjaran (f. Siemsen) og Magnúsar Kjarans stórkaupmanns, og lifir hún mann sinn. Börn þeirra Sigríðar og Sigurjóns eru sex: a) Soffía, f. 3.10. 1944, kennari og bókavörður, gift dr. Stefáni J. Helgasyni yfirlækni, og eiga þau þrjú börn, Sigurjón Örn (kvæntur Bryndísi Böðvarsdóttur; þau eiga tvö börn), Ragnheiði Hrönn (gift Þórarni Kristmundssyni; þau eiga tvö börn) og Sigríði Helgu (sambýlismaður Jón Þór Grímsson). b) Sigurður, f. 24.3. 1946, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík, kvæntur Hönnu H. Jónsdóttur, BA, og eiga þau þrjú börn, Tómas, Soffíu Elínu og Jóhann. c) Magnús Kjaran, f. 3.5. 1947, arkitekt hjá Framkvæmdasýslu ríkisins, kvæntur Þórunni Benjamínsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn, Kristbjörgu (gift Þorsteini Jóhannssyni, börn þeirra eru þrjú), Árna og Sigríði. d) Birgir Björn, f. 20.2. 1949, forstöðumaður kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar, maki dr. Ingileif Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og eiga þau tvo syni, Magnús og Árna. e) Jóhann, f. 25.10. 1952, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, maki Helga Bragadóttir, skipulagsfulltrúi Reykjavíkur, og eiga þau þrjú börn, Fríðu Sigríði, Soffíu Dóru og Sigurjón. f) Dr. Árni, f. 28.12. 1955, framkvæmdastjóri Landskerfis bókasafna, kvæntur dr. Ástu Bjarnadóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík, og eiga þau þrjú börn, Ólaf Kjaran, Soffíu Svanhvíti og nýfæddan son, en fyrir átti Árni Snjólaugu með Lilju Valdimarsdóttur.

Sigurjón varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1941. Kynnti sér skipulagningu og framkvæmd lögreglumála á Norðurlöndum og í Bretlandi árið 1948, í Bandaríkjunum árið 1952 og í Þýskalandi 1954. Hann kom til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1944 sem fulltrúi, eftir að hafa starfað um tveggja ára skeið hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands hf. Hann var settur lögreglustjóri í Reykjavík frá 1. ágúst 1947 en skipaður í embættið í febrúar 1948 og gegndi stöðu lögreglustjóra óslitið í tæplega fjóra áratugi eða til loka ársins 1985 er honum var veitt lausn frá störfum fyrir aldurs sakir. Sigurjón hafði yfirumsjón með Bifreiðaeftirliti ríkisins í meira en þrjá áratugi, var skólastjóri Lögregluskóla ríkisins í tvo áratugi 1965-1985 og kenndi við skólann nokkuð fram á áttræðisaldur. Samhliða lögreglustörfum gegndi hann setudómarastörfum í ýmsum málum.

Sigurjón var formaður og fulltrúi í mörgum opinberum nefndum, m.a. formaður heilbrigðisnefndar og umferðarnefndar Reykjavíkur um langt árabil. Formaður umferðarlaganefndar var hann á árunum 1955-1987 og var um langt skeið í Almannavarnaráði ríkisins og almannavarnanefnd Reykjavíkur. Þá var hann formaður Umferðarráðs í fjórtán ár. Meðal mikilvægra verkefna í embættistíð Sigurjóns var breyting í hægri umferð árið 1968 og bygging lögreglustöðvarinnar við Hlemm.

Eftir Sigurjón liggja rit tengd lögreglustörfum og umferðarmálum og á farsælum ferli sem embættismaður hlaut hann fjölmargar heiðursviðurkenningar hér á landi sem erlendis, m.a. hina íslensku fálkaorðu (stórriddarakross með stjörnu), heiðursmerki allra norrænu ríkjanna og gullmerki Lögreglufélags Reykjavíkur, Ökukennarafélags Íslands og Umferðarráðs.

Sigurjón verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Sigurjón tengdafaðir minn er allur. Hann kvaddi þessa jarðvist tíu dögum fyrir 89 ára afmælisdaginn sinn. Hugurinn reikar til baka er fundum okkar bar fyrst saman fyrir liðlega þrjátíu árum. Tók hann mér af slíkri hlýju að aldrei kólnaði. Auðvitað vissi ég hver Sigurjón, lögreglustjóri í Reykjavík, var frá því ég komst til vits og ára og fyrir bregður svipmyndum af honum frá embættisverkum, svo sem þegar tekin var upp hægri umferð hér í Reykjavík. En fyrstu minningar mínar um Sigurjón eru hins vegar tengdar heimilisföður á stóru rausnarheimili þeirra Sigríðar á Ægisíðunni, þegar hann sinnti umfangsmiklu og erilsömu starfi.

Sigurjón var glæsilegur maður svo af bar og hafði yfir sér suðrænt yfirbragð, eins og fylgt hefur ætt hans. Hann hafði til að bera meðfædda hæversku og sjálfsögun, var á stundum alvarlegur á svip, er vék á augabragði fyrir blíðu og ótrúlegri hlýju er stafaði frá augum hans. Hann var á vissan hátt hlédrægur og afar heimakær.

Ekki skal hér rakinn áratuga langur starfsferill Sigurjóns, en hann segir ekki nema hálfa sögu. Mér er tengdafaðir minn minnisstæðastur sl. tvo áratugi þegar hann réð yfir eigin tíma, því við starfslok hófst mikilsverður kapítuli í lífi Sigurjóns.

Hann hafði ungur þurft að axla þá byrði að missa móður sína og naut þess að sjá börnin sín sex vaxa úr grasi í skjóli foreldra sinna. Ekkert launungarmál er að heimilisrekstur og barnauppeldi hvíldi aðallega á herðum Sigríðar því annir voru miklar í starfi Sigurjóns, þótt hann gæfi sig allan heima við þegar stundir gáfust.

Nú gat hann gefið sig fjölskyldunni óskiptur. Það var eins og hann væri að endurgjalda Sigríði þann skilning og tillitssemi sem hún sýndi honum í starfi, slíkur var áhugi hans á hugðarefni hennar til margra ára, myndlistinni. Síðasta árið sem við Jóhann vorum við nám í Osló dreif Sigríður sig þangað til myndlistarnáms í nokkra mánuði. Hún bjó á stúdentagarði, hann kom í heimsóknir en hélt heimili á Ægisíðunni, þar sem Eyþór mágur hans var daglegur gestur. Þau hjón voru samvöld öllum stundum, hvort sem var við myndlistina, garðyrkju, þar sem þau ræktuðu það sem vaxið gat í íslenskri sumarsól, eða á ferðalögum.

Þegar við fjölskyldan dvöldum í Frakklandi um skeið komu þau tengdaforeldrar mínir auðvitað í heimsókn.

Þau voru í einni af fjölmörgum menningarreisum sínum um Evrópu þar sem Sigurjón sat við stýrið óbanginn við að aka hraðbrautir og fjallavegi, þótt kominn væri hátt á áttræðisaldur. Tengdaföður mínum gafst kærkomin stund til að sinna hinum ört vaxandi hópi barnabarna og gat hann sennilega varið meiri tíma með þeim en eigin börnum er ung voru. Þau gerðu sér grein fyrir hversu lánsöm þau voru að eiga afa sem naut svo lengi við.

Afi Sigurjón varðveitti í sér barnið og kunni að hlakka til og hrífast. Það var alltaf gaman að skoða kríu og taka upp kartöflur á Álftanesi, þar sem hann dvaldi löngum sem ungur drengur, eða spila, galdra og kippa í knall á gamlárskvöld. Þá sýndi hann námi og tómstundum krakkanna áhuga og var ætíð reiðubúinn að aka þeim á áfangastað. Um leið og hann naut návista við þau og stytti þeim stundir, fannst honum líka gefandi að létta undir með sínu fólki í erli dagsins.

Sigurjón var mikill Reykvíkingur og þótti vænt um borgina sína. Hann sýndi störfum mínum að byggingar- og skipulagsmálum ætíð áhuga og ræddum við um verndun byggðar, nýbyggingar og umferðarmál, þar sem hann var sannarlega á heimavelli. Þá hafði hann það tómstundagaman seinni árin að kynna sér kirkjustaði á landinu, skrá sögu þeirra og ljósmynda og hafði áhugaverða skoðun á því hvernig til hefði tekist með kirkjubyggingarnar.

Sigurjón naut langra lífdaga en varð aldrei gamall maður. Hann hélt fullri reisn fram í andlátið.

Og við, sem kynntumst honum best og áttum því láni að fagna að eiga hann að, kveðjum hann í dag með söknuði og trega. Ég þakka ekki hvað síst þann kærleika sem Sigurjón sýndi mér og börnunum okkar Jóhanns og bið honum blessunar á nýjum vegum.

Helga Bragadóttir.

Á sólskinsdegi renndi svartur Dodge að húsinu gegnt æskuheimili mínu á Rauðalæk og út stigu ung hjón, unglingsstúlka og 5 strákar. Þetta voru Sigurjón og Sigríður með börnin að heimsækja Þórunni, systur Sigríðar. Ég var 6 eða 7 ára og man vel hvað mér fannst þau glæsilegt par og glaðvær fjölskylda. Þegar við Birgir Björn fórum að vera saman kynntist ég yndislegum tengdaforeldrum mínum, sem strax tóku mér opnum örmum og hafa umvafið fjölskylduna ást og umhyggju alla tíð.

Sigurjón var skarpgreindur, fróður og einstaklega minnugur. Oft sátum við á Ægisíðu og hlustuðum á lifandi frásagnir Sigurjóns af barnæskunni, menntaskólaárunum, ferðalögum víða um heim, en einkum af samferðafólki, frændum og vinum, og alltaf var stutt í kímnina. Þjóðmálin voru rædd. Sigurjón fylgdist vel með og hafði sterkar skoðanir, en virti skoðanir annarra og var alltaf tilbúinn að hlusta. Það sem einkenndi frásagnir Sigurjóns, og það sem hann lagði til mála, var einlægur áhugi hans á fólki.

Sigurjón og Sigríður voru einstaklega samrýnd og alltaf eins og nýtrúlofuð. Þau áttu mörg sameiginleg áhugamál, ferðuðust mikið og oft voru börn og barnabörn með í för. Ein fyrsta tjaldferðin okkar Birgis Björns með þeim er mér minnisstæð. Við tjölduðum á grasbala við Markarfljót í skjóli jökla og í kyrrðinni var spjallað fram á nótt. Í Suður-Vík, þar sem Sigurjón var ungur í sveit, rifjaði hann upp bjargsig, fýlaveiðar og sögur af Kötlu. Í Skaftafelli nutum við náttúrufegurðarinnar og að kvöldi útbjó Sigríður veislu með "omhu og kærlighed". Sigurjón var fróður um náttúru landsins, sögu og staðhætti. Hann ljósmyndaði flestar kirkjur landsins og skráði hjá sér sögu þeirra. Strákarnir okkar, Magnús og Árni, minnast ferðalaganna með afa og ömmu. Börnin fengu vasabækur til að skrifa í ferðasöguna og nöfn fugla sem þau sáu. Alltaf var boðið uppá Kók & Prins. Þeir komu heim uppfullir af fróðleik um land og þjóð. Ferðin í Aðaldal og Náttfaravíkur og frásögn Sigurjóns af æsku móður sinnar á Laxamýri er mér ógleymanleg.

Sigurjón var mikill fjölskyldumaður. Þau Sigríður héldu oft stórveislur og þá var glatt á hjalla. Á gamlárskvöld var hátíðarstund þegar Sigurjón las "Hvað boðar nýárs blessuð sól". Sigurjón fylgdist af áhuga með lífi, störfum og áhugamálum barna sinna, tengdabarna og barnabarna, deildi með okkur reynslu sinni og visku og hvatti okkur til dáða. Sigurjón hafði tíma fyrir okkur öll. Hann var traustur vinur og kærleiksríkur.

Ég kveð Sigurjón tengdaföður minn með söknuði og þakklæti fyrir allt. Blessuð sé minning hans.

Ingileif Jónsdóttir.

Þegar ég kynntist Sigurjóni tengdaföður mínum var hann hættur opinberu starfi. Hann var svo heppinn að eiga 19 góð eftirlaunaár, og þá naut fjölskyldan nærveru hans í meira mæli en áður og þau Sigríður undu sér saman við sameiginleg áhugamál. Það vakti strax athygli mína hversu vel Sigurjón, sem á starfsárunum hafði gegnt umsvifamiklu embætti, fann sig í því að umgangast aðallega fjölskylduna og styðja konu sína í hennar listsköpun, sem þá tók að blómstra. Það er ekki öllum gefið að skipta svona um gír við starfslok, en Sigurjón átti auðvelt með það, enda var hann í raun ekki mikið gefinn fyrir að vera í sviðsljósinu sjálfur. Samband þeirra Sigríðar og Sigurjóns var framúrskarandi fallegt alveg fram á síðasta dag, og einkenndist af mikilli hlýju, djúpri virðingu og fallegri framkomu í hinu daglega lífi. Það er gott veganesti fyrir okkur sem eftir lifum að minnast þessa, og ótalmargra gleðistunda með þeim, til dæmis daganna sem við héldum upp á 50 og 60 ára hjúskaparafmæli þeirra hjóna. Síðasta brúðkaupsafmælið, daginn þegar þau höfðu verið gift í 62 ár, héldu þau hátíðlegan með litlu samsæti með börnum og tengdabörnum í glampandi sólskini á Ægisíðunni, tæpri viku áður en Sigurjón lést. Þann dag bað hann um að keyptar yrðu rósir handa Sigríði og stóðu þær við rúmið hans þegar hann lést.

Yngstu börnin okkar Árna eiga ekki eftir að muna eftir afa sínum þegar þau vaxa úr grasi, og ekki heldur mörg barnabarnabörnin, fædd og ófædd. Við sem vorum svo heppin að kynnast honum munum halda minningunni lifandi með frásögnum og myndum, og ég veit að þessi börn verða stolt af því að tilheyra hans ættboga. Sigurjóns verður sárt saknað og erfitt verður að venjast því að sjá hann ekki framar í stólnum sínum í kontórnum á Ægisíðunni. Vonandi berum við gæfu til að taka okkur hans góða innræti, hlýlega viðmót og fallega líf til fyrirmyndar.

Ásta Bjarnadóttir.

Afi minn er dáinn.

Ein af fyrstu minningum mínum um afa var þessi áleitna spurning: Hvernig stendur á því að afi er lögga og á fullt af orðum og fínan búning en er samt aldrei í löggubúning? Ég var nú ekki gamall þá og í ljósi aldurs míns hlaut svarið að verða það að afi væri leynilögga. Sumir sögðu raunar að það væri ekki þannig heldur væri afi eitthvað sem hét lögreglustjóri en það gat bara ekki verið - hann afi var svo góður og alls ekki nógu strangur til að vera stjóri.

Seinna komst ég samt að því að afi var lögreglustjóri. Það þótti mér heldur lakara en afi varð nú samt ekkert minna merkilegur fyrir þetta, afi var til dæmis töframaður sem átti dularfullan kassa fullan af töfradóti, hann vissi allt um fugla og kunni nöfnin á öllum stöðum á Íslandi, enda alltaf á ferðalagi.

Afi naut ferðalaga. Við hvert tækifæri voru þau amma rokin af stað, ýmist innanlands eða til útlanda og þegar heim var komið var öllum smalað saman í myrkvað herbergi, afi skellti niður hvíta tjaldinu til að sýna allar slidesmyndirnar og útskýrði hvað var að sjá á hverri mynd. Í rökkrinu ákvað ég að sjá alla þá staði sem afi og amma höfðu heimsótt en þar á ég víst langt í land enn.

Í dag er ég orðinn heldur eldri og á dreng á svipuðum aldri og ég var þegar ég man fyrst eftir afa mínum. Drengurinn minn veit líka fyrir víst að langafi hans var galdramaður og vissi allt um fugla. Sjálfur veit ég nú að afi minn hafði mikið á sinni könnu en það sem var allra best við afa minn var að hann hafði alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin. Alltaf tíma til að sýna nokkur töfrabrögð, tíma til að leyfa okkur að skoða bækur inni á "kontór", tíma til að koma út í stofuglugga til að kíkja á merkilega fuglinn niðri í fjöru - þótt það hafi bara verið enn einn sílamáfurinn.

Tíminn er einmitt það mikilvægasta sem hægt er að gefa börnum og ég mun alltaf vera þakklátur fyrir þann tíma sem afi gaf mér. Samverustundir skapa minningar sem ekki verða frá manni teknar þótt annað hverfi. Ég á eftir að sakna afa míns.

Sigurjón Örn Stefánsson.

Elskulegur afi okkar er dáinn. Í huga okkar hafa afi og amma alltaf verið eitt, óaðskiljanleg og samstiga. Afi rólyndur, skipulagður og traustur maður og amma einstaklega lífleg, eljusöm og skapandi. Þau voru frábær saman. Frá þeim stafaði ótakmörkuð hjartahlýja til hvors annars, ekki síður en til okkar afkomendanna.

Afi okkar og amma voru mjög samrýmd og áttu fjölmörg áhugamál saman. Þau voru miklir unnendur íslenskrar náttúru og höfum við barnabörnin öll notið góðs af. Hvert okkar á sælar minningar um tjaldferðir með afa og ömmu og við munum vel eftir handbókinni góðu, sem afi notaði til þess að sýna, hvaða fugl það var, sem kvakaði fyrir utan tjaldið. Síðar meir hafa svo börn afa og ömmu haldið hefðinni á lofti með skipulögðum stórfjölskylduferðum á sumrin, sem hafa enn frekar eflt tengsl og samheldni fjölskyldunnar.

Á Ægisíðu var afi einstaklega góður heimilisfaðir, sem lét sér annt um og fylgdist grannt með högum allra barna og barnabarna. Hann gaf sér ætíð tíma fyrir barnabörnin, hvort sem það var til þess að sýna þeim nýtt töfrabragð eða bara að ræða málin yfir djús og skonsum.

Þó að afi sé nú farinn frá ömmu er hún sannarlega ekki ein. Hún á okkur öll að, sem þau afi hafa saman átt þátt í að móta.

Minningarnar um afa varðveitum við alla tíð. Guð blessi afa og styrki ömmu í sorg hennar.

Tómas, Soffia Elín og Jóhann.

Við systkinin erum á ferðalagi þegar við fréttum að afi er dáinn, en margar af okkar fallegustu minningum eru einmitt frá ferðum sem afi og amma fóru iðulega með barnabörnin. Úr aftursætinu hlýddum við á sögur um það sem fyrir augu bar, lásum fuglabækur og Andrésblöð og dáðumst að tjaldvagninum sem kinkaði til okkar kolli þegar leiðin lá um mishæðótta vegi.

Afa var mikið í mun að kenna okkur að meta og virða náttúruna, en að sama skapi lærðum við margt af framkomu hans. Jafn yfirvegaðan og hlýlegan mann höfum við hvergi hitt. Það er auðvelt að loka augunum og sjá afa sitjandi í stólnum á Ægisíðu, jafnvel spjalla saman í smástund.

Við söknum þín, afi.

Árni Magnússon,

Sigríður Magnúsdóttir.

Tíminn er eins og vatnið

og vatnið er kalt og djúpt

eins og vitund mín sjálfs.

Frændi okkar Sigurjón lögreglustjóri er látinn 88 ára að aldri. Lokið er langri og hamingjuríkri ævi sem umfram allt var full af festu, gleði og skilyrðislausum heiðarleika. Þau voru sex systkinin, Elín gift Ludvig Storr, Snjólaug (móðir okkar) gift Kaj Aage Bruun, Ingibjörg gift Sigursteini Magnússyni, Jóhanna gift Sveini Péturssyni, Björn kvæntur Sólveigu Sigurbjörnsdóttur og Sigurjón kvæntur Sigríði Kjaran. Frá þessum systkinahópi er fjölmennur hópur niðja.

Afinn og amman voru Sigurður Björnsson frá Höfnum í Austur-Húnavatnssýslu og Snjólaug Sigurjónsdóttir frá Laxamýri í Þingeyjarsýslu.

Úr þessu ættanna kynlega blandi er orðinn mikill ættleggur sem nærist á samheldni þessara systkina og nærgætni þeirra í mannlegri umgengni.

Ástúð þeirra til samferðafólks einkum frænda og niðja og umhyggjusemi fyrir velferð annarra var óviðjafnanleg.

Og tíminn er eins og mynd,

sem er máluð af vatninu

og mér til hálfs

Tíminn og vatnið mætast í glerinu og storkna þar í eilífð. Minningin fer frá kynslóð til kynslóðar og verður dýrmætur arfur nýju lífi sem kveikist þegar hið eldra slokknar. Minningarbrotin koma eins og skuggi á rúðu frá æsku og uppvaxtarárum og raðast upp eins og herfylki á endalausri hreyfingu. Þessi glæsilegi frændi okkar við hlið föður síns á fjölskylduhátíðum; ráðgjafinn og fyrirmyndin ef leysa þurfti viðkvæmt vandamál innan fjölskyldunnar; stolt okkar og fyrirmynd hinna yngri en umfram allt heimilisfaðirinn við hlið fallegrar konu á heimili fullu af börnum, gleði og hlæjandi fólki.

Og þannig er lífið eins og kvikmynd og við sem eftir lifum sitjum í rökkrinu í sal minninganna.

Og tíminn og vatnið

renna veglaust til þurrðar

inn í vitund mín sjálfs

Sigurjón var lögreglustjóri landsins í fjörutíu ár, hálfa ævi sína. Á mótunarskeiði þjóðarinnar þar sem hún hvarf frá fornum háttum og breyttist á örskömmum tíma í nútímaþjóð stýrði hann vörðum laga og reglna og mótaði embættið og færði inn í nútímann. Styrk hönd hans og hugur leiddi þessar breytingar á miklum umbrotatímum í lífi þessarar litlu þjóðar.

Sigurjón var í embættisfærslu sinni fremstur meðal jafningja, hann stjórnaði með vinsemd og mildi en jafnframt af ískaldri skynsemi og ætíð og einlæglega með hagsmuni borgaranna í fyrirrúmi. Rík réttlætiskennd, samúð með þeim sem minna máttu sín og skilyrðislaus virðing fyrir lögum og reglu gerðu Sigurjón frænda að einstökum embættismanni og lögreglustjóra. Minningin um þennan þátt í lífi hans er best geymd í hugum allra samstarfsmanna hans.

Við systkinin vottum Sigríði eiginkonu hans og börnum samúð okkar. Lokið er langri og hamingjuríkri ævi.

Og tíminn hvarf

eins og tár sem fellur

á hvíta strönd.

(Steinn Steinarr.)

Knútur Bruun,

Snjólaug Bruun.

Sigurjón Sigurðsson var farsæll lögreglustjóri í Reykjavík í tæp 40 ár. Þegar hann gegndi því ábyrgðarmikla starfi, hvíldu einnig á honum önnur störf eins og yfirumsjón með Bifreiðaeftirliti ríkisins og stjórn Lögregluskóla ríkisins. Hann var um árabil formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur og umferðarnefndar Reykjavíkur. Öll lögreglustjóraár hans voru útlendingamál einnig á verksviði embættis hans. Í þessu tilliti einu var hann margra manna maki, en hitt skipti þó mestu, að hann vann viðkvæm trúnaðarstörf sín af kostgæfni.

Nýlega var birt Gallup-könnun um viðhorf almennings til einstakra starfsstétta og enn á ný eru lögreglumenn þar fremstir í fylkingu með læknum og kennurum. Ekki er sjálfgefið, að lögregla njóti svo mikils álits meðal borgaranna, árum og áratugum saman. Hitt er ekki heldur tilviljun, að sjö umsækjendur skuli nú vera um hvert nemendasæti í lögregluskólanum. Virðinguna og áhugann má að verulegu leyti rekja til leiðsagnar manna með forystuhæfileika Sigurjóns Sigurðssonar.

Í tíð Sigurjóns lögreglustjóra var lagður traustur grunnur að þeim metnaði, sem einkennir allt lögreglustarf í landinu um þessar mundir. Hann gerði skýrar og strangar kröfur en jafnframt treysti hann "sínum mönnum" til að leysa hin erfiðustu verkefni á farsælan hátt með öryggi borgaranna að leiðarljósi.

Í ár eru 60 ár liðin frá því að Sigurjón réðst til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík sem löglærður fulltrúi, hann var settur lögreglustjóri 1. ágúst 1947 en skipaður lögreglustjóri 13. febrúar 1948 aðeins 32 ára að aldri. Rúmu ári eftir skipun hans þurfti lögreglan að snúast gegn árásinni á Alþingishúsið 30. mars 1949, þegar þingmenn ræddu aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Æstur múgur reyndi að hindra störf þingsins og varð lögregla að beita táragasi til að fæla óeirðaseggina frá Austurvelli. Þessi einstæði atburður varð ekki til þess að draga úr trausti almennings á hinum unga lögreglustjóra, þótt hann sætti svæsnum árásum frá þeim, sem tóku málstað uppþotsmannanna. Ég kynntist því þegar í foreldrahúsum, hve mikið traust ráðherrar báru til Sigurjóns lögreglustjóra, dómgreindar hans og viðleitni til að leysa hvert mál í krafti laga og réttar. Við embættisstörf í forsætisráðuneytinu síðari helming áttunda áratugarins sá ég einnig úr þeirri átt, hve mikla alúð Sigurjón og menn hans lögðu við öll sín fjölbreyttu verk.

Mér er ljúft að minnast og þakka ánægjuleg persónuleg kynni við Sigurjón lögreglustjóra. Ég átti samleið með honum í Rotaryklúbbi Reykjavíkur, þar sem hann var með lengstan félagsaldur eða síðan 1949. Þar sem annars staðar naut hann virðingar og trausts og er eftirminnilegt að hafa fengið tækifæri til að hitta hann og kynnast honum á þeim vettvangi. Ég færi Sigríði Kjaran, eiginkonu Sigurjóns, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sigurjóns Sigurðssonar.

Björn Bjarnason.

Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri var mikill heiðursmaður og farsæll embættismaður. Hann hafði þrek og kjark til þess að stýra lögreglustjóraembættinu í Reykjavík. Sigurjón naut virðingar vegna verka sinna og mannkosta. Hann keypti sér ekki frið.

Á róstu- og umbrotatímum stýrði hann lögreglunni þjóðinni til heilla. Það þarf stjórnvisku og æðruleysi til þess að vera farsæll í slíku starfi. Sigurjón var réttur maður á réttum stað. Hans verður minnst og saknað.

Fyrir hönd lögreglunnar í landinu kveð ég traustan vin og bakhjarl. Fjölskyldu hans sendi ég samúðarkveðjur.

Haraldur Johannessen.

Þegar Birgir Björn hringdi til mín og tilkynnti mér fráfall föður síns, kom það mér ekki á óvart þar sem mér var kunnugt um veikindi hans. Kallið var komið og undan því getur enginn vikist. Við fréttina gerði ég mér ljóst að horfinn var á braut einn minn besti vinur og samstarfsmaður sem ég mun sárt sakna. Kynni okkar hófust er hann réð mig sem lögregluþjón í Reykjavík haustið 1953 og allt frá þeim degi urðu til þau vináttubönd sem aldrei brustu.

Það fer ekki á milli mála að Sigurjón átti mikinn þátt í að byggja upp lögregluna í Reykjavík bæði með því að bæta menntun hennar og byggja upp aðstöðu hennar alla. Hann lagði grunninn að menntun lögreglumanna með stofnun Lögregluskóla ríkisins og var skólastjóri hans og kennari uns hann lét af störfum 1985. Hann átti líka stóran þátt í byggingu lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu sem gjörbreytti allri aðstöðu lögreglunnar.

Honum var mikið metnaðarmál að byggja upp lögreglulið sem væri fært um að sinna sínu hlutverki sem best bæði að því er snerti öryggi ríkisins og almenningur gæti treyst og virt, og í því starfi átti hann stóran þátt.

Sigurjón var mikill embættismaður sem hafði góða sýn yfir alla sína embættisfærslu, og var mjög nákvæmur með alla hluti og mátti ekki vamm sitt vita í neinu. Það var góður skóli að hafa verið samstarfsmaður Sigurjóns Sigurðssonar því af honum mátti læra margt sem til fyrirmyndar var og var gott veganesti út í lífið. Einn af kostum Sigurjóns var hve skilningsríkur hann var gagnvart starfsfólki sínu, þegar það átti við erfiðleika að stríða eða þurfti á aðstoð að halda var hann alltaf reiðubúinn að hjálpa eins og honum var unnt. Þessu kynntist ég af eigin raun 1961 þegar ég þurfti að fara með 6 ára son minn á sjúkrahús í London og þurfti að fá frí frá störfum, þá kom hann því svo fyrir í gegnum sín góðu sambönd að hann kom mér í starfsnám hjá Scotland Yard í 2 mánuði, sem bjargaði málinu.

Það er mannbætandi að hafa fengið að kynnast persónu eins og Sigurjóni Sigurðssyni og það voru mikil forréttindi fyrir mig að hafa átt vináttu og traust slíks manns. Að leiðarlokum vil ég þakka langa og farsæla vináttu og samstarf og bið guð að blessa og vernda minningu Sigurjóns Sigurðssonar.

Sigríði og börnunum sex og fjölskyldum þeirra sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur.

Bjarki Elíasson.

Frábær mannkostamaður með gott hjartalag og hlýjan hug til allra manna er kvaddur í dag. Sigurjón var úrvals lögreglustjóri, traustur, réttsýnn, sanngjarn og með gott verksvit. Hjá honum var gott að vinna. Ég sá hann fyrst haustið 1957 og var undir hans stjórn alla hans stjórnunartíð eftir það. Varð þess heiðurs aðnjótandi að hann trúði mér fyrir ábyrgðarmeiri störfum er árin liðu. Með virðingu, óbugandi festu og látleysi vann hann hug og hjörtu lögreglumanna, sem lögreglustjóri og skólastjóri Lögregluskólans. Við fyrrverandi samstarfsmenn hans, nú í Lífeyrisd. Landssambands lögreglumanna þökkum áratuga farsæla stjórn og fræðslu og sendum frú Sigríði og börnunum hlýjar samúðarkveðjur. Minning um góðan húsbónda lifir.

Magnús Einarsson, yfirlþj.,

formaður Lífeyrisd. LL.

Kveðja frá Lögreglufélagi Reykjavíkur

Fallinn er frá Sigurjón Sigurðsson, fyrrverandi lögreglustjóri. Lögreglumenn í Reykjavík eiga honum mikið að þakka fyrir mikilsverð störf í þágu lögreglunnar. Starfsferill Sigurjóns var einstakur. Hann hóf störf sem fulltrúi Agnars Kofoed Hansen, lögreglustjóra, árið 1944 og gegndi því starfi þar til hann var settur lögreglustjóri árið 1947. Starfaði hann sem lögreglustjóri Reykvíkinga í 38 ár. Á þeim árum urðu miklar þjóðfélagsbreytingar sem leiddu til þróunar innan lögreglunnar. Sigurjón var þar í fararbroddi. Hann átti m.a. frumkvæði að því að Lögregluskóli ríkisins var stofnsettur. Sigurjón var þar skólastjóri jafnframt því sem hann kenndi þar verðandi lögreglumönnum.

Með tilkomu Lögregluskólans gafst lögreglumönnum tækifæri til náms í lögreglufræðum og þannig vildi Sigurjón undirbúa þá sem best undir starfið. Með þessu frumkvæði að menntunarmálum lögreglunnar hefur Sigurjón lagt grunninn að einum mikilvægasta þætti löggæslunnar - að byggja upp lögreglu sem hefur þekkingu og hæfni til að takast á við þau erfiðu verkefni sem henni er falið að leysa.

Sigurjón bar hag og velferð lögreglumanna fyrir brjósti og hafði mikinn skilning á stéttarbaráttu þeirra. Hann lagði áherslu á að hagsmunir lögreglumanna og löggæslunnar í landinu færu jafnan saman. Þannig væru góð starfskjör hæfra starfsmanna lykillinn að góðri þjónustu til handa þeim sem hennar njóta. Sigurjón var sæmdur gullmerki Lögreglufélags Reykjavíkur árið 1985 og gerður að heiðursfélaga árið 1995.

Lögreglufélag Reykjavíkur sendir fjölskyldu Sigurjóns innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu hans.

Sveinn I. Magnússon,

formaður LR.

Með Sigurjóni Sigurðssyni er fallinn í valinn einstakur höfðingi, grandvar maður og gegn. Hann var slíkur atorkumaður í embætti sínu sem lögreglustjóri í Reykjavík um nærfellt fjögurra áratuga skeið, að fáum mun hent að feta í fótspor hans. Verka hans á þeim vettvangi mun lengi sjá stað. Mér var það ungum gæfa og eldskírn að vera samverkamaður hans um hríð og njóta leiðsagnar hans og forystu. Hann var embættismaður par excellence og sætti sig ekki við minna en fullkomið dagsverk eftir því sem unnt var. Hann var hvorki hávaðamaður né til þess búinn að hreykja sér á mannþingum eða í fjölmiðlum. Hann var hógvær en fastur fyrir, ljúflyndur en fylginn sér og umfram allt leiðtogi og vinur í senn. Hann kenndi með fordæmi sínu.

Listakonan Sigríður Kjaran var stoð hans og styrkur alla tíð. Samfylgd þeirra var slík, að öllum var ljóst, er til þekktu, að á betra varð ekki kosið. Hugur okkar Ingu Ástu leitar nú við fráfall Sigurjóns til hennar og fjölskyldunnar allrar. Þau hafa mikils misst, en minning hans, hljóðlát og sterk í senn, er aflvaki öllum þeim, er honum kynntust.

Pétur Kr. Hafstein.

Leiðir okkar Sigurjóns lögreglustjóra lágu fyrst saman í umferðarnefnd Reykjavíkur á árinu 1965, þar sem hann var þá formaður, og síðar í Umferðarráði. Ég kynntist honum þá sem hinum virðulega embættismanni og fullkomna stjórnanda, sem allir báru mjög mikla virðingu fyrir. Samstarf okkar átti síðar eftir að verða mjög náið og persónulegt, einkum á sviði umferðarmálanna, og á ég margar góðar minningar frá þeim árum.

Minnisstæðustu og ánægjulegustu stundirnar okkar saman voru þó þær, þegar við sátum tveir einir saman rétt fyrir jólin á hverju ári, oft síðdegis á laugardegi, og árituðum kveðjur á bækur til þeirra barna, sem dregin höfðu verið út í jólagetrauninni. Þá kynntist ég vel hinni hlýju og mjúku hlið embættismannsins. Einnig minnist ég með hlýhug margra ánægjulegra ferðalaga erlendis með Sigríði og Sigurjóni, betri ferðafélaga en þau er vart hægt að hugsa sér.

Eftir að við báðir hættum störfum hittumst við sjaldnar, en í þau skipti sem við hittumst fann ég alltaf fyrir hlýju og gleði í návist hans.

Við Guðrún sendum Sigríði og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur með kæru þakklæti fyrir samverustundirnar með þeim hjónum.

Guttormur Þormar.