15. september 2004 | Aðsent efni | 711 orð | 2 myndir

Klámvæðing og réttur einstaklinga

Jónína Bjartmarz
Jónína Bjartmarz
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jónína Bjartmarz og Rannveig Guðmundsdóttir fjalla um klámvæðingu: "Einstaklingar og fjölskyldur þeirra eiga skýlausan rétt til að vera laus við klám úr umhverfi sínu. Að tryggja þann rétt er verkefni okkar allra."
Á síðustu árum hefur kynlíf og vísanir í það orðið æ fyrirferðarmeira í fjölmiðlum. Þetta á einkum við í auglýsingum, tónlistarmyndböndum og tísku þar sem áherslan á ögrandi kynþokka og nekt er nánast orðin alltumlykjandi. Ekki þykir lengur tiltökumál þegar ungstirni á borð við Britney Spears birtist fáklætt í tónlistarmyndböndum sem höfða eiga fyrst og fremst til barna og unglinga. Samhliða þessu hefur framboð og aðgengi að klámi vaxið stórkostlega, einkum á Netinu en einnig í öðrum fjölmiðlum. Alls staðar er klámaukningin merkjanleg, og það sem verra er, klám er nánast orðið hversdagslegt. Klámfengið efni, sem fyrir tíu árum þreifst einvörðungu fyrir luktum dyrum, er í dag borið á torg og blasir víða við. Ýmsir hafa goldið varhug við þessari þróun og mótmælt henni en með litlum árangri. Klámvæðingin virðist komin til að vera.

Klám getur haft skaðleg áhrif á börn og unglinga

Ekki þarf að fjölyrða um neikvæð áhrif þessarar kynlífs- og klámvæðingar á börn og unglinga. Rannsóknir hafa sýnt að þessi þunga áhersla á kynlíf í dægurmenningu hefur bein og óbein áhrif á sjálfsmynd neytenda sem í raun eru ekki í aðstöðu til að velja eða hafna. Ljóst er að óhörðnuð börn og unglingar eru viðkvæmust fyrir þessum áhrifum. Dapurlegt er til þess að vita að sífellt yngri börn og unglingar hafa aðgang að klámi og komast þannig í kynni við það áður en þau hafa dómgreind og þroska til. Þannig er hætt við, og raunar mörg dæmi um, að börn og unglingar ali með sér margs konar ranghugmyndir um kynlíf og samskipti kynjanna. Fréttir af æ grófari nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi, þar sem gerendur og þolendur eru afar ungir að árum, staðfesta hörmuleg áhrif klámsins á ungt fólk.

Hvað vill Norðurlandaráð?

Ofangreindur vandi hefur verið til umfjöllunar á vettvangi Norðurlandaráðs enda er um alþjóðlega þróun að ræða sem birst hefur með svipuðum hætti á Norðurlöndunum. Samstaða er meðal norrænna stjórnmálamanna um að berjast þurfi gegn þessum vanda og um að vernda beri rétt einstaklinga til að vera lausir við klám úr umhverfi sínu. Margir eru þeirrar skoðunar að lagasetningarleiðin sé óheppileg og ekki sé vænlegt til árangurs að beita boðum og bönnum í baráttunni gegn klámvæðingunni. Aðrir telja lagasetningarleiðina meðal fleiri sem þurfi að beita. Klám á ekki að vera þröngvað upp á fólk á almannafæri og stöðva ber þá þróun að klámefni berist einstaklingum án þess að þeir beri sig sérstaklega eftir því. Þetta er kjarni málsins: Klámefni á ekki að blasa hvarvetna við börnum og unglingum eða öðrum sem ekki bera sig sérstaklega eftir því. Þess vegna hefur Norðurlandaráð skorað á fjölmiðlafyrirtæki, hótel, bensínstöðvar, söluturna og önnur fyrirtæki þar sem klámefni er tiltækt, að virða rétt almennings til að vera laus við klám í umhverfi sínu með því að hafa klámefni hulið og á afmörkuðum stöðum. Framleiðendur og sölumenn klámefnis eiga ekki að hafa rétt til að þröngva varningi sínum upp á almenning hvar og hvenær sem er. Þvert á móti hafa einstaklingar rétt til að sjá ekki klám ef þeir bera sig ekki eftir því. Þann rétt ber að virða.

Ýmsar leiðir færar

Klámvæðingin verður ekki stöðvað með boðum og bönnum einum. Mjög mikilvægt er að allur almenningur láti sig þessa þróun varða og að hugarfarsbreyting eigi sér stað í samfélaginu. Ef almenningur hafnar því að klám sé hvarvetna á boðstólum og lætur í sér heyra, mun markaðurinn bregðast fljótt við því. Einnig geta stjórnvöld gripið til staðfastra aðgerða til að draga úr aðgangi að klámi. Þannig geta skólar sett sérstakar síur á leitarvélar sínar til að tryggja að skólabörn og unglingar geti unnið á tölvur án þess að klámið finni sér leið inn á tölvuskjáinn. Norðurlandaráð hefur skorað á norræna menntamálaráðherra að beita sér fyrir þessu, auk þess sem dómsmálaráðherrar Norðurlandanna eru hvattir til að skoða leiðir til að nota refsirammann til að stöðva klám á almannafæri. Norðurlandaráð styður einnig norrænar rannsóknir til að skoða áhrif kláms á kynjamyndir ungs fólks sem ráðherrar jafnréttismála hafa sett í gang hjá Norrænu rannsóknarstofunni um kvenna- og kynjarannsóknir. Þetta eru dæmi um norrænar aðgerðir sem dregið geta úr klámvæðingu samfélagsins.

Einstaklingar og fjölskyldur þeirra eiga skýlausan rétt til að vera laus við klám. Að tryggja þann rétt er verkefni okkar allra.

Jónína Bjartmarz og Rannveig Guðmundsdóttir fjalla um klámvæðingu

Höfundar eru alþingismenn. Jónína er formaður og Rannveig varaformaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.