Samráð kynnt. Frá vinstri: Ögmundur Jónasson, Kristján Möller, Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón Arnar Kristjánsson.
Samráð kynnt. Frá vinstri: Ögmundur Jónasson, Kristján Möller, Steingrímur J. Sigfússon, Össur Skarphéðinsson og Guðjón Arnar Kristjánsson. — Morgunblaðið/Þorkell
FORYSTUMENN stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Frjálslynda flokksins, kynntu á blaðamannafundi í gærmorgun, þá ákvörðun sína að koma á skipulögðu samráði milli þingflokka sinna í þingstarfinu...

FORYSTUMENN stjórnarandstöðuflokkanna þriggja, Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Frjálslynda flokksins, kynntu á blaðamannafundi í gærmorgun, þá ákvörðun sína að koma á skipulögðu samráði milli þingflokka sinna í þingstarfinu í vetur. Er það gert til að gera starf stjórnarandstöðunnar markvissara að því er fram kom á fundinum. Áhersla var þó lögð á að flokkarnir þrír hefðu mismunandi áherslur í ýmsum málum, en í öðrum málum væru þeir sammála, til dæmis í velferðarmálum.

Fyrsta þingmálið í þessu samstarfið verður þingsályktunartillaga þar sem m.a. verður lagt til að Ísland verði tekið af lista hinna staðföstu þjóða í Íraksstríðinu.

Sameinaðir til leiks

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði m.a. í samtali við Morgunblaðið að þegar stjórnarandstaðan hefði unnið saman á undanförnum árum hefði það skilað árangri. "Við erum að draga lærdóm af því," útskýrði hann. "Við ætlum því að hafa reglulegt samráð, að minnsta kosti mánaðarlega, þar sem við förum yfir málin og stillum saman strengi okkar."

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, tekur í sama streng. Reynslan af samstarfi stjórnarandstöðunnar í fjölmiðlamálinu sýni að hún geti verið mjög öflug. "Þetta er ekki ávísun á annað en það að við ætlum að reyna að standa undir trúnaði kjósenda með því að vinna saman, gegn ríkisstjórninni, þegar það á við. Á meðan það kvarnast úr ríkisstjórninni og hún er jafnvel að ýta frá sér stuðningsmönnum erum við að koma miklu sameinaðri og sterkari en áður til leiks."

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, tekur undir orð Ögmundar og Össurar. Hann segir, eins og þeir, að það sé afar mikilvægt fyrir stjórnarandstöðuna að hafa gott og náið samráð.