— Morgunblaðið/Golli
SÍMINN og aðilar í samstarfi við hann hafa tryggt sér yfirráð meirihluta hlutafjár í Íslenzka sjónvarpsfélaginu, sem rekur Skjá einn.

SÍMINN og aðilar í samstarfi við hann hafa tryggt sér yfirráð meirihluta hlutafjár í Íslenzka sjónvarpsfélaginu, sem rekur Skjá einn. Síminn keypti í september eignarhaldsfélagið Fjörni, sem átti 26,2% í fyrirtækinu, auk útsendingarrétts á ensku knattspyrnunni hér á landi. Þá hefur fyrirtækið tryggt sér samstarf við Fjölmiðlafélagið, félag undir forystu Einars Sigurðssonar, sem á 11,7% í Íslenzka sjónvarpsfélaginu. Undanfarna daga hefur svo Íslandsbanki, viðskiptabanki Símans, keypt hlutabréf af ýmsum smærri hluthöfum, en fyrir átti Íslandsbanki sjálfur 4,2% í Íslenzka sjónvarpsfélaginu. Samtals ráða Síminn og Íslandsbanki nú yfir rúmlega 50% hlutabréfa í Íslenzka sjónvarpsfélaginu, beint eða óbeint.

Jón Ásgeir vill kaupa

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kom það fram í hluthafahópi Íslenzka sjónvarpsfélagsins fyrir síðustu helgi að Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, sem á um þriðjungshlut í Norðurljósum, hefði áhuga á að kaupa 46% hlut í félaginu, sem er í eigu ýmissa félaga undir forystu Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona og Margeirs Péturssonar, en auk þeirra eiga ýmsir smærri hluthafar í þessum félögum. Þessir hluthafar hafa viljað losna út úr rekstri Skjás eins og hafa talið að sá áhugi á bréfunum, sem lá fyrir, styrkti a.m.k. stöðu þeirra í viðræðum við Símann og aðra hluthafa um að kaupa hlut þeirra í félaginu, en Síminn hafði leitað eftir slíku. Það liggur hins vegar ekki fyrir að þessir aðilar hafi verið reiðubúnir að selja Jóni Ásgeiri eða félögum sem honum tengjast bréfin.

Samkvæmt heimildum blaðsins voru viðbrögð Símans, er ekki náðist saman um verð við þremenningana, þau að tryggja sér með samstarfi við aðra yfirráð yfir meirihluta hlutafjár og skapa sér þannig sterkari stöðu til að semja við Jón, Sigurð Gísla og Margeir, auk þess að koma í veg fyrir að Norðurljós og Baugur gætu náð fótfestu í félaginu.

Aðalfundur í næstu viku

Fyrir Símanum vakir meðal annars, samkvæmt heimildum blaðsins, að endurskipuleggja eignarhald á Íslenzka sjónvarpsfélaginu áður en til þess kemur að fá að því fleiri fjárfesta til að fjármagna ný verkefni á borð við boðaðar útsendingar á stafrænu kerfi Símans. Í gær fóru fram viðræður milli Símans og þeirra Pálmasona um áframhaldandi þátttöku þeirra í rekstri Skjás eins, en niðurstaða liggur ekki fyrir.

Aðalfundur verður haldinn í Íslenzka sjónvarpsfélaginu í næstu viku og mun þá væntanlega skýrast hvernig eignarhaldi félagsins verður háttað.