4. október 2004 | Innlendar fréttir | 348 orð | 1 mynd

Skilur nokkrar kindur eftir "til að halda við sálinni"

Andrés Jónasson, Hjörleifur Högnason og Sigurjón Jónasson á Lokinhömrum, lengst t.h. á myndinni, horfa til fjalla í Arnarfirði í síðustu smöluninni, sem fram fór um helgina með aðstoð vina og ættingja Sigurjóns.
Andrés Jónasson, Hjörleifur Högnason og Sigurjón Jónasson á Lokinhömrum, lengst t.h. á myndinni, horfa til fjalla í Arnarfirði í síðustu smöluninni, sem fram fór um helgina með aðstoð vina og ættingja Sigurjóns. — Morgunblaðið/RAX
ERFITT var fyrir Sigurjón Jónasson, bónda á Lokinhömrum í Arnarfirði, að horfa á eftir fénu sínu þegar því var smalað saman í hinsta sinn um helgina.
ERFITT var fyrir Sigurjón Jónasson, bónda á Lokinhömrum í Arnarfirði, að horfa á eftir fénu sínu þegar því var smalað saman í hinsta sinn um helgina. Sigurjón er síðasti ábúandinn í Lokinhamradal og hefur nú endanlega hætt búskap, eftir að hafa flutt á dvalarheimilið Tjörn á Þingeyri fyrir fáum árum en dvalið á Lokinhömrum yfir sumartímann.

"Ætli sé nokkuð hægt að tala um búskap úr þessu," segir Sigurjón í samtali við Morgunblaðið. Hann ætlar að halda eftir sex eða sjö kindum "til að halda við sálinni," eins og hann orðar það. Um 60 kindur fóru til slátrunar en þegar mest lét voru 270 kindur á Lokinhömrum.

"Fyrir mér hefur þetta verið allt lífið. Mér þótti vænt um kindurnar og hef haft mikið yndi af því að vera í kringum þær. Ég kvíði nú vorinu að vera ekki vel hress og fá ekki að taka á móti nýjum lömbum. Þetta er svo skemmtilegur tími þegar skepnurnar eru að bera," segir Sigurjón, sem búið hefur á Lokinhömrum alla sína ævi. Rúmlega þrítugur að aldri tók hann við búinu árið 1957, þegar faðir hans lést, og bjó á bænum með móður sinni. Við fráfall hennar bjó hann lengi einn á bænum og hafði til margra ára aðeins einn nágranna í Lokinhamradal, Sigríði Ragnarsdóttur á Hrafnabjörgum.

Hvort hann eigi eftir að koma aftur að Lokinhömrum, segist Sigurjón eiga erfitt með að svara. Það verði heilsan næsta sumar að leiða í ljós. Hugurinn verði hins vegar áfram á staðnum. Hann fékk góða aðstoð við smölunina um helgina en í gegnum árin hefur hann haft hjá sér marga vinnumenn, sem ávallt hafa verið reiðubúnir að veita hjálparhönd við sauðburð eða smölun og leita um leið í kyrrð sveitarinnar. Sökum handleggsbrots, sem Sigurjón hlaut í byltu á dögunum, gat hann lítið beitt sér. Vildi hann koma á framfæri innilegum þökkum til þessa fólks og allra þeirra sem aðstoðað hafa hann við búskapinn á seinni árum. "Hjálpin hefur verið mér ómetanleg."

Heimildarmynd sýnd í Þýskalandi

Sigurður Grímsson kvikmyndagerðarmaður hefur gert heimildarmynd um Sigurjón, Síðasti bóndinn í dalnum, sem var frumsýnd fyrir tveimur árum. Myndin verður sýnd í Þýskalandi í desember nk.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.