Indriði G. Þorsteinsson
Indriði G. Þorsteinsson
Tímar í lífi þjóðar nefnist bók með þremur sögum eftir Indriða G. Þorsteinsson en hún kom út nýlega. Sögurnar eru Land og synir, Norðan við stríð og 79 af stöðinni en Indriði felldi þær sjálfur í einn bálk sem hann gaf ofangreindan titil. Hér er þessum sögum lýst sem óloknu ferli, sögu sem aldrei lýkur.

Vaka-Helgafell hefur nú endurútgefið þrjár af sögum Indriða G. Þorsteinssonar undir titlinum Tímar í lífi þjóðar en hann hafði Indriði sjálfur valið sögunum í fyrri útgáfu. Í formála að hinni nýju kilju segir Kristján B. Jónasson bókmenntafræðingur að hér séu sögurnar Land og synir (1963), Norðan við stríð (1971) og 79 af stöðinni (1955) og þær myndi heild svo að úr verði: "...þrískipt mynd þar sem vatnaskil íslenskrar nútímasögu, síðari heimsstyrjöldin, eru í miðju en til beggja handa forleikur hennar og eftirmáli: kreppan og kalda stríðið." (7) Myndin sem Kristján lýsir er eins og þrískipt altaristafla en þannig myndi ég ekki vilja lýsa helstu verkum Indriða. Ég myndi frekar lýsa þeim eins og óloknu ferli, sögu sem hefst hvergi og lýkur aldrei.

Indriði G. Þorsteinsson fæddist í Gilhaga í Lýtingsstaðahreppi, Skagafirði árið 1926 og þar sleit hann barnsskónum. Fjölskyldan flutti til Akureyrar árið 1939. Það var mikið áfall að flytja úr sveitinni í sollinn á hernuminni Akureyri en því hefur Indriði lýst í hinni merkilegu viðtalsbók Stríð og söngur sem Matthías Viðar Sæmundsson gerði árið 1985. Viðtalið við Indriða heitir "Útlagi í tímanum". Árið 1950 flutti Indriði að norðan, suður til Reykjavíkur. Hann var blaðamaður á Tímanum og síðar ritstjóri og hvassyrtur pistlahöfundur sem fólk ýmist virti og dáði eða hataði og óttaðist.

Indriði vakti fyrst athygli í bókmenntaheiminum þegar hann vann smásagnasamkeppni Samvinnunnar árið 1951 og hlaut að launum ferð til Miðjarðarhafslanda. Verðlaunasagan hét "Blástör" og birtist síðar í safninu Sæluviku sem kom út sama ár hjá hinu nýstofnaða bókaforlagi Iðunni. "Blástör" segir frá bóndanum Balda sem hefur fengið ráðskonu með barn úr kaupstaðnum en ekki haft döngun í sér til að reyna við hana allt sumarið. Eins og Knútur Hafsteinsson bendir á í úttekt sinni á smásögum sjötta áratugarins er kynhvötin hinn ólgandi drifkraftur sögunnar; þarfanautið, graðfolinn, hanarnir og bóndinn bregða á leik í sögunni enda eru kýrnar yxna, hryssurnar í látum, hænurnar og ráðskonan reiðubúnar. Öll náttúran, gróður, dýr og menn, sameinast í hálfgerðu kynsvalli og óði til frjóseminnar í sögunni sem lætur eina myndina renna yfir aðra í texta sem er bæði fyndinn og erótískur. Tímaritið Líf og list skilgreindi upphafsmann sögunnar sem "náttúrumikinn höfund" og Indriði er enn að hlæja að því í viðtalinu við Matthías 35 árum síðar.

Sumar smásögur Sæluviku eru augljóslega stílæfingar, styttri eða lengri skissur með þjóðsagnaminnum, sumar groddalegar og erótískar, aðrar upphafnar og siðavandar eins og ekki hafi sami höfundur haldið þar á penna. Allar eru sögurnar þó hefðbundnar að gerð, hverfast um einn meginatburð og hvörf í lífi persónanna. Þær þóttu myndrænar og menn bentu á fyrirmyndir í hinum fræga ísjakastíl Ernest Hemingway þar sem níu tíundu af merkingunni voru undir yfirborðinu. Hinn harðsoðna stíl þurfti Indriði hins vegar ekki að sækja til Hemingway því að þannig höfðu íslenskir karlmenn löngum tjáð sig, þannig talaði hinn skapharði Indriði afi höfundarins og aðrir forfeður í Skagafirði. Þannig töluðu líka sannir, bandarískir karlmenn í bíómyndunum sem allir ungir Íslendingar slokuðu í sig á fimmta áratugnum. Samtölin voru kaldhömruð, snögg tilsvör, ekkert látið uppi en viðkvæm hjörtu slógu undir hrjúfu yfirborði. Fjórum árum seinna sló Indriði í gegn með skáldsögunni 79 af stöðinni sem þótti sæta nokkrum tíðindum.

Maður og borg og vél

79 af stöðinni hefst á inngangskafla þar sem dauðadrukkinn amerískur hermaður tekur leigubíl til Keflavíkur. Bílstjórinn er Ragnar, ungur maður að norðan. Á leiðinni í bæinn aftur keyrir hann fram á unga konu, Guðríði Faxen eða Gógó. Viftureimin í bílnum hennar er biluð og Ragnar hjálpar henni. Þau taka upp ástarsamband um vorið en um haustið kemst Ragnar að því að hún heldur líka við amerískan yfirmann í hernum. Hann leggur af stað norður, drukkinn í mikilli geðshræringu eftir að hafa slegist við besta vin sinn, leigubílstjórann Guðmund. Hann keyrir út af við Arnarstapa og deyr.

Aðalpersóna bókarinnar, Ragnar, er ungur en hefur þegar verið sjö ár í borginni. Bíllinn er vinnustaður hans en utan hans þekkir hann og umgengst aðeins félagana á stöðinni. Guðmundur, vinur hans, er líka sveitamaður og er úr Borgarfirði, en hann er bæði eldri og lífsreyndari en Ragnar og hefur verið lengur í borginni. Eftir fyrstu ástarnótt Ragnars og Gógóar, fer Guðmundur með Ragnar upp í Borgarfjörð til að skjóta helsingja. Hann talar fagurlega um það hvernig barnið upplifir vorið til sveita og Ragnar segir að það sé ekki eins og hann sé að fara að skjóta fugl. Guðmundur svarar: "- Stundum verður að drepa það sem er gott og manni þykir vænt um til að grimmdin megi brýnast."

Meginandstæður bókarinnar eru á milli Gógóar og Ragnars, Ameríku og Íslands, borgar og sveitar, yfirstéttar og alþýðu, lífsreynslu og sakleysis. Auk þess er Gógó eldri en Ragnar. Ragnar skilur hana ekki og veit ekki hvað hún vill. Hún er allt öðru vísi en móðir hans í Skagafirði. Rými borgarinnar er vettvangur 79 af stöðinni og þó að ekki gerist mikið í textanum er Ragnar á stöðugri hreyfingu eftir götum og landslagi borgarinnar enda felst vinna hans í því að flytja ókunnugt fólk frá einum stað til annars. Fyrst verður hann þó að bíða eftir útkallinu sem bókin dregur nafn sitt af, en það kemur frá "píunni" gegnum kallkerfi og er firrt og ópersónulegt. Valdaleysið fer stundum í taugarnar á Ragnari en rafvætt boðskiptasamfélag borgarinnar er hinn nýi veruleiki hans og þar ræður hann litlu nema tilfinningalífi sínu. Ragnar leigir herbergi, kaupir mat af "fraukum" á matsölustöðum og ópersónuleg vinna hans fyrir borgun er hluti af vöruviðskiptum borgarinnar, allt lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar, allt gengur kaupum og sölum. Þó að Reykjavík sé aðeins um 60 þúsund manna bær um miðjan sjötta áratuginn er hún stórborg í augum hinna aðfluttu sveitamanna.

Indriði G. Þorsteinsson hefur sagt að hann hafi viljað skrifa 79 af stöðinni á nýjan hátt vegna þess að: "Það er önnur sveifla í borg en í sveit... Rómantískur og ljóðrænn stíll hefði verið út í hött því allt gerist í gírskiptingunum í borginni, þar eru harkan, hraðinn og nákvæmnin í fyrirrúmi." Indriði notar myndmál tækninnar, bílstjórans, til að lýsa texta sínum enda felst í 79 af stöðinni ein af fyrstu tilraunum íslenskra rithöfunda til að láta bókmenntatextann mæta og svara nýjum fjölmiðlum og nýju boðskiptaumhverfi. Textinn er þjappaður, hraði aukinn með því að fella burt öll aukaorð sem mega missa sín, textinn er sviðsettur og leikrænn og mikið um samtöl sem skorin eru niður í einföldustu talathafnir ("speach acts"). Textinn minnir á köflum meira á kvikmyndahandrit en skáldsögu. Það var því afar vel við hæfi að 79 af stöðinni var kvikmynduð árið 1962 og varð tímamótaverk, fyrsta 35 mm leikna, íslenska kvikmyndin, gerð í dansk-íslenskri samvinnu.

Maður og náttúra og tilfinningar

Í næstu skáldsögu Indriða, Landi og sonum (1963), eru sviðsetningar og samtöl fyrirferðarmikil en dregið er úr hinum kaldhamraða stíl fyrstu skáldsögunnar og minna skorið innan úr setningum enda gerist sagan ekki í vélaumhverfi borgarinnar heldur í sveitasamfélaginu, undir lok kreppuáranna. Einnig sú bók var kvikmynduð af Ágúst Guðmundssyni og er hluti af íslenska kvikmyndavorinu kringum 1980.

Í Landi og sonum segir frá Einari sem býr með föður sínum öldruðum. Einar fer í göngur en á meðan veikist faðir hans og er lagður inn á sjúkrahúsið í þorpinu þar sem hann deyr tveim dögum síðar. Sonurinn selur jörð og bústofn, skýtur reiðhest sinn, býr sig undir að flytja suður og telur sig hafa talið stúlkuna Margréti á næsta bæ á að koma með sér. Hún kemur ekki á tilskildum tíma svo að Einar fer einn suður.

Einar vill alls ekki verða bóndi. Hann ætlar "að drepa í sér sveitamanninn", öfugt við Ragnar í 79 af stöðinni. Harka hans og einæði eru hins vegar aðeins á yfirborðinu því að hann vonast undir niðri eftir að geta tekið sveitina með sér til borgarinnar ef hann fái Margréti til að fylgja sér af því að hún er tákngervingur landsins í hans augum. En það gengur ekki eftir og Einar drepur hvíta hestinn sinn skv. kennisetningu Guðmundar í 79 af stöðinni: "Stundum verður að drepa það sem er gott og manni þykir vænt um til að grimmdin megi brýnast." Hin nauðsynlega "grimmd" ungra manna er augljóslega ætluð hinu nýja borgarsamfélagi stríðs- og eftirstríðsáranna þar sem þeir ætla að berjast til sigurs.

Land og synir er "meta-skáldsaga", skáldsaga um uppgjörið við bændasamfélagið og þá jafnframt um allar bækurnar um það. Land og synir á að gerast á undan 79 af stöðinni eins og henni sé ætlað að sýna enn betur hvers vegna engin leið liggur til baka og hvers vegna tími sé til kominn til að taka gamla bændasamfélagið af dagskrá. En Indriði G. Þorsteinsson var ekki tilbúinn að gera það sjálfur því að næsta skáldsaga hans Þjófur í paradís (1967) fjallar enn og aftur um bændasamfélagið.

Maður og paradís

Þjófur í paradís hefst á brúðkaupi þar sem persónur sögunnar, aðrar en fólkið í Svalvogum, eru kynntar og kynna sig sjálfar. Á heimleið ríða bændur fram á Hervald í Svalvogum. Annar þeirra grunar hann samstundis um að hafa stolið gráum hesti sem hann hefur meðferðis. Hann kærir Hervald fyrir sýslumanni, það er leitað í Svalvogum og að lokum finnast þar í mógröf sönnunargögn um þjófnað á sautján kindum og einu hrossi. Hervaldur er dæmdur í tveggja ára fangelsi og bókinni lýkur á því að byrjað er tvístra fjölskyldunni en börn hins dæmda voru sjö talsins.

Sagan er mjög viðburðasnauð og kyrrstæð. Drengirnir á Brandstöðum fara að vitja silungsneta með Hervaldi að næturlagi, það er leitað í Svalvogum í tvo daga og þá eru atburðir sögunnar eiginlega upptaldir. Sagan byggist á raunverulegu sakamáli úr Skagafirði í lok kreppuáranna en Ólafur Jónsson gagnrýnandi bar skáldsöguna og dóminn saman og sýnir fram á að gangi málsins er fylgt býsna nákvæmlega, aðeins er vikið frá raunverulegum gangi mála í smáum atriðum og Ólafur spyr hvað Indriði sé að fara með þessari sögu yfirleitt? Hann saknar allrar úrvinnslu, túlkunar eða dýpri merkingar. Hann bendir á að Steinn í Svarðbæli sé greinilega talsmaður höfundar, það sé hann sem líki sveitasamfélaginu við paradís og það sé hann sem horfi á eftir Hervaldi á leið í fangelsi í bókarlok og Ólafur segir: "Heimsmynd Steins á Svarðbæli, og sögunnar, er svo fjarska haldlítil, lítil eftirsjá að henni þegar hún bregst." Vésteinn Ólason skrifaði líka um bókina og túlkaði hana sem sorglega afturför frá róttækni fyrstu skáldsögunnar þar sem borgin og nútíminn eru tekin gild enda afturhvarfið ómögulegt. Nú hafi Indriði skipt um skoðun og skrifi afturhaldssama lofgjörð um gamla stéttskipta bændasamfélagið sem sé sú paradís sem borgarsamfélag nútímans hafi glutrað niður. Þessi fáránlega hugmyndafræði sé svo veruleikafirrt að bókin geti enga sögu spunnið út frá henni og því sé hún svo efnislega rýr.

En það má líka skoða Þjóf í paradís sem lokabókina í þríleik sem hófst með 79 af stöðinni. Ef Land og synir er skrifuð framan við 79 af stöðinni til að útskýra hvers vegna Ragnar gat ekki snúið heim má ef til vill segja að Þjófur í paradís sé skrifuð framan við Land og syni til að útskýra hvers vegna Einar gat ekki annað en farið að heiman, þetta er ekki sagan af því hvernig stolið var í paradísinni heldur því hvernig paradísinni var stolið. Hvaða paradís?

Í bókinni kemur aldrei beint fram hvers vegna Hervaldur stelur frá sveitungum sínum. Hervaldur gegnir því hlutverki í þessari sveit að vera á jaðri hennar í öllum skilningi, hann er hvorki inni né úti. Þegar Steinn í Svarðbæli horfir yfir sveitina svo fagra og búsældarlega og hugsar um að hún sé eins og paradís talar hann út frá miðju samfélagsins, fyrir hönd þeirra sem hafa það þokkalegt. En það er fólk í sveitinni sem þjáist og það þýðir að sveitin getur ekki verið paradís nema fyrir suma. Þjófur í paradís er sérkennilega þögul bók sem vekur augljóslega margar spurningar og þó að fleiri bækur hefðu enn verið skrifaðar um uppgjörið við bændasamfélagið hefði það trúlega aldrei verið fullskýrt hvorki fyrir lesanda né höfundi. Þð er eitt af því sem einkennir stóráföll eða "trauma" í sögu þjóða og sálarlífi einstaklinga.

Mikilvægur höfundur

79 af stöðinni, Land og synir og Þjófur í paradís fela í sér uppgjör við bændasamfélagið og heyra saman að mínu viti. Þær mynda þráð sem spunninn er aftur á bak en því er skyndilega hætt og þræðirnir skildir eftir lausir. Eftir það skrifar Indriði G. Þorsteinsson Norðan við stríð (1971) eins og til að skipta um umræðuefni en sú bók nær að mínu mati ekki með tærnar þar sem fyrri skáldsögur hafa hælana, hvorki hugmyndafræðilega né fagurfræðilega. Mér finnst hún ekki standa undir því að vera sú myndmiðja sem Kristján B. Jónasson gerir úr henni og ég hefði frekar viljað að Þjófur í paradís hefði verið prentuð með hinum sögunum brottflutninginn á mölina.

Í skáldsögum sínum reynir Indriði ekki að skrifa breiðan, epískan texta og hann trúir augljóslega ekki á þau hugmyndafræðilegu líkön sem gætu lagt sögum hans til lokað form af einhverju tagi. Sá skortur á yfirsýn og ætlun sem gagnrýnendur sárkvörtuðu yfir í upphafi áttunda áratugarins er ef til vill það sem gerir sögur hans jafn nútímalegar og raun ber vitni.

Bækur Indriða skiptu miklu máli á eftirstríðsárunum vegna verðleika sinna en líka vegna persónu Indriða sem var valdamikill maður í íslensku menningarlífi í tvo áratugi. Ég hélt satt að segja ekki að það væri hægt að skrifa rithöfundatal eða bókmenntasögu seinni hluta 20. aldarinnar án þess að helga Indriða G Þorsteinssyni myndarlegt pláss en í nýútkominni bók frá Bandaríkjunum Dictionary of Literary Biography - Icelandic Writers (2004) er hann ekki nefndur einu orði. Ég ætla rétt að vona að það verði einsdæmi.

Knútur Hafsteinsson: "Nýjungar í íslenzkri smásagnagerð um 1950", Ritgerð til BA-prófs í almennri bókmenntafræði og íslensku (1980), Matthías Viðar Sæmundsson: Stríð og söngur, Forlagið (1985), Kristján B Jónasson " Rödd úr hátalara, skilaboð í tóttarvegg..." Andvari (1998), Kristján B. Jónasson: "Íslenska hjarðmyndin. Andstæður borgar og sveitar í 79 af stöðinni og Land og synir." í Guðni Elísson (ritstj): Heimur kvikmyndanna, art.is.(1999), Ólafur Jónsson: Líka líf, Iðunn (1979) Sjá einnig Njörður P. Njarðvík: "Indriði G. Þorsteinsson", Skírnir (1966), Véstein Ólason: "Frá uppreisn til afturhalds. Breytingar á heimsmynd í skáldsögum Indriða G. Þorsteinssonar", Skírnir (1981) Dagný Kristjánsdóttir: "Karlar í krapinu." í Eiríkur Guðmundsson og Þröstur Helgason (ritstj.): Engill tímans (2004).

Höfundur er prófessor í íslensku við Háskóla Íslands.