Þúsundir muna "Í vörslu safnsins eru ýmsar minjar um þjóðhætti og atvinnu, húsbúnaður, fatnaður, listgripir, kirkjugripir og verkfæri. Munir safnsins teljast nú vera annaðhvort tugir eða hundruð þúsunda, eftir því hvernig talið er."
Þúsundir muna "Í vörslu safnsins eru ýmsar minjar um þjóðhætti og atvinnu, húsbúnaður, fatnaður, listgripir, kirkjugripir og verkfæri. Munir safnsins teljast nú vera annaðhvort tugir eða hundruð þúsunda, eftir því hvernig talið er." — Morgunblaðið/ÞÖK
Rúmlega 140 ára saga liggur að baki Þjóðminjasafni Íslands. Sagan einkennist af miklum breytingum, en þó fyrst og fremst framförum.
Þjóðminjasafn Íslands hefur stundum verið kallað morgungjöf til íslensku þjóðarinnar. Samlíkingin á vel við, enda var safnhúsið við Suðurgötu byggt í kjölfar ákvörðunar sem tekin var daginn fyrir stofnun íslenska lýðveldisins - þann 16. júní árið 1944 - og margir tengja einmitt Þjóðminjasafnið fyrst og fremst við þetta hús. Árið 1998 var húsinu lokað vegna endurbóta, og þó að starfsemi safnsins lægi ekki niðri - þvert á móti hefur ef til vill aldrei farið fram meiri vinna í tengslum við Þjóðminjasafn Íslands en einmitt síðustu sex árin - fannst mörgum sem Þjóðminjasafnið hefði horfið af sjónarsviðinu á þessu tímabili. Því fagna eflaust margir að húsið hefur nú verið opnað að nýju og endurnýjað mjög, í takt við breytta tíma, bæði hvað varðar sýningarrými og geymslurými. En þó morgungjöfin hafi verið stór, sennilega stærsti áfanginn á eftir þeim gagngeru breytingum sem unnið hefur verið að síðustu ár, markaði hún þó ekki upphaf safnsins sjálfs. Sá atburður átti sér stað fyrir rúmum 140 árum.

"Fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja"

Upphaf Þjóðminjasafnsins má rekja aftur til 24. febrúar 1863. Þann dag barst stiftsyfirvöldum bréf frá Helga Sigurðssyni á Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi og var milligöngumaðurinn enginn annar en Jón Árnason stiftsbókavörður og þjóðsagnasafnari. Í bréfinu bauðst Helgi til þess að gefa Íslandi fimmtán gripi, og vonaðist til að með gjöfinni yrði til "fyrsti vísir til safns íslenskra fornmenja", því fram til þessa höfðu íslenskir forngripir verið varðveittir að mestu leyti í dönskum söfnum. Þórður Jónasson stiftamtmaður og Helgi Thordersen biskup þáðu gjöfina samdægurs og fólu Jóni Árnasyni umsjón safnsins. Stuttu síðar fékk Jón leyfi til að ráða Sigurð Guðmundsson málara sem annan umsjónarmann safnsins, sem hafði raunar verið fyrstur til að vekja máls á þeirri hugmynd á opinberum vettvangi að setja á stofn safn af þessu tagi, með grein í tímaritinu Þjóðólfi.

Heiti safnsins, Þjóðminjasafn Íslands, varð lögformlega til árið 1911. Fram til þess tíma hafði safnið gengið undir heitinu Forngripasafn Íslands og verið til húsa á ólíkum háaloftum í Reykjavík, í Dómkirkjunni, Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg, Alþingishúsinu og Landsbankanum í Austurstræti. Frá árinu 1908 hafði safnið þó átt samastað í enn einu risinu, í Landsbókasafninu við Hverfisgötu sem nú heitir Þjóðmenningarhús, og var það svo uns það flutti í nýja húsið við Suðurgötu, í lok árs 1950.

Vísindaleg deildaskipting kemur til

Um svipað leyti og safnið flutti í Landsbókasafnið, eða árið 1907, voru fyrst sett lög um verndun fornminja hérlendis og settar hömlur á að þær væru fluttar úr landi. Það ár tók einnig við fyrsti þjóðminjavörðurinn af fjórum, Matthías Þórðarson, sem gegndi embættinu í rétta fjóra áratugi. Áður en hann tók við höfðu Sigurður Vigfússon gullsmiður, Pálmi Pálsson menntaskólakennari og Jón Jakobsson gegnt stöðu forstöðumanna, auk hinna fyrstu umsjónarmanna, Jóns Árnasonar og Sigurðar Guðmundssonar.

Það var í tíð Matthíasar sem safninu bárust um 200 íslenskir dýrgripir úr dönskum söfnum og fjöldi listgripa frá Noregi, en gripirnir voru afhentir í tilefni Alþingishátíðarinnar árið 1930. Um það leyti sem hann tók við embætti hafði safneignin stækkað úr 15 gripum Helga í Jörfa í 6.000 safnfærslur, og höfðu safninu einnig verið ánöfnuð nokkur sérsöfn sem tengdust ákveðnum einstaklingum úr íslenskri sögu; Ingibjörgu og Jóni Sigurðssyni forseta, Helgu og Jóni Vídalín konsúl og prófessor Williard Fiske svo dæmi séu tekin. Safnið dafnaði enn undir stjórn Matthíasar, og kom hann meðal annars á vísindalegri deildaskiptingu safnsins sem það bjó að síðan. "Enginn maður hefur unnið að safninu, fornminjavörslunni og fornleifafræðinni eins mikið og lengi og Matthías", skrifaði Kristján Eldjárn árið 1962 í bókinni 100 ár í Þjóðminjasafni, og er sú staðreynd að vissu leyti ennþá sönn, enda er Matthías Þórðarson sá maður er lengst hefur gegnt stöðu þjóðminjavarðar, þó að erfitt sé að bera saman umfang starfa einstakra þjóðminjavarða.

Nytjahlutir bætast við

Kristján Eldjárn tók við embætti þjóðminjavarðar árið 1947 og gegndi hann þeirri stöðu þar til hann var kosinn forseti Íslands árið 1968. Byrjunarár safnsins í nýja húsinu við Suðurgötu - og ef til vill ein mestu mótunarár þess - voru því í höndum Kristjáns. Hafandi doktorsgráðu í fornleifafræðum, var Kristján Eldjárn afkastamikill og metnaðarfullur stjórnandi Þjóðminjasafnsins. Þar til hann tók við embætti hafði áhersla verið lögð á að safna jarðfundnum forngripum, kirkjugripum og öðrum listgripum frá síðari öldum. Eftir 1950 var hins vegar farið að safna almennum nytjahlutum einnig, enda var nú húsrýmið mun meira til varðveislu slíkra hluta, og hefur fjöldi margvíslegra verkfæra og búsáhalda aukist mjög í safninu síðan.

Eftir forsetakjörið árið 1968 tók Þór Magnússon fornleifafræðingur við embætti þjóðminjavarðar, en hann hafði þá starfað við safnið í fjögur ár. Í tíð Þórs var unnið markvisst að varðveislu gripa og húsa sem safnið átti þegar í fórum sínum og á ferli hans sem þjóðminjavarðar var mörgum minjum bjargað frá endanlegri glötun, ekki síst húsakosti í eigu safnsins. Þá jókst útgáfa á vegum safnsins nokkuð í tíð Þórs og árið 1989 voru sett ný þjóðminjalög, sem gjörbreyttu áherslum í þjóðminjavörslu hérlendis. Lögin voru síðan endurskoðuð árið 2001.

Þór gegndi stöðunni í rúm þrjátíu ár, til aldamótaársins 2000. Hefur hann starfað áfram við safnið við margs konar ráðgjöf síðan og er hann enn í lykilhlutverki í starfsemi þess. Margrét Hallgrímsdóttir tók við embætti þjóðminjavarðar í kjölfar Þórs, sem hún gegnir enn þann dag í dag.

Miðstöð þjóðminjavörslu

Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands er víðtækt og ef til vill umfangsmeira en marga grunar. Lögum samkvæmt er safninu ætlað að vera miðstöð þjóðminjavörslu, en í því felst að safna, varðveita, rannsaka og miðla þekkingu á þjóðararfinum í víðum skilningi. Í vörslu safnsins eru ýmsar minjar um þjóðhætti og atvinnu, húsbúnaður, fatnaður, listgripir, kirkjugripir og verkfæri. Munir safnsins teljast nú vera annaðhvort tugir eða hundruð þúsunda, eftir því hvernig talið er, vegna þess að í einu safnnúmeri geta verið margir munir. Dæmi um það er til dæmis Ásbúðarsafn, minjasafn Andrésar Johnson í Hafnarfirði, sem geymir um 20 þúsund muni. Þá heyra 43 hús víða um land undir Þjóðminjasafnið, einnig er þar í geymslu vaxmyndasafn, myntasafn, steinaldarsafn og mannamyndasafn, svo dæmi séu tekin.

Ýmis önnur söfn hafa svo vaxið og þróast innan vébanda Þjóðminjasafnsins. Fyrst og fremst ber þar að nefna Listasafn Íslands, sem lengi vel var til húsa í Þjóðminjasafninu og var um tíma ein af deildum þess. Tengslin þar á milli voru formlega rofin árið 1961 með lögum um Listasafn Íslands, og endanlega rofin þegar safnið flutti í eigið húsnæði á Fríkirkjuvegi 7 árið 1987, þar sem það er nú til húsa. Einnig má nefna Nesstofusafn, sem geymir lækningaminjar, Sjóminjasafn Íslands og nú síðast Hönnunarsafn Íslands. Einnig heyra minja- og byggðasöfn víðs vegar um landið faglega undir Þjóðminjasafn Íslands.

Ný grunnsýning

Miðlun hefur lengi verið einn af mikilvægustu þáttunum í starfsemi safnsins og um áratuga skeið hafa heimsóknir skólabarna í safnið verið fastur liður í starfsemi þess. Safnið hefur einnig haft mikið aðdráttarafl á erlenda ferðamenn, auk heimamanna. Fyrsta árið sem safnið starfaði, 1863, eru gestir taldir hafa verið 730, en síðan óx fjöldi safngesta ört. Árið 1910 voru gestir um 6.600 og árið 1961 voru þeir orðnir ríflega 36 þúsund. Síðustu árin áður en safninu var lokað hafði aðsókn þess þó heldur dregist saman, rúmlega 27 þúsund gestir sóttu safnið heim árið 1997 miðað við rúmlega 50 þúsund gesti í sögulegu hámarki árið 1990.

Eitt af markmiðunum með lokun húsnæðisins við Suðurgötu fyrir sex árum var að byggja upp nýja grunnsýningu. Gegnum tíðina hafa sýningar á vegum safnsins verið endurnýjaðar reglulega, sú síðasta var sett upp árið 1993 og fagnaði 130 ára afmæli safnsins. Í tengslum við sýninguna kom út bókin Gersemar og þarfaþing og var hafður sá háttur á, bæði á sýningunni og í bókinni, að velja 130 hluti á sýninguna, einn frá hverju ári sem safnið hafði starfað.

Nýja sýningin, sem opnuð verður með safninu þann 1. september, spannar 1200 ára sögu þjóðarinnar. Umfangið er mikið, enda hefur sýningin nú um 2.000 fermetra til umráða. Sýningin er búin margmiðlun og nýjustu sýningartækni til miðlunar í formi hljóðs, hreyfimynda, myndbanda, þrívíddarhreyfimynda og texta.

Allar þær miklu framfarir sem hafa átt sér stað á þeim 140 árum og einu betur síðan Þjóðminjasafn var stofnað stuðla væntanlega að bættum skilningi þjóðarinnar á sögu sinni og þeim breytingum sem hún gengur stöðugt í gegnum. Það er við hæfi að íslenska þjóðin fái demantsgjöf á 60 ára lýðveldisafmæli sínu - nýtt og endurbætt Þjóðminjasafn.