30. september 2004 | Viðskiptablað | 1004 orð | 1 mynd

FYRIRTÆKJASTJÓRNUN Már Wolfgang Mixa

Heiðarleikinn er mests virði

Ævisaga Jack Welch, sem hann skrifaði ásamt John A. Byrne, er forvitnileg lesning um feril hans hjá GE.

 Jack Welch
Jack Welch — Reuters
Jack: Straight From the Gut Höfundur: Jack Welch með John A. Byrne "EF það var eitthvað sem ég prédikaði hvern einasta dag hjá General Electric, þá var það heiðarleiki. Það var okkar mesta virði.
Jack: Straight From the Gut

Höfundur: Jack Welch með John A. Byrne

"EF það var eitthvað sem ég prédikaði hvern einasta dag hjá General Electric, þá var það heiðarleiki. Það var okkar mesta virði." (Jack Welch)

Í lok ársins 1980 tók Jack Welch við stjórn fyrirtækisins General Electric (GE), en margir töldu að hann ætti lítið erindi þangað. Hann var þó þekktur fyrir drifkraft og dugnað gagnvart þeim verkefnum sem hann hafði unnið að innan fyrirtækisins í rúma tvo áratugi og oftast nær skiluðu þau verkefni betri árangri en flestir gerðu ráð fyrir. Aðrir þættir í fari hans höfðu valdið því að hann þætti ólíklegur til að ná frama sem forstjóri. Óþolinmæði hans gagnvart skrifræði var vel þekkt, en GE lagði að mörgu leyti áherslu á markvissan stofnanarekstur sem þótti stuðla að almennilegri stjórn á starfsemi þess, sem var oft flókin. Hann hafði ýmsa bandamenn sér við hlið en margir litu hann hornauga vegna áhugaleysis hans á því að falla inn í fjöldann varðandi framkomu og klæðaburð. Í mörg ár hafði hann komið sér hjá því að flytjast til höfuðstöðva fyrirtækisins og var þess í stað á sínum gamla vinnustað þar sem hann gat haldið nánu samstarfi við sína undirmenn. Þegar hann tók við GE var það tíunda stærsta fyrirtæki heims, metið út frá markaðsvirði. Lánshæfismat þess var AAA, sem er hæsta lánshæfismat sem hægt er að veita. Hann entist lengur en nokkurn mann óraði fyrir, eða tuttugu ár. Undir hans stjórn margfaldaðist virði fyrirtækisins og er í dag verðmætasta fyrirtæki heims.

Nokkru áður en Welch hætti sem forstjóri hjá GE hóf hann að skrifa ævisögu sína, Jack: Straight From the Gut. Bókin einblínir á þætti sem tengjast störfum hans hjá GE. Bókin er skrifuð á lifandi hátt og fléttar vel saman stjórnunarstíl Welch og persónulegt líf hans. Hann bendir á að fólk læri oft meira af mistökum en frægðarförum og slík reynsla hafi mótað hann í gegnum tíðina. Hann líkir fyrirtækjarekstri við fínan veitingastað; þegar maður kíkir inn í eldhúsið lítur maturinn aldrei eins vel út og þegar að hann kemur framreiddur á borð til manns. Fyrirtækjarekstri fylgir óreiða sem Welch segist vona að lestur bókarinnar hjálpi eitthvað til við að bæta þá erfiðleika sem óhjákvæmilega fylgi rekstri fyrirtækja. Hann hætti störfum aðeins nokkrum dögum eftir útgáfu bókarinnar. Tímasetningin var ótrúleg, eða í byrjun septembermánaðar árið 2001.

Bókin hefst á uppeldisárum Welch. Hann lýsir áhrifum móður sinnar á áhugaverðan hátt og hvernig hún styrkti það sjálfstraust sem var honum nauðsynlegt til þess árangurs sem hann síðar náði. Eftirminnilegt dæmi er þegar hann fleygir íshokkíkylfu sinni eftir að hafa tapað leik í framlengingu. Móðir hans rýkur inn í búningsherbergið, tekur í treyju hans og öskrar á hann að ef hann kunni ekki að tapa komi hann aldrei til með að læra að vinna. Hún sá stöðugt til þess að Welch væri ávallt framúrskarandi í því sem hann tók sér fyrir hendur, bæði með nauðsynlegri hörku samtímis því að sýna honum stöðuga ást og hlýju.

Lýsingar á upphafsárum Welch hjá GE eru afar skemmtilegar. Hann var ákafur í því að afreka hluti, svo ákafur reyndar að rannsóknarstofa hans sprakk með svo miklum látum að þakið fór af húsinu. Til allrar hamingju slasaðist enginn og Welch mætti góðum skilningi yfirmanna sinna. Smám saman fór hann að færa sig frá sérgrein sinni, plastiðnaði, yfir í stærri og viðameiri verkefni. Að lokum var hann verðlaunaður með því að fá forstjórastöðu fyrirtækisins, eftir mikla og harða baráttu við aðra samstarfsmenn sína, sem flestir hverjir hættu næstu mánuði eftir. Welch kom með þá stefnu, undir áhrifum verka Peter Drucker, að þær deildir sem voru ekki númer eitt eða tvö á sínu sviði yrðu lagaðar, seldar eða hreinlega lagðar niður. Einnig voru þeir 10% starfsmanna sem skiluðu minnstum arði til rekstursins reknir í lok hvers árs. Innan fimm ára fækkaði starfsmönnum fyrirtækisins um meira en 100 þúsund. Fjórðungur þeirra vann í deildum sem voru seldar, afgangurinn missti vinnu sína. Fljótlega fékk Welch viðurnefnið Neutron (nifteind) Jack. Hann breytti samhliða þessu einnig yfirbragði fyrirtækisins. Í stað þess að vera eins og skriðdreki sem ryðst áfram líkti hann fyrirtækinu við lítinn bát sem gæti brugðist fljótt við nýjum aðstæðum. Í því sambandi lagði Welch áherslu á að andi fyrirtækisins væri svipaður anda minni fyrirtækja en gæti jafnframt nýtt sér stærð sína á ákveðnum sviðum (sem var meðal annars grunnur að velgengni GE Financial Services sem í dag veita fyrirtækinu tæplega helming tekna þess). Skrifræði var minnkað eins og mögulegt var og einblínt var á einn hlut; árangur.

Með hörðum aga og áherslu á því að halda besta fólki sínu jókst hagnaður GE, jafnt og þétt. Welch lýsir með lifandi hætti stærstu yfirtökum GE, sama hvort þær heppnuðust vel eða illa og dregur hann lítið úr mistökum sínum þegar illa gekk. Þó að fram komi hversu víðtæk áhrif yfirtökurnar höfðu, sérstaklega þær sem skiluðu árangri, kemur þó sú skoðun hans fram að góðir starfsmenn séu mikilvægari en góð stefna, enda komi hún að mörgu leyti af sjálfu sér með gott starfsfólk innanborðs.

Fjölskyldulíf Welch einkenndist af áhugaleysi hans. Það er ótrúleg lesning þegar að hann fór með síðari konu sína í sveit, en þar stóð til að eyða saman rómantískri helgi. Á laugardagsmorgni ætlaði hann sér að fara að spila golf þegar hún stöðvaði hann í dyrunum. Hann varð forviða, enda hafði hann öll sín giftu ár unnið mikið í vikunni og farið síðan laugardagsmorgna að spila golf með vinum sínum.

Þó að bókin sé að mestu leyti áhugaverð er hún ekki gallalaus. Síðari hluta bókarinnar hefði mátt stytta verulega en í þeim hluta fjallar Welch um nýafstaðin mál frá eigin sjónarmiði án þess að lesandinn fái nokkra innsýn í hugsanleg sjónarmið annarra. Auk þess virðist hann skipta sér meira af sumum málum en eðlilegt mætti telja af forstjóra GE. Á betri nótum eru stjórnunarhættir Welch samandregnir í lok bókarinnar, þó svo að tilgangur bókarinnar sé augljóslega ekki að vera einhverskonar kennslurit í þeim efnum. Þrátt fyrir ofangreinda galla er Straight From the Gut forvitnileg lesning um ótrúlegan feril Jack Welch og stjórnun hans hjá GE.

mixa@sph.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.