Líkar vel Kári Gíslason er langt að kominn en er ánægður með að búa á Ísafirði. Hann er byrjaður á bók um Vestfirði.
Líkar vel Kári Gíslason er langt að kominn en er ánægður með að búa á Ísafirði. Hann er byrjaður á bók um Vestfirði.
Ísafjörður | "Ísafjörður á fátt sameiginlegt með borginni Brisbane í Ástralíu," segir Kári Gíslason, enskukennari við Menntaskólann á Ísafirði.

Ísafjörður | "Ísafjörður á fátt sameiginlegt með borginni Brisbane í Ástralíu," segir Kári Gíslason, enskukennari við Menntaskólann á Ísafirði. Hann hefur búið í Brisbane frá því að hann var 14 ára gamall og segir varla hægt að hugsa sér tvo ólíkari staði. Annars vegar sé um að ræða stórborg með 1,5 milljónir íbúa sem sé í hitabeltinu í Norður-Ástralíu og hins vegar lítinn kaupstað með um 3.500 íbúa langt norður í Atlantshafi.

En hver er þessi Ástrali með íslenska nafnið? "Móðir mín, Susan Reid, er ensk að uppruna og kom til Íslands árið 1970 til að vinna sem enskur ritari hjá fyrirtæki í Reykjavík. Á Íslandi kynntist hún föður mínum, Gísla Ólafssyni, og ég fæddist árið 1972. Þegar ég var tíu ára fluttum við til Englands og fjórum árum seinna fluttum við til Ástralíu þar sem móðurafi minn var búsettur. Hann hafði barist fyrir föðurlandið í seinna stríðinu og eins og svo margir aðrir sem það gerðu, þá flutti hann til Ástralíu að stríðinu loknu. Fjölskyldan mín settist að í Brisbane og þar hef ég að mestu verið búsettur síðan."

Lögfræðingur með doktorspróf í Íslendingasögunum

Í vetur kennir Kári nemendum Menntaskólans á Ísafirði ensku og segir það ganga mjög vel, nemendurnir séu frábærir og duglegir að læra. Sjálfur er hann menntaður lögfræðingur og með doktorspróf í bókmenntafræði frá University of Queensland í Brisbane. Í doktorsritgerð sinni tók hann Íslendingasögurnar fyrir og segir að áhuginn á þeim hafi kviknað þegar hann kynntist þeim í háskólanum.

"Áhugi minn á Íslendingasögunum er auðvitað tilkominn vegna róta minna á Íslandi og í ritgerðinni fjallaði ég um höfunda Íslendingasagnanna og hvað hægt er að lesa úr sögunum um þá sjálfa. Árið 1999 endurnýjaði ég kynnin við land og þjóð þegar ég kom hingað til að vinna að rannsóknum á Árnastofnun undir handleiðslu Vésteins Ólasonar forstöðumanns og á Stofnun Sigurðar Nordals þar sem ég naut aðstoðar Úlfars Bragasonar. Í framhaldi af því fór ég að kenna enskt lagamál í Háskóla Íslands og síðan hjá Endurmenntunarstofnun Háskólans," segir Kári.

Á Ísafirði vegna auglýsingar á mbl.is

Árið 2001 hélt Kári aftur heim til Ástralíu og lauk við doktorsritgerðina en ræturnar eru sterkar og hugurinn leitaði til Íslands. "Einhverju sinni þegar ég var að skoða Morgunblaðið á vefnum, sá ég auglýsta stöðu enskukennara við Menntaskólann á Ísafirði og fannst það mjög spennandi möguleiki og ákvað að sækja um."

Sex vikur eru síðan Kári kom til Ísafjarðar og segist hann kunna afskaplega vel við sig þar og ekki síður eiginkona hans, Olanda, sem nú er með í för. "Hún er ferðamálafræðingur að mennt en hefur ekki ennþá fengið vinnu hérna. Núna er hún að læra íslensku og vonandi fær hún eitthvað að gera þegar hún hefur náð tökum á málinu. Við erum bæði mjög ánægð á Ísafirði og hlökkum til að ferðast um Vestfirði enda verður gaman að fá tækifæri til að skoða söguslóðir Gísla sögu Súrssonar, Fóstbræðrasögu og Hávarðs sögu Ísfirðings."

Tónlistarmaður og rithöfundur

Tónlist hefur alla tíð leikið stórt hlutverk í lífi Kára og á námsárum sínum var hann á kafi í tónlist og um tíma starfaði hann sem atvinnumaður á því sviði í Brisbane. "Í ein fimm ár kom ég 2-3 sinnum í viku fram í klúbbum og nokkrum sinnum í útvarpi. Ég er búinn að gefa út tvo geisladiska sem innihalda nokkurs konar þjóðlagatónlist með rætur í borgum og þéttbýli, ekki ósvipað lögum Leonards Cohen. Núna seinni árin hefur hins vegar minni tími gefist til að sinna tónlistinni en þeim mun meiri farið í ritstörf."

Hann hefur nýlokið við að skrifa bók um ferð sína til Íslands árið 1999 og segir þar frá því hvernig hann tengdist aftur hinni íslensku fjölskyldu sinni og upplifði á ný land, þjóð og menningu. Sú bók er nú í höndum útgefanda erlendis en Kári er þegar byrjaður á nýrri bók þar sem hann fjallar um Vestfirði og þá sérstaklega Ísafjörð. "Mér finnst áhugavert að skoða hvernig Ísafjörður er í dag og breytingarnar þar síðustu áratugi, t.d. eftir að kvótakerfið var tekið upp og eins með tilliti til byggðaþróunar í landinu þar sem fólksflutningar hafa nánast verið á einn veg, þ.e. á höfuðborgarsvæðið. Ég ætla að reyna að vinna þessa bók með kennarastarfinu í vetur og hver veit nema við ílengjumst hér eitthvað áfram ef aðstæður leyfa," segir Kári Gíslason.