26. september 2004 | Innlendar fréttir | 2088 orð | 1 mynd

Sólin er ekki setzt í Hvalfirði

Fann ekki til hræðslu, en reyndi að vera við öllu búinn. Arnór Hannibalsson í hlaðvarpanum á Hreggnasa.
Fann ekki til hræðslu, en reyndi að vera við öllu búinn. Arnór Hannibalsson í hlaðvarpanum á Hreggnasa. — Morgunblaðið/ÞÖK
Á æskuslóðum hans í Ögurhreppi vestur er klöpp, sem skagar út í sjóinn og er nefnd Hreggnasi. Nafnið tók hann með sér suður; í Laxárvog í Hvalfirði. Þar stendur Arnór Hannibalsson nú á sjötugu; lítur óbilaður um öxl og björtum augum til framtíðarinnar. Freysteinn Jóhannsson ræddi við hann.
Þegar við hittumst er Arnór nýkominn úr mikilli reisu í austurveg; leið hans lá um London og Istanbul, til Peking. Í Kína skoðaði Arnór sig um í hálfan mánuð, en hélt síðan með Síberíuhraðlestinni til Moskvu, þar sem hann dvaldi annan hálfan mánuð. Frá Moskvu lá leið hans til Varsjár, Vilnius, Tallinn, Helsinki, Kaupmannahafnar og heim.

Þessir staðir voru honum ekki ókunnugir fyrir. Þeir áttu sinn þátt í lífi hans fyrir, allt frá því hann stundaði heimspekinám í Moskvu að loknu stúdentsprófi.

Og allar götur síðan þá hefur Arnór verið einn af sérfræðingum okkar í málefnum Sovétríkjanna og títt spurður álits á þróuninni þar og í Rússlandi.

Það liggur því beint við, að spyrja hann, hvað sé títt frá Moskvu.

Almenningur lítið var við hagvöxtinn

"Ég var síðast í Moskvu í ágúst '98, rétt fyrir hrunið mikla; þegar fjármálakerfið hrundi.

Sumt hefur breytzt síðan, en annað er alveg með gamla laginu ennþá. Þeir hafa breytt götunöfnum og flikkað upp á hús í borginni.

En borgin lifir sínu eigin lífi sem fyrr. Höfuðborgirnar tvær; Moskva og Pétursborg eru alveg sér á parti og þar blasir annar veruleiki við en meðal almennings úti á landi.

Mesta breytingin sem nú blasti við í Moskvu voru vörurnar í búðargluggunum. Nú sjást ekki lengur miðar á rúðum matvöruverzlana, sem segja, að engar vörur séu til; allt búið! Nú eru allir búðargluggar fullir af varningi hvaðanæva úr veröldinni og erlendir lúxusbílar renna um göturnar.

En þegar menn fara að fást við kerfið, eru hlutirnir ósköp svipaðir og þeir voru fyrir umbreytinguna miklu 1990-91. Valdastéttin, sem sölsaði þá allt undir sig, er kjarninn í valdakerfinu nú.

Hún lætur sér vel líka þá stöðu, sem nú er í Dúmunni, að einn flokkur, flokkur forsetans, hafi undirtökin.

Nú hefur verið gefið út að hagvöxturinn 2003 hafi verið 7%. En almenningur verður lítið var við hann; ekki hækka launin og ekki lækkar verðlagið. Almenn laun eru enn um 5.000 rúblur á mánuði, sem jafngilda 10.000 krónum íslenzkum.

Og spillingin veður uppi sem aldrei fyrr.

Það blasir við út um lestargluggann frá Austur-Síberíu til Moskvu að þar er fátt að gerast.

Nýbyggingar eru strjálar. Timburkofarnir hallast hver að öðrum eins og áður. Íbúarnir eru afkomendur útlaga og gúlag-þræla eða voru sjálfir innan múra. Það er búið að berja allt framtak úr þessu fólki.

Og enn þann dag í dag lætur löggjöf um eignarhald á landi á sér standa. Bændur eiga því erfitt um vik að eignast land.

Eina lífsmarkið er í næsta nágrenni bæja og borga þar sem bændur komast beint á markað með vörur sínar."

Þetta var allt þagað í hel, blessaður vertu!

Ferðir Arnórs í skjalasöfn í Moskvu á síðasta áratug 20stu aldarinnar; safn miðstjórnar sovézka kommúnistaflokksins og safn Komintern, Alþjóðasambands kommúnista, leiddu ýmislegt í ljós um samskipti íslenzkra og sovézkra kommúnista. Ég spurði hann, hvort hann hefði grúskað eitthvað í söfnum í þessari ferð.

"Nei. Aðgangur að þeim er ekki eins greiður núna og var áður um tíma. Stór hluti af skjalasafni kommúnistaflokksins hefur verið settur undir forsetaembættið. Einstaka menn hafa fengið aðgang að einhverjum skjölum, en það eru aðeins smábrot."

Upplýsingar Arnórs um samskipti kommúnistaflokksins, sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins við sovézka kommúnistaflokkinn enduðu í bók hans Moskvulínan, sem kom út 1999. Þessar upplýsingar hans vöktu athygli hér heima.

"Ekki varð ég var við það! Bókin var þöguð í hel."

- Hvers vegna? Af hverjum?

"Það var og er enn fjölmennur hópur manna, sem vill fyrir alla muni að þessi samskipti haldist í þagnargildi. Þeir vilja ekki að sannleikanum um samskipti íslenzkra kommúnista við Moskvu sé haldið á loft.

Svo eru komnar kynslóðir í landið, sem líta á þetta tímabil sem fornöld og finnst saga þess ekkert spennandi. Það hefur líka svo margt breytzt frá því sem var."

- Áttu von á að skjalasöfn í Moskvu geymi fleiri opinberanir handa okkur?

"Það er margt ókannað ennþá, þar á meðal ýmislegt, sem snertir sögu Íslands.

Ég nefni sem dæmi afstöðu Sovétstjórnarinnar til lýðveldisstofnunar á Íslandi. Fulltrúi Sovétríkjanna á Þingvöllum 1944 féll síðar í ónáð. Ég hitti hann einu sinni; hann var þá skrifstofumaður útgáfufyrirtækis erlendra bóka, en ekkert færi gafst á samræðum við hann.

Þegar ég var í Moskvu 1992 sótti ég um aðgang að skjalasafni utanríkisráðuneytisins. Ég fékk leyfið daginn áður en ég fór heim, en ég hafði embættisskyldum að gegna heima og gat ekki frestað för. Ég gat því aldrei notfært mér leyfið."

- Þér hefur ekki flogið í hug að nota það núna?

"Satt að segja flaug mér það í hug! En það varð ekkert af því. Ætli leyfið hafi hvort eð er ekki verið gleymt og grafið!"

Örlög Sólveigar Erlu, dóttur Benjamíns Eiríkssonar og Veru Hertsch, hafa verið mörgum hugleikin. Arnór hefur komið að rannsókn mála þeirra mæðgna. Vera lézt í þrælavinnubúðum í Kasakstan 1943, en ekkert er vitað um örlög Sólveigar Erlu eftir að móðir hennar var handtekin 1937, nema að barnið fylgdi móður sinni í fyrstu fangabúðirnar sem hún var flutt í.

"Leitin að Sólveigu Erlu er í höndum barna Benjamíns. Ég veit að þau komust í samband við fjölskyldu fyrrum eiginmanns Veru og fengu frá henni nokkur skjöl. En þar var ekkert sem varpar ljósi á örlög Sólveigar Erlu."

Vantar úttekt á öryggis- hagsmunum Íslands

- Breytingarnar í Austur-Evrópu og öryggi Evrópu hafa verið þér hugleikin í ræðu og riti.

"Það er nú svo vítt svið að okkur myndi ekki endast þessi sumardagur til þess að gera því skil!

En það stendur upp á okkur Íslendinga nú að gera ítarlega úttekt á öryggishagsmunum íslenzka ríkisins og skilgreina þá. Síðan þarf að skilgreina hvað þarf til að tryggja þá hagsmuni.

Það er grundvallarskylda hvers ríkis að tryggja öryggi borgaranna.

Það hafa átt sér stað miklar breytingar síðasta áratuginn eða svo, en það sem ekki breyttist er að við þurfum að vinna þetta verk miðað við breyttar aðstæður.

Vissulega binda menn vonir við að náið samstarf innan Evrópu; Evrópusambandið og Nato tryggi frið í álfunni.

En árekstrar geta alltaf orðið, eins og við sáum í Júgóslavíu og enginn veit hvað kann að gerast til dæmis í Rússlandi."

En þótt þróunin í Evrópu nú megi kallast ný af nálinni, þá er hugmyndin þar um það ekki. Arnór sækir sér bók og vitnar í Kant; hann lýsti undir lok 18ndu aldar hugmyndum um Bandaríki Evrópu og meira að segja gerði hann ráð fyrir Evrópuþingi.

Þegar nú Kant er nefndur til samtalsins, er komið að þeim hluta Arnórs Hannibalssonar, sem hefur verið fyrirferðarmestur í starfsævi hans; heimspekingnum. Hann hefur verið lektor, dósent og prófessor í heimspeki við heimspekideild Háskóla Íslands. Auk heimspekinámsins í Moskvu, sem fyrr er talið, stundaði hann nám í Póllandi og Sviss og lauk doktorsprófi við Háskólann í Edinborg. Ég hef orð á því hvort þessir ólíku staðir hafi boðið upp á ólíka heimspeki.

"Heimspekin sem fræðigrein er hvarvetna sú sama; byggist á sígildum ritum. En þar fyrir utan kenndu þeir okkur sína eigin höfunda í Moskvu. Reyndar þekktu menn nú dálítið til marxisma í Edinborg.

En hinn klassíski kjarni er hvarvetna sá sami. Hitt er svo aftur hvernig við útleggjum hann; hvað við skrifum og hvernig, hverjum af hinum sígildu höfundum við hömpum og hverjum ekki."

- Eru þá tízkustraumar í heimspekinni?

"Nei. Ekki tízkustraumar, heldur mismunandi lífsviðhorf. Þetta snýst allt um manninn; er hann andleg vera eða efnaleg vera."

- Og hver er þín niðurstaða?

"Ég er á þeirri skoðun, að maðurinn sé skynsöm, andleg vera og þessi andlegi heimur sé raunverulega grunnþáttur sem er sameiginlegur öllum mönnum.

Annars væri enginn sannleikur til, heldur væri það satt, sem hentar hverjum og einum hverju sinni.

Heimspekin lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi! Það er sama hvaða spurningu þú berð upp, það er ætíð hægt að ræða hana frá heimspekilegu sjónarmiði. Það er lítið varið í heimspeki sem er sett undir mæliker.

Heimspekin kemur öllum við og við heimspekingar eigum að standa skil á okkar í skiljanlegu formi."

Hvalfjarðarsólin er ekki gengin undir

Arnór flutti í Hvalfjörðinn fyrir níu árum. Þar tók hann þátt í að stofna samtökin Sól í Hvalfirði gegn álveri í Hvalfirði. Lengi vel blöstu verksmiðjurnar á Grundartanga við sjónum Arnórs af hlaðinu á Hreggnasa. En ekki lengur.

"Ég vil hafa vítt útsýni, en græt það ekki að nágranni minn hér fyrir vestan mig hefur lokað fyrir útsýnið til álversins og járnblendisins."

- Sól í Hvalfirði reis hátt um tíma í lok 20ustu aldarinnar. Nú heyrist minna til ykkar.

"Við sömdum við umhverfisráðherra um að stofna nefnd, sem sæi um að mengun í gróðri yrði mæld reglulega. En nefndin hefur verið óvirk um nokkurn tíma og sjálf höfum við ekki bolmagn til áframhalds.

En þær mælingar sem þó tókst að framkvæma sýndu mesta flúormengun í túninu á Reynivöllum, þótt okkur hefði alltaf verið sagt að mengunin yrði mest við verksmiðjuvegginn. Og vindurinn stendur ekki aðeins út Faxaflóann eins og haldið var fram, heldur leggur hann oft hér inn voginn, eins og núna.

Einn bóndi hér í sveit stundar lífræna ræktun og þetta tvennt fer einfaldlega ekki saman.

Vissulega berum við ugg í brjósti yfir þeirri mengun sem berst yfir fjörðinn. Og nú hefur verið ákveðið að stækka álverið með samskonar þurrhreinsibúnaði."

- Er Sólin gengin undir í Hvalfirði?

"Nei, nei. Við fylgjumst áfram með því sem gerist."

Örlagastund í Eystrasaltslöndum

Drjúgur tími fer hjá Arnóri í ræðismannsstarf fyrir Litháen, en um 500 Litháar eru nú búsettir hér á landi. Þá er oft kallað eftir tungumálakunnáttu hans, þegar Pólverjar eru annars vegar, en þeir eru nú hátt í 3.000 hér á landi.

Tengsl Arnórs við Litháen ná allt aftur til námsáranna. Og hann fór sem ráðgjafi með bróður sínum, Jóni Baldvini Hannibalssyni, utanríkisráðherra, í Eystrasaltslandaferðina, sem var undanfari þess að Íslendingar riðu á vaðið með viðurkenningu á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.

"Við Vytautas Landsbergis erum gamlir vinir, skrifuðumst á áður fyrr, aðallega um fagurfræði og tónlist. 1989 var hann kosinn forseti æðsta ráðs sovétlýðveldisins Litháen, sem þá var, og ég sendi honum heillaóskaskeyti af því tilefni. Þá tókum við upp samband að nýju og töluðum meðal annars nokkrum sinnum saman í síma. Þegar leið á árið 1990 var ljóst, að Litháar stefndu að fullu sjálfstæði.

Í byrjun janúar '91 skarst í odda og Gorbatsjov sendi herlið til Vilnius. Barizt var um sjónvarpsturninn í Vilnius og 14 Litháar féllu. Þingið kom saman og búizt var við því að her Gorbatsjovs myndi ekki láta staðar numið, heldur ráðast á þinghúsið og handtaka þá sem þar voru.

Um það var rætt, hvort eitthvert erlent ríki vildi lýsa yfir stuðningi við sjálfstætt Litháen. Einn þingmannanna var Bronislovas Genzelis, gamall vinur minn og skólabróðir og höfðum við skrifazt á um gang mála. Hann lagði til að leitað yrði eftir stuðningi íslenzkra yfirvalda. Landsbergis hringdi þá í Jón Baldvin, en ég hafði látið Genzelis fá símanúmer hans. Klukkan var þrjú að nóttu þegar hann hringdi.

Daginn eftir hringdi Jón í mig og sagði: Við verðum að svara þessu kalli. Þar með var ákvörðunin um Eystrasaltslandaferðina tekin og 18. janúar komum við til Vilnius og sex íslenzkir fréttamenn með okkur. Við fórum beint í þinghúsið, sem þá var víggirt með steinsteypuklumpum.

Ekki varð af árás sovézka herliðsins; líklega vogaði Gorbatsjov ekki að leggja til atlögu við þinghúsið með ráðherra Nato-lands innanhúss.

Þegar við komum til Riga var okkur ekið á ofsahraða til þinghússins þar. Mér var tjáð eftir á, að þeir hefðu óttast fyrirsát á leiðinni.

Í Ríga var skjalatösku Jóns Baldvins stolið. Heimamenn sögðust þekkja fingraför KGB á málinu, en aðalstöðvar KGB voru í húsinu hinum megin við götuna. Í töskunni voru aðeins saklausir pappírar og snyrtidót. Skyndilega veitti svo starfsmaður hótelafgreiðslunnar því athygli að taska var allt í einu komin í eitt hólfið í fatageymslu hótelsins. Það reyndist vera taska Jóns með öllu saman!

Í Ríga brauzt út bardagi á götunni fyrir framan hótelið, þar sem við gistum, rétt eftir að við vorum farnir. Hótelið var gegnt aðalstöðvum KGB í Ríga.

Þegar við komum til Eistlands; til Tallinn, var aðsetur ríkisstjórnarinnar á Toompea-hæð, einnig girt tálmum til varnar gegn hugsanlegri skriðdrekaárás. Þegar við fórum var engin vegabréfsskoðun. Einn KGB-ofursti var á vakt, en lét okkur nánast afskiptalausa.

Dagar Sovétríkjanna voru á enda liðnir. Jeltsín var forseti æðsta ráðsins í Rússlandi og hann lýsti því yfir að ríkisstjórn Rússlands myndi ekki blanda sér í mál Eystrasaltslandanna.

Þegar Lennart Meri, sem var utanríkisráðherra Eistlands '91, kom hingað '97 sagði hann í sjónvarpsviðtali að koma okkar Íslendinganna hefði skipt sköpum fyrir Eystrasaltslöndin."

- Varstu aldrei hræddur í þessari ferð?

"Það er nú svo skrýtið, að þetta er í fyrsta skipti, sem orðið hræðsla skýtur upp kollinum í þessu sambandi.

Nei. Ég fann aldrei til hræðslu. En ég reyndi að vera við öllu búinn."

Næg verkefni framundan

Arnór Hannibalsson lætur nú af störfum við Háskóla Íslands. Hvað tekur við?

"Verkefnin eru næg.

Nú þegar næði gefst, á að koma öllu í verk, sem ekki tókst meðan mestur tími fór í störf fyrir þá stofnun, sem ég hef helgað lífskrafta mína.

Ég hef tekið til ýms handrit, sem þarf að ljúka, og síðan blasa við fleiri verk.

Nú á ég bara við sjálfan mig í þeim efnum!"

freysteinn@mbl.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.