Maðurinn veiktist eftir átök við lögreglu fyrir utan heimili hans. Lífgunartilraunir á staðnum báru ekki árangur.
Maðurinn veiktist eftir átök við lögreglu fyrir utan heimili hans. Lífgunartilraunir á staðnum báru ekki árangur. — Ljósmynd/Hilmar Bragi
RÍKISSAKSÓKNARI fól í gær lögreglunni í Reykjavík að rannsaka andlát 33 ára gamals manns sem lést eftir átök við tvo lögreglumenn í Keflavík síðdegis á fimmtudag. Þar sem rannsóknin beinist m.a.

RÍKISSAKSÓKNARI fól í gær lögreglunni í Reykjavík að rannsaka andlát 33 ára gamals manns sem lést eftir átök við tvo lögreglumenn í Keflavík síðdegis á fimmtudag. Þar sem rannsóknin beinist m.a. að lögreglunni í Keflavík telst embættið vanhæft til að sinna henni.

Síðdegis í gær stóð til að taka skýrslur af lögreglumönnunum, vitnum og öðrum málsaðilum.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að ekki sé grunur um að maðurinn hafi verið beittur harðræði. Rannsóknin beinist að því að upplýsa um málsatvik og dánarorsökina. Búist er við að niðurstöður krufningar liggi fyrir um helgina.

Maðurinn sem lést hét Bjarki Hafþór Vilhjálmsson, fæddur 3. ágúst 1971. Bjarki bjó á Íshússtíg 5, í sama húsi og foreldrar hans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Keflavík var upphaf málsins það að tilkynnt var um mann sem væri illa á sig kominn á gangi í bænum. Hann hafi virst í annarlegu ástandi og verið færður í fangageymslur. Lögregla hafi hringt á heimili mannsins og svaraði sonur mannsins, Bjarki Hafþór, í símann. Eftir samtalið hafi þótt ástæða til að kanna nánar ástand á heimilinu og því hafi tveir lögreglumenn verið sendir á staðinn. "Á vettvangi kom sonurinn á móti þeim út á lóðina fyrir utan húsið. Hann var æstur og árásargjarn og hafði í hótunum við lögreglumenn og mjög erfitt var að skilja hvað hann var að segja. Veittist hann að lögreglumönnum og upphófust átök milli hans og lögreglumannanna," segir í tilkynningu sem lögreglan í Keflavík setti á lögregluvefinn snemma í gærmorgun. Þegar lögreglumennirnir höfðu náð tökum á manninum og sett hann í handjárn veiktist hann alvarlega. Lögreglumenn hófu lífgunartilraunir á lóðinni og kölluðu á sjúkrabíl sem flutti hann á sjúkrahús í Keflavík. Þar var hann úrskurðaður látinn. Lögreglumönnunum tveimur var boðin áfallahjálp.

Faðir mannsins var í gær á sjúkrahúsi. Ekki fengust upplýsingar um hvað amaði að honum en hann mun hafa átt við veikindi að stríða.

Karl Hermannsson, yfirlögregluþjónn í Keflavík, vildi sem minnst tjá sig um málið í gær og benti á að annað lögregluembætti færi með rannsókn þess. Málið væri afar viðkvæmt og lögreglan tæki það afar nærri sér.