17. september 2004 | Tónlist | 703 orð | 1 mynd

Tónlist | Áströlsk frumbyggjatónlist og íslensk þjóðlög í Salnum í kvöld

Tónlistin tjáir tengsl við náttúru, sögu, fortíð, guði og umheiminn

Yirryirrngu Ganambarr helgiathafnasöngvari, Mirrwatnga Munyarryun hátíðar-yidaki-spilari og Ngongu Ganambarr yidaki-smiður á sviðinu í Salnum. Á tónleikunum í kvöld mætast íslensk tónlist og tónlist áströlsku frumbyggjanna.
Yirryirrngu Ganambarr helgiathafnasöngvari, Mirrwatnga Munyarryun hátíðar-yidaki-spilari og Ngongu Ganambarr yidaki-smiður á sviðinu í Salnum. Á tónleikunum í kvöld mætast íslensk tónlist og tónlist áströlsku frumbyggjanna. — Morgunblaðið/Þorkell
ÞAÐ er ekki sama um hvað er spurt og hvernig er spurt þegar ástralskir frumbyggjar eru annars vegar.
ÞAÐ er ekki sama um hvað er spurt og hvernig er spurt þegar ástralskir frumbyggjar eru annars vegar. Þeir Yirryirrngu Ganambarr helgiathafnasöngvari, Mirrwatnga Munyarryun hátíðar-yidaki-spilari og Ngongu Ganambarr yidaki-smiður sitja á sviðinu í Salnum, kappklæddir í íslensku haustlægðinni; eru hingað komnir frá heimkynnum sínum í Arnhem-landi í Ástralíu til að spila fyrir íslensk skólabörn og tónleikagesti í Salnum í kvöld. "Þeir eru komnir með heimþrá og farnir að tala um ættingjana heima," segir Buzby, ástralski náunginn sem hefur haft veg og vanda af komu þeirra hingað. Buzby Birchall er reyndar búsettur á Íslandi, og er mikill áhugamaður um menningu ástralskra frumbyggja. Hann fékk vin sinn Jeremy Cloake, yidaki-sérfræðing við Buku Larrngay Mulka-listamiðstöðina í Yirkala í norðaustur Arnhem-landi, til að koma hingað með frumbyggjana þrjá, til að kynna Íslendingum list þeirra. Allir eru þeir mikils metnir á heimaslóðum sínum. Yirryirrngu er af ættbálki Datiwuy-manna, Mirrwatnga er af Wangurri-ættbálki og Ngongu tilheyrir ætt Datiwuy-manna. Buzby tekur blaðamann á eintal og útskýrir að menningarheimarnir séu ólíkir og að um sumt megi alls ekki spyrja - til dæmis um tengdamæður. Slíkt er óviðeigandi - líka að spyrja hvort frumbyggjamenning standi ekki höllum fæti í vestrænu tæknisamfélagi - og svo margt, margt fleira. Það er forvitnilegt að vita af slíkum "etikettum", þótt sennilega hefðu tengdamæður seint borið á góma okkar í millum. En eitthvað dregst það að viðmælendurnir þrír gefi sér tíma í spjall, og Jeremy Cloake, samferðamaður þeirra, er sóttur. Þremenningarnir eru ekki upplagðir í spjall - þá hefur dreymt fólkið sitt heima, og núna eru þeir að hugsa um það, með svolítilli heimþrá, og auðvitað getur blaðamaður ekki truflað þá við það. Ferðalag þessara manna til Íslands hlýtur að vera með því lengsta sem þeir hafa farið að heiman. En Jeremy Cloake er sérfræðingur í tónlist þeirra og er tilbúinn til að segja frá.

"Tónlistin er ekki bara tónlist. Hún getur verið hugsuð sem list, náttúruhljóð, guðleg músík og svo margt, margt fleira. Tónlistinni er ætlað að tjá tengslin við landið; staði, fólk og dýr - tengsl við umheiminn og alheiminn, fortíðina og upprunann, líf forfeðranna í landinu og margt fleira. Þetta er tónlist um sögu og atburði og fjölbreytnin er mikil í söngvunum. Á tónleikunum í kvöld verða eingöngu fluttir gamlir söngvar, sprottnir úr hefðinni."

Spurður um viðhorf frumbyggjanna til þeirra vinsælda sem tónlist þeirra nýtur í Evrópu í dag, segir Cloake, að sér virðist þeir mjög upp með sér af þeim, svo framarlega sem hefð þeirra sé sýnd tilhlýðileg virðing. "Þeir eru stoltir af menningu sinni og upp með sér þegar þeir finna að áhuginn er einlægur og virðing fyrir henni borin. Þess vegna erum við líka hér. Þeir vilja gefa umheiminum sýn inn í menningu sína og þá arfleifð sem þeir byggja líf sitt á, enn þann dag í dag."

Ættir frumbyggjanna þriggja tilheyra stærri hópi fólks, sem kallast Yolngu. Það eru 16 mismunandi Yolngu-ættbálkar innan Miwati-svæðisins í norðaustur Arnhem, og hefur hver ættbálkur sitt óðal, heimaland, tungumál eða mállýsku, og guðleg tengsl.

Yolngu-frumbyggjarnir þrír sýna Bunggul, hefðbundna opinbera athöfn, en hún er samsett úr tónlist og dansi Yolngu-fólksins. Tónlistin og dansinn sem Yolnguarnir flytja eru að öllum líkindum elstu söng- og dansathafnir sem til eru í heiminum í dag.

Yolngu-fólkið trúir að alla sköpun megi rekja til samhangandi athafna á forsögulegum tíma. Í upphafi ferðuðust forfeður þeirra úr andaheiminum um landleysur og sköpuðu alla hluta hins efnislega heims, þar með talið Yolngu-ættbálkana og mismunandi mállýskur þeirra. Þessar forsögulegu gjörðir eru skráðar í helgisöngva þeirra, Manikay, sem gefa öllum Yolngu-ættbálkunum sameiginlega sjálfsmynd og berast á milli kynslóða í gegnum helga siði og hátíðlegar athafnir. Hljóðfærið þeirra, didjeridú, eða yidaki, eins og þeir kalla það, er heilagt hljóðfæri frumbyggja. Það er búið til úr bolum mismunandi tegunda Eucalyptus trjáa, eða myrtusviðar. Bolir trjánna eru holir af völdum termíta sem éta kjarna trésins á meðan það vex. Yolnguarnir höggva bol trésins í ákjósanlega lengd og rífa burt börkinn. Síðan er munnstykkið og holrúmið sniðið að spilastíl þess Yolngua sem smíðar hljóðfærið og leikur á það. Í Yolngu-samfélaginu eru það aðeins karlmenn sem spila á yidaki.

Áður en frumbyggjarnir hefja leik koma íslenskir tónlistarmenn fram með fjölbreytta þjóðlega dagskrá. Meðal þeirra eru Hilmar Örn Hilmarsson, Steindór Andersen kvæðamaður, Diddi fiðla, Eþos-strengjakvartettinn, Buzby Birchall og fleiri. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.