Samningur um Alþjóðaskólann í Reykjavík undirritaður.
Samningur um Alþjóðaskólann í Reykjavík undirritaður.
UNDIRRITAÐUR var samningur um Alþjóðaskólann í Reykjavík (Reykjavík International School) í Víkurskóla v/Hamravík miðvikudaginn 8. september. Þar undirrituðu fræðslustjórinn í Reykjavík, Gerður G.

UNDIRRITAÐUR var samningur um Alþjóðaskólann í Reykjavík (Reykjavík International School) í Víkurskóla v/Hamravík miðvikudaginn 8. september. Þar undirrituðu fræðslustjórinn í Reykjavík, Gerður G. Óskarsdóttir, fulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi, Robert Dreesen, og skólastjóri Víkurskóla, Árný Inga Pálsdóttir, og skólastjóri Alþjóðlega skólans, Berta Faber, samkomulag um rekstur alþjóðlegs skóla. Viðstaddir voru m.a. formaður fræðsluráðs, Stefán Jón Hafstein, og sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, James Irvin Gadsden.

Nýi skólinn byggist á sendiráðsskólanum í bandaríska sendiráðinu. Samningurinn fjallar annars vegar um húsnæði skólans í Víkurskóla og hins vegar um samvinnu Alþjóðlega skólans og Víkurskóla um ýmsa þætti skólastarfsins.

Skólinn hefur nú þegar tekið til starfa í Víkurskóla og eru nemendur sex en gert er ráð fyrir fleiri nemendum á skólaárinu. Við skólann starfa tveir kennarar og einn aðstoðarkennari. Skólanum er ætlað að taka við nemendum á aldrinum 5-12 ára og verður starfsemi hans að hluta tengd inn í almennt skólastarf í Víkurskóla, þannig að nemendur og kennarar munu taka þátt í skólastarfi með íslenskum nemendum þegar því verður við komið.

Nemendur geta keypt sér mat í mötuneyti skólans og nýtt sér dvöl í frístundaheimili eftir skóla.

Nemendur er fyrst og fremst börn erlendra starfsmanna í utanríkisþjónustu og öðrum tímabundnum störfum á Íslandi, sem búsettir eru hér á landi.

Sameiginleg þemaverkefni

Skólinn hefur aðstöðu í Víkurskóla og fá nemendur Alþjóðaskólans kennslu í verk- og listgreinum með nemendum Víkurskóla á sama aldri. Nemendur beggja skóla vinna að sameiginlegum þemaverkefnum. Einnig fá nemendur þjálfun í málnotkun í íslensku og ensku. Nemendur hafa gagn og gaman af að vinna og leika sér saman.

Samstarfssamningurinn kveður á um tveggja ára þróunarverkefni og verður árangur samstarfsins metinn á tímabilinu. Skólastjóri Alþjóðaskólans í Reykjavík er Berta L. Faber.