ÁTTA Íslendingum hefur verið veittur svokallaður Chevening-styrkur breska utanríkisráðuneytisins til framhaldsnáms á háskólastigi í Bretlandi skólaárið 2004-2005.

ÁTTA Íslendingum hefur verið veittur svokallaður Chevening-styrkur breska utanríkisráðuneytisins til framhaldsnáms á háskólastigi í Bretlandi skólaárið 2004-2005. Chevening-styrkurinn er aðal námsstyrkur bresku ríkisstjórnarinnar og er veittur hæfustu umsækjendunum frá 150 löndum ár hvert.

Myndin var tekin í móttöku í bústað breska sendiherrans. Í öftustu röð frá vinstri eru David Levinger frá KB Banka, Atli Björnsson, fulltrúi Pálma Þórs Atlasonar (PhD í taugalíffræði í Oxford), Sigurður Hannesson (PhD í stærðfræði í Oxford), prófessor Peter Holbrooke úr dómnefnd, Ólöf Jónsdóttir (MSc í aðgerðarrannsóknum í LSE), Árþóra Ágústsdóttir, fulltrúi Hugins Freys Þorsteinssonar (Mphil í mannkynssögu og vísindaheimspeki í University of Bristol), Árni Guðmundsson (MSc í heimspeki og opinberri stefnumótun í LSE) og Sveinn Skúlason frá GlaxoSmithKline. Fyrir miðju er Alp Mehmet, breski sendiherrann á Íslandi, Hildur Fjóla Antonsdóttir (MSc í kynjafræði, þróunarfræði og hnattvæðingu í LSE), Nína Björk Jónsdóttir (MA í alþjóðastjórnmálum með áherslu á öryggis- og varnarmál í University of Bradford) og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Mphil í alþjóðlegum samskiptum og Evrópustjórnmálum í Oxford).

Íslenskir umsækjendur á annað hundrað

Íslenskir umsækjendur í ár voru á annað hundrað og halda átta úr þeirra hópi út til náms í haust í jafnfjölbreyttum greinum og alþjóða stjórnmálum, heimspeki, stærðfræði, taugalíffræði, alþjóða öryggismálum og kynjafræði í Oxford, London School of Economics (LSE), Bristol University og University of Bradford.

Chevening-styrkurinn er veittur einstaklingum með framúrskarandi náms- og starfsferil sem þykja hafa burði til að verða framtíðarleiðtogar á sínu sviði og leggja mikið af mörkum til íslensks samfélags, segir í tilkynningu.

Heildarupphæð um 7 milljónir króna

Breska sendiráðið í Reykjavík veitir styrkina fyrir hönd breska utanríkisráðuneytisins í samstarfi við KB banka og GlaxoSmithKline á Íslandi. Heildarupphæð Chevening-styrkjanna í ár er 50.000 sterlingspund eða nálægt sjö milljónum íslenskra króna sem renna til greiðslu skólagjalda styrkþega og kemur hluti þeirrar upphæðar frá KB banka og GlaxoSmithKline. Chevening-styrkurinn hét áður skólastyrkur British Council og hafa fjölmargir Íslendingar notið góðs af honum til að afla sér menntunar í nokkrum af bestu háskólum heims.