Tekur af skarið Skarphéðinn Berg Steinarsson segir að ákvarðanataka sé einn helsti styrkleiki sinn.
Tekur af skarið Skarphéðinn Berg Steinarsson segir að ákvarðanataka sé einn helsti styrkleiki sinn. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Nafn Skarphéðins Berg Steinarssonar hjá Baugi heyrist æ oftar nefnt í viðskiptalífinu. Þóroddur Bjarnason birtir hér svipmynd af manninum.

Skarphéðinn Berg Steinarsson, framkvæmdastjóri innlendra fjárfestinga Baugs Group, er vel liðinn af samstarfsmönnum og viðskiptafélögum enda fer hann ekki í manngreinarálit, hann hefur jafnaðargeð og létt og gott skap. Það þarf mikið til að æsa manninn upp, segja þeir sem þekkja hann. Skarphéðinn sjálfur tekur undir það. "Já, ég held að það sé alveg rétt. Ég hef alltaf verið þannig. Það þarf talsvert mikið til að ég verði illur og gerist á einhverra ára fresti, en þegar það gerist þá er líklega full ástæða til," segir Skarphéðinn og hlær við.

Vinir hans og samstarfsmenn segja hann mörgum kostum búinn. Hann sé mjög góður í að sjá heildarmyndina og sé einnig mjög einbeittur. "Hann gefur sér alltaf tíma og sinnir öllum verkefnum vel," segir einn samstarfsmaður.

"Þetta er bara fínn strákur, svona "ekkert vesen"-maður," segir annar. Hann er sagður leiðandi í ákvörðunum, kjarkmikill, afskaplega heilsteyptur persónuleiki, trygglyndur og áreiðanlegur. "Hann er laus við allt tildur og prjál. Hann metur menn að verðleikum og samgleðst fólki en öfundar ekki."

Maður sem starfaði með Skarphéðni í stjórnsýslunni sagði að það væri að mörgu leyti eftirsjá að mönnum eins og honum af þeim vettvangi. "Hann býr að reynslu sinni hjá ríkinu, það er ekki nokkur vafi á því. Það ríkir mikil samkeppni innan stjórnsýslunnar og sú skólun sem menn fá þar er mjög verðmæt úti í atvinnulífinu. Það er hlutverk embættismanna sem starfa t.d. náið með ráðherrum að vera í sífellu að undirbúa ákvarðanatökur."

Skarphéðinn er sammála því. Hann segir að ferill sinn í opinbera geiranum hafi verið langur og góður skóli. "Maður lærði bæði að vinna með fólki og eins að takast á við margþætt viðfangsefni með marga fleti. Það er reynsla sem hefur gagnast mér mjög vel í því sem ég er að gera í dag."

Í einkavæðingu

Skarphéðinn er 41 árs gamall. Hann lauk námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árið 1987, starfaði við Fjármála- og hagsýslustofnun (sem sameinaðist síðar fjármálaráðuneytinu) á árunum 1987-1989 og stundaði MBA-nám og framhaldsnám í stjórnun og stefnumörkun í Bandaríkjunum árin 1989-1991. Þegar hann kom heim frá Bandaríkjunum starfaði hann í fjármálaráðuneytinu 1991-1998 og síðan í forsætisráðuneytinu 1998-2002. Megnið af tíma hans þar fór í verkefni vegna einkavæðingar, en Skarphéðinn var starfsmaður einkavæðingarnefndar.

En lá ekki beint við eftir MBA- nám í Bandaríkjunum að fara til starfa í einkageiranum?

"Jú, nám mitt miðaði að því að fara að starfa í einkageiranum en atvinnuástand var þannig á þessum tíma að það voru ekki mörg tækifæri. Mér bauðst að koma aftur í fjármálaráðuneytið og ég sló til enda hafði farið vel um mig þar. Svo þegar mér fannst ég hafa verið nógu lengi í opinbera geiranum og vildi prófa hitt þá gerði ég það."

Samstarfsfélagar og vinir tala um að þú sért kjarkmikill í ákvarðanatökum, og reynslan úr opinbera geiranum spili þar inn í?

"Jú, ákvarðanatökur í opinbera geiranum eru oft flóknar að því leyti að þær eru meira heldur en bara fjárhagslegar. Maður þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem þarf ekki að gera í viðskiptalífinu.

Þá vandist ég því snemma í gegnum félagslíf í skóla og starf í skátunum að taka af skarið og það hefur gagnast mér mjög vel. Það þarf einhver að taka ákvarðanirnar og fyrir mér hefur það aldrei verið neitt stórmál. Þar liggur minn styrkleiki kannski öðru fremur. Það er miklu betra að taka af skarið og taka ákvörðun en að láta málið liggja.

Það er eitt af því sem maður lærði líka af að umgangast stjórnmálamenn að þeir voru óragir við að taka ákvarðanir."

Stjórnarmaður Íslands

Einn viðmælandi Morgunblaðsins kallaði Skarphéðin stjórnarmann Íslands. Skarphéðinn skellir upp úr. "Já, einhvern veginn felst starf mitt í því að koma að stjórnum fyrirtækja og þá þeirra sem Baugur er stór hluthafi í. Ég lét einhvern tíma prenta út úr hlutafélagaskrá og þá kom í ljós að ég sat í yfir 20 stjórnum."

Skarphéðinn segir aðspurður að stjórnarsetan sé vissulega tímafrek en starfsemi Baugs snúist um að eiga aðild að fyrirtækjum í rekstri. "Maður er mikið á fundum og í símanum. Þetta er lifandi og skemmtilegt starf og það er nánast alltaf gaman í vinnunni."

Skarphéðinn er kvæntur Sigríði Jóhannesdóttur og eiga þau börnin Steinar Atla, Ingu og Tryggva. Áhugamál Skarphéðins snúa aðallega að stangaveiði, sem hann stundar á sumrin og samveru með fjölskyldunni.

tobj@mbl.is