24. ágúst 2004 | Íþróttir | 586 orð | 4 myndir

Fannar Ólafsson körfuknattleiksmaður leikur í Grikklandi

"Var svolítið smeykur að taka boði Dukas"

Fannar Ólafsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, á æfingu hjá gríska liðinu Dukas í Aþenu.
Fannar Ólafsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, á æfingu hjá gríska liðinu Dukas í Aþenu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FANNAR Ólafsson, landsliðsmaður í körfuknattleik og Íslandsmeistari með Keflvíkingum í vor, er kominn til Aþenu. Ekki til að fylgjast með Ólympíuleikunum einum og sér því hann skrifaði á dögunum undir eins árs samning við gríska 2. deildar liðið. Dukas sem leikur í Aþenu er byrjaður að æfa með liðinu á fullu fyrir komandi leiktíð. Morgunblaðið mælti sér mót við Fannar í Aþenu og spjallaði við hann.
Ég hafði hug á því að komast út. Bandaríkjamaðurinn sem spilaði með mér í Keflavík í vetur var með umboðsmann sem hann lét vel af og ég ræddi við hann. Hann sagðist hafa tengiliði úti um allt en hann vildi einblína á Grikklandi, bæði þar sem mjög góður körfubolti er spilaður þar auk þess sem ágætur peningur er í boði," sagði Fannar við Morgunblaðið en hann verður annar íslenski körfuknattleiksmaðurinn sem fer í atvinnumennsku til Grikklands en Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson spilaði með Larissa fyrir nokkrum árum.

Fannar fór til Dukas í reynslu í júlí og í kjölfarið var honum boðinn samningur sem hann skrifaði undir í Aþenu á dögunum. "Mér gekk rosalega vel þegar ég var hjá liðinu til reynslu. Fyrsta æfingin var lygileg. Það datt allt niður hjá mér og æfingarnar sem á eftir komu gengu mjög vel. Þeir buðu mér strax samninginn. Þeir vildu að ég skrifaði undir tveggja ára samning en eftir að ég og unnusta mín höfðum farið yfir stöðuna þá ákvað ég að taka aðeins eitt ár."

Fannar er með klásúlu í samningi sínum að geta farið án allra skuldbindinga til liðs í 1. deildinni á Grikklandi en hann segir talsvert um það að liðin í 1. deild taki leikmenn úr neðri deildum.

"Fyrstu kynni mín af liðinu og Grikklandi eru mjög góð. Það hefur allt staðið eins og stafur á bók. Maður hefur heyrt alls konar draugasögur um Grikkland og að liðin hafi ekki staðið við gerða samninga. Ég vissi að Teitur lenti í basli með sitt lið en hann bar Grikkjum söguna vel þegar ég ræddi við hann. Ég var svolítið smeykur að taka boði Grikkjanna en hingað til hefur allt gengið eins og það á að gera. Ég hlakka gríðarlega til tímabilsins og vonandi gengur allt að óskum," segir Fannar.

Tímabilið hjá Fannari og félögum hefst með leik gegn Larissa, fyrrum liði Teits Örlygssonar, hinn 5. september en það er leikur í bikarkeppninni. Deildarkeppnin hefst hins vegar ekki fyrr en í október og er það vegna Ólympíuleikanna. "Mér líst mjög vel á liðið og í því eru sterkir leikmenn. Stefnan hefur verið tekin á að komast upp og mér sýnist mikill metnaður í þessu félagi. Liðið var nýliði í 2. deildinni í fyrra en nýju fjármagni hefur verið dælt inn í félagið og það spilar í nýju íþróttahúsi og hefur bætt við sig mannskap."

Fannar hefur undanfarin fjögur ár verið í námi í Bandaríkjunum og hann þekkir því vel að búa fjarri Íslandi. "Ég þekki þennan heim nokkuð vel og flakkið sem því fylgir og það er enginn beygur í mér að vera hér í Grikklandi. Þetta er bara nýtt og spennandi tækifæri sem mér bauðst og ég ákvað að láta slag standa," segir Fannar sem hélt frá Aþenu á mánudaginn til Ungverjalands til móts við íslenska landsliðið.

Fannar gat ekki verið heppnari með tímasetningu þegar hann hóf æfingar sínar með nýja liðinu. Hann kom út rétt áður en Ólympíuleikarnir voru settir. "Það hefur verið mjög gaman að vera í návígi við Ólympíuleikana og ég skellti mér á leik Íslands og Króatíu í handboltanum og hef svo séð nokkra körfuboltaleiki Það er mikil upplifun að sjá Ólympíuleika með berum augum en ég get ekki farið á mjög marga viðburði þar sem stífar æfingar hafa verið hjá okkur upp á síðkastið."

Faðir Fannars, Ólafur Einarsson, var landsþekktur handboltamaður á árum áður - landsliðsmaður. Hann lék lengst með FH, gerðist leikmaður í Þýskalandi og eftir að hann kom heim gekk hann til liðs við Víking.

Guðmundur Hilmarsson skrifar frá Aþenu

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.