Þórshamarsmerki Eimskips.
Þórshamarsmerki Eimskips. — Morgunblaðið/Ásdís
Í AÐSENDRI grein á vefsíðu ísraelska dagblaðsins israelinsider greinir Arnold Eisen hvernig hann hafi fengið að kenna á andúð á gyðingum þegar hann sótti Ísland heim í haust en greinin heitir "Gyðingahatur í landi elds og ísa".

Í AÐSENDRI grein á vefsíðu ísraelska dagblaðsins israelinsider greinir Arnold Eisen hvernig hann hafi fengið að kenna á andúð á gyðingum þegar hann sótti Ísland heim í haust en greinin heitir "Gyðingahatur í landi elds og ísa".

Arnold, sem býr í Bandaríkjunum, greinir frá því að honum og kærustu hans hafi verið boðið til Svíþjóðar og hann hafi notað tækifærið og keypt ferð með Icelandair þannig að þau gætu dvalið á Íslandi í vikutíma.

Eisen og kærasta hans, Sara, fóru m.a. niður í miðbæ og lögðu bílaleigubíl sínum fyrir framan hvíta byggingu þar sem risastór hakakross blasti allt í einu við þeim. "Ég gat ekki trúað þessu. En samt var þetta þarna. Ég get einfaldlega ekki lýst þeirri tilfinningu sem kom yfir mig og Söru."

Eisen segist hafa spurt Íslendinga hvað stæði undir hakakrossinum og fengið að vita að þar stæði Eimskipafélag Íslands og að merki þess væri frá því fyrir heimsstyrjöldina síðari.

Skömmu síðar rákust Eisen og kærasta hans á hóp skólabarna á aldrinum 12-15 ára sem voru í skoðunarferð líkt og þau. "Ég stöðvaði bifreiðina og fór út til þess að taka mynd og sá einn drengjanna grípa um öxl félaga síns til þess að ná athygli hans og benda á höfuð sér og síðan á mig, segjandi eitthvað um kollhúfu gyðinga sem ég var með á höfðinu. Og þá var áhugi félagans vakinn, hann smellti saman hælunum og gerði Heil Hitlers-kveðju. Margir af krökkunum fóru að hlæja," skrifar Eisen.

"Það sem er erfiðast að sætta sig við er að við, Bandaríkin, erum verndarar þessa lands. Maður hefði haldið að 60 ár væru yfirdrifið nógu langur tími til þess að breyta merki sem kyndir undir og upphefur þá andúð á gyðingum sem við upplifðum í þessu landi elds og ísa."

Nokkur viðbrögð hafa verið við grein Eisens á vefsíðu israelinsider og þar er m.a. bent á að hakakrossmerki séu algeng víða um heim og að merki Eimskipafélagsins sé augljóslega ekki sams konar og hakakross nasista.