Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson fjallar um óhugnaðinn í Beslan: "Beslan er enn eitt merki þess að pólitísk lausn er eina lausnin á ástandinu í Téténíu."

HINIR hræðilegu atburðir í Beslan í N-Ossetíu, nágrannalýðveldi Téténíu (S-Rússlandi, þar sem hundruð manna, konur og börn, létust og særðust, er einn ein sönnun þess að í Rússlandi geisar borgarastríð. Tekið skal strax fram hér að undirritaður telur að öll hryðjuverk séu óréttlætanleg og að gíslatökur í líkingu við þá sem átti sér stað í Beslan séu hryllingur einn sem enginn ætti að ganga í gegnum. Sérstaklega ekki saklaus skólabörn!

En til þess að skilja baksvið þessara atburða er nauðsynlegt að fara heilan áratug aftur í tímann. Í lýðveldinu Téténíu krafðist leiðtogi þess Dzokhar Dudajev sjálfstæðis og gekk svo langt að lýsa því yfir. Þetta þoldi þáverandi forseti Rússa, Borís Jeltsín, ekki og sendi herlið inn í lýðveldið. Í Moskvu töldu menn þetta létt verk, en reyndin varð tveggja ára blóðug styrjöld, sem kostaði 100.000 mnns lífið og nánast gjöreyðingu Téténíu. Höfuðborgin, Grozny, var t.a.m. nánast jöfnuð við jörðu. Opinberlega var vopnahlé í gildi á árunum 1996-1999, en þá hófust bardagar að nýju í kjölfar sprenginga í fjölbýlishúsum í Moskvu. Skuldinni var skellt á aðskilnaðarsinna frá Téténíu, en það er í raun ekki vitað hverjir stóðu að baki hryðjuverkunum.

Samkvæmt opinberri stefnu Vladímír Pútín geisar ekki stríð í Téténíu, þar stundar her Rússa svokallaðar "hreinsunaraðgerðir" og aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum (þetta fellur undir stríðið gegn alþjóðlegum hryðjuverkum, sem hófst eftir 11. september 2001).

Rússneskir hermenn og her þeirra hafa farið sínu fram óáreittir í landinu; konum er rænt og nauðgað, karlmönnum og ungum drengjum er einnig rænt, þeir myrtir og síðan eru fjölskyldur þeirra krafðar um lausnargjald fyrir líkin. Liðsandinn í rússneska hernum er lélegur og oftar en ekki eru það ungir og illa þjálfaðir menn í herskyldu sem fremja voðaverkin. Um þetta má m.a. lesa í skýrslum Amnesty International (www.amnesty.org).

Svar Téténa, sem eru fáliðaðir og illa vopnum búnir, er í formi skæruhernaðar og hryðjuverka, sem að sjálfsögðu eru viðbjóðsleg. En sé litið til aldagamals haturs Rússa á Téténum (þeir eru yfirleitt allir stimplaðir sem villimenn og ,,bandítar" og ofsóttir víða í Rússlandi) skil ég að vissu leyti málstað þeirra. Rússar hafa farið afar illa með Téténa og má að vissu leyti líkja meðferð þeirra við meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum. Rússar kúga Téténa.

Í þeim átökum sem geisa í Téténíu er ekki að finna neina hernaðarlega lausn. Í raun ríkir pattstaða, Rússar hafa yfirgnæfandi hernaðarkraft, Téténar svara með hryðjuverkum. Pútín hefur sagt að ekki komi til greina að ,,sleppa" Téténíu. Hann er einfaldlega hræddur við að þá fylgi önnur lýðveldi eftir og að um verði að ræða svokölluð ,,dómínó-áhrif. Frelsi Téténíu þýðir ósigur fyrir Pútín og hann er einfaldlega ekkert á þeim buxunum!

Hin blóðuga upplausn gíslatökunnar í Beslan er í fullu samræmi við blóðuga sögu Rússlands, sem í öllum hernaðarátökum hefur sætt sig við og hreinlega reiknað með mannfalli óbreyttra borgara. Í seinni heimsstyrjöld voru t.a.m. sérstakar aftökusveitir sem drápu þá hermenn sem ekki voru reiðubúnir að ganga í opinn dauðann, sama hve vonlaus staðan var. Það var skylda að fórna sér fyrir föðurlandið og til þess ætlast!

Í Beslan var ringulreiðin alger, hermenn og vopnaðir almennir borgarar (lesið: foreldrar) tóku þátt í bardögum. Það sem hleypti öllu af stað var sennilega sprenging vegna mistaka. Hryðjuverkamönnunum, sem allir voru eltir uppi og drepnir, tókst þó ætlunarverk sitt; að sýna að enginn er öruggur í Rússlandi. Og það er veikleikamerki fyrir Pútín. Hann hefur lofað öryggi en getur ekki staðið við loforð sitt.

Beslan er enn eitt merki þess að pólitísk lausn er eina lausnin á ástandinu í Téténíu. En lítil von er til þess að menn byrji að tala saman, Pútín hefur lofað enn harðari aðgerðum gegn hryðjuverkum og þeim sem standa fyrir slíku. Lausn á átökunum í Rússlandi er því ekki í sjónmáli, því miður.

Gunnar Hólmsteinn Ársælsson fjallar um óhugnaðinn í Beslan

Höfundur er stjórnmálafræðingur, búsettur í Uppsölum í Svíþjóð.