Framkvæmdastjórinn Jón Þór Sturluson hagfræðingur er nýráðinn framkvæmdastjóri Rannsóknaseturs verslunarinnar.
Framkvæmdastjórinn Jón Þór Sturluson hagfræðingur er nýráðinn framkvæmdastjóri Rannsóknaseturs verslunarinnar. — Morgunblaðið/Kristinn
VALGERÐUR Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði sl. föstudag samstarfssamning við Rannsóknasetur verslunarinnar í Árbæjarsafni.

VALGERÐUR Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði sl. föstudag samstarfssamning við Rannsóknasetur verslunarinnar í Árbæjarsafni. Samningsaðilar auk ráðuneytisins eru Samtök verslunar og þjónustu, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og verslunarfyrirtæki í landinu. Pokasjóður verslunarinnar styrkir jafnframt verkefnið.

Í tilkynningu frá Rannsóknasetrinu kemur fram að tilgangur þess sé að afla hagnýtra upplýsinga um þróun verslunar í landinu, sem fyrirtækin þurfa á að halda, svo og stofnanir og samtök sem þjóna atvinnulífinu. "Einnig verða gerðar áætlanir um framtíðarhorfur í starfsgreininni, stundaðar rannsóknir og gerðar úttektir. Auk þess mun Rannsóknasetrið hafa umsjón með kennslu á háskólastigi í fögum sem tengjast rannsóknarsviði þess, en engin slík kennsla er í boði hérlendis í dag," segir þar.

Rannsóknasetrið verður starfrækt við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Í stjórn eru Brynjar Steinarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samkaupa hf., formaður, Atli Freyr Guðmundsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Emil B. Karlsson hjá Samtökum verslunar og þjónustu og Magnús Árni Magnússon, aðstoðarrektor Viðskiptaháskólans á Bifröst.