Eignarhaldið í Íslandsbanka hefur á undanförnum dögum tekið á sig skýrari mynd en verið hefur. Stórir hluthafar segja að komin sé kjölfesta í bankann, sem þeir telja að hafi skort til þessa. Staða forstjórans hefur styrkst. Grétar Júníus Guðmundsson kannaði hvað hefur verið að gerast í málefnum bankans og hvað talið er líklegt að taki við.

Miklar hræringar hafa verið í kringum Íslandsbanka að undanförnu. Ekki eru liðnar tvær vikur frá því Straumur fjárfestingarbanki eignaðist virkan eignarhlut í bankanum með kaupum á 14,4% hlut af Landsbankanum, Burðarási og Landsbanka Luxembourg. Í fyrradag keyptu svo fjögur félög, sem öll áttu hlut í Íslandsbanka, 2,0% hlut Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) í Íslandsbanka, og á sama tíma keypti Straumur jafnstóran hlut af sjóðnum. Það fréttnæma við þessi viðskipti er í fyrsta lagi það að hlutur LV í Íslandsbanka hefur minnkað úr 6,77% í 2,77%. Sjóðurinn, sem lengi hefur verið einn af stærstu hluthöfunum í Íslandsbanka, á fulltrúa í bankaráðinu á grundvelli eignarhlutarins fyrir viðskiptin í fyrradag, en þar situr nú Víglundur Þorsteinsson fyrir hönd sjóðsins. Að öllum líkindum mun LV hins vegar ekki eiga fulltrúa í bankaráðinu eftir hluthafafund sem haldinn verður innan fjögurra vikna.

Hin stóru tíðindin við viðskiptin í fyrradag eru þau að í þeim komu fjórir stórir hluthafar í Íslandsbanka í fyrsta skipti fram í sameiningu, hluthafar sem hafa nú yfir að ráða alls um 30% hlut í bankanum. Þeir sem fara fyrir félögunum fjórum sem keyptu hlut LV eru Einar Sveinsson, stjórnarformaður Íslandsbanka, Karl Wernersson, stjórnarmaður, Jón Snorrason, varaformaður bankaráðsins, og Steinunn Jónsdóttir, dóttir Jóns Helga Guðmundssonar í Byko.

Aðdragandinn að kaupum félaganna fjögurra og Straums á 4,0% hlut LV í Íslandsbanka var sá að þau Einar, Karl, Jón og Steinunn höfðu samband við stjórn sjóðsins og óskuðu eftir að fá að kaupa 2,0% hlut hans í Íslandsbanka. Sjóðurinn kannaði þá hvort aðrir vildu kaupa og varð niðurstaðan að Straumur vildi einnig kaupa 2,0% á sama verði og fjórmenningarnir, 12,20, sem var 5% yfir lokaverði dagsins í Kauphöllinni.

Valdastöður í samfélaginu

Samkvæmt heimildum blaðamanns skrifuðu fjórmenningarnir bréf til stjórnar LV þar sem ósk þeirra um kaup var skýrð. Í bréfinu var vísað til þess að nauðsynlegt væri að mynda kjölfestu í Íslandsbanka og með því að samþykkja tilboðið gæti það náðst fram. Þá segir í bréfinu að lífeyrissjóðir hér á landi og erlendis hafi verið að setja sér reglur sem lúta að því að draga úr beinum afskiptum af þeim félögum sem þeir eiga beinan hlut í. Enda sé það ekki markmið lífeyrissjóða að veita einstaklingum, sem eru fulltrúar sjóðanna, valdastöður í samfélaginu.

Augljóslega eru fjórmenningarnir með þessum orðum að vísa til Víglundar Þorsteinssonar, sem hefur verið valdamikill innan bankaráðs Íslandsbanka í langan tíma.

Þorgeir Eyjólfsson, framkvæmdastjóri LV, sagði í gær að það hefði verið full samstaða í stjórn sjóðsins að selja allt að 4% hlut í Íslandsbanka.

Einar Sveinsson segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji að hópurinn geti ásamt Straumi myndað þá kjölfestu í bankanum sem nauðsynleg sé. Þetta sé það sem í raun og veru hafi skort hjá bankanum til þessa. Nú hafi Íslandsbanki fengið það sem hann þurfi á að halda, stöðugleika og styrka og samhenta forystu. Staða forstjórans, Bjarna Ármannssonar, muni styrkjast enn frekar við þessar breytingar.

Karl Wernersson tekur í svipaðan streng og segir að eignarhaldið í Íslandsbanka sé nú orðið líkt því sem er til að mynda í KB banka. Sá banki sé í dreifðri eign en þó með kjölfestufjárfesta, sem séu ólíkir aðilar er komið hafi sér saman um að mynda kjölfestu. Þetta hafi skort á í Íslandsbanka sem hafi leitt til togstreitu sem hafi snúist meira um völd en um stefnu.

Meiri sátt um stefnuna

Deildar meiningar eru um það hve mikil samstaða hefur verið innan bankaráðs Íslandsbanka um stefnu bankans. Eftir því sem næst verður komist þykir ýmsum að trúnaður og traust milli aðila hafi ekki verið mikið, sérstaklega ekki á milli sumra núverandi bankaráðsmanna og Bjarna Ármannssonar, forstjóra. Meðal þessara bankaráðsmanna hefur (samkvæmt heimildum) verið Víglundur Þorsteinsson.

Þeir Einar Sveinsson og Karl Wernersson segja að ekki hafi verið ágreiningur um stefnu og framtíðarsýn bankans innan bankaráðsins.

Talið er líklegt að þeir sem nú hafa í sameiningu eignast um 30% hlut í Íslandsbanka séu sáttari við þá stefnu sem fylgt hefur verið en þeir sem eru á útleið úr bankaráðinu. Fyrir liggur að boðað verður til hluthafafundar í Íslandsbanka innan fjögurra vikna að því er fram kom í viðtali við Einar Sveinsson í Morgunblaðinu í gær. Breytingar verða þá á bankaráðinu í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í eignarhaldinu.

Staða Bjarna Ármannssonar er almennt sögð munu styrkjast í kjölfar þeirra breytinga sem orðið hafa. Hann er sagður í góðum tengslum við þá blokk sem nú hefur yfir að ráða um 30% af hlutfé Íslandsbanka.

Kristinn Björnsson, stjórnarformaður Straums, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að honum fyndist liggja í augum uppi að þegar nýtt bankaráð kæmi saman væri það kjörinn vettvangur til að ræða sín mál og framtíðarsýn og til að skoða hvort sýn þeirra sem í bankaráðinu muni sitja fer saman.

Margir hluthafar

Íslandsbanki hefur haft þá sérstöðu á hlutabréfamarkaði að eignarhaldið í bankanum hefur verið mjög dreift. Hluthafar hafa verið og eru margir, þeir eru nú um 11 þúsund talsins, og fáir hafa átt stóra eignarhluti.

Þrír hluthafar í Íslandsbanka eiga nú yfir 5% hlut í bankanum en þar af eiga tveir yfir 10% hlut; Straumur fjárfestingarbanki á 16,5% hlut; Karl Wernersson og systkini hans eiga tæp 13%; Steinunn Jónsdóttir á 5,3%; Einar Sveinsson á 3,2%, Benedikt Sveinsson, bróðir Einars, á 2,5% og aðilar tengdir þeim bræðrum eiga um 3,5%; Jón Snorrason og tengdir aðilar eiga 3,6%; Lífeyrissjóðurinn Framsýn á 3,2%; Lífeyrissjóður verslunarmanna á 2,77% en aðrir hluthafar eiga innan við 2% hver.

Ekki er hægt að fullyrða hvernig bankaráð Íslandsbanka verður skipað eftir fyrirhugaðan hluthafafund. Ein útkoman gæti orðið sú að Straumur fengi tvo menn í bankaráðið, Karl Wernersson og systkini hans einnig tvo, Steinunn Jónsdóttir einn, Einar Sveinsson og tengdir aðilar einn og Jón Snorrason einn, en í bankaráðinu eru sjö manns. Miðað við þetta ætti að liggja fyrir að Víglundur Þorsteinsson, Helgi Magnússon og Orri Vigfússon myndu fara úr bankaráðinu á næsta hluthafafundi.

Virkur markaður

Viðskipti með hlutabréf í Íslandsbanka hafa ávallt verið mikil og oftar en ekki með því mesta sem gerist á hlutabréfamarkaði. Sérfræðingar á fjármálamarkaði, sem blaðamaður ræddi við, gefa eðlilega þá skýringu á miklum viðskiptum með hlutabréf í Íslandsbanka í gegnum tíðina, að bankanum hafi almennt vegnað vel. Þessu til viðbótar er einnig nefnt að hið dreifða eignarhald stuðli alla jafna að auknum viðskiptum. Þetta segja sumir að sé mikið styrkleikamerki og sé í raun það lýðræði á almenningshlutafélagamarkaði sem flestir vilji sjá. Vegna hins dreifða eignarhalds sé markaðurinn með hlutabréf í Íslandsbanka mjög virkur. Eigendur bréfa geti alltaf selt þau og jafnt stórir sem smáir hluthafar geri mikið af því. Dreift eignarhald sé því til vitnis um heilbrigða verðmyndun á markaði og sé því ákjósanlegri kostur en ef fáir stórir hluthafar hafa öll völd í félagi í höndum sér.

En dreift eignarhald í hlutafélagi, þ.e. eignarhald sem er ekki afgerandi á fárra höndum, býður eflaust upp á ýmiss konar æfingar og tilraunir. Þegar svo við bætist hvað íslenskum fjármálamarkaði hefur vaxið mikið fiskur um hrygg og gnótt er af lánsfé, skapast tækifæri fyrir þá sem vilja mynda sér stöðu í almenningshlutafélagi. Þetta á líklega sérstaklega við um félag þar sem enginn einn aðili er til að verja það.

Í tilfelli Íslandsbanka hefur stundum skapast óvissa um eignarhaldið. Ekki verður þó séð að óvissan hafi skaðað bankann, þrátt fyrir að átökin hafi verið hörð.

Mikil hækkun á markaði

Auðvitað á það við um Íslandsbanka eins og hina bankana, að aukinn hagnaður þeirra upp á síðkastið stafar að stærstum hluta af mikilli hækkun hlutabréfaverðs.

Í afkomuspá greiningadeildar Landsbankans fyrir þriðja fjórðung þessa árs sagði í umfjöllun um Íslandsbanka, að mestur hluti gengishagnaðar bankans hefði komið til vegna sölu á 8% hlut í Straumi, sem bankinn seldi um miðjan september síðastliðinn. Þá sagði greiningardeild Landsbankans að hagnaður Straums hefði næstum eingöngu komið til vegna gengishagnaðar, og þar sé stór hluti vegna eignarhlutar í Íslandsbanka. Mikill hagnaður bankanna að undanförnu stafar því að hluta til að minnsta kosti af eins konar hringrás. Engu að síður er ekki að sjá að það liggi í augum uppi að mikil ástæða til að kvarta undan rekstri Íslandsbanka.

Gott að vita hver á hvað

Í byrjun þessa árs keyptu þeir Helgi Magnússon og Orri Vigfússon, bankaráðsmenn í Íslandsbanka, að sögn samanlagt um 14% eignarhluti í Íslandsbanka af Landsbankanum, Landsbanka Luxembourg og Burðarási. Landsbankinn og Burðarás hafa legið undir nokkru ámæli fyrir hvernig staðið var að þessum viðskiptum en þau gengu til baka og Landsbankinn, Landsbanki Luxembourg og Burðarás seldu Straumi síðan þessa hluti fyrir um tveimur vikum. Með eignarhlut sínum í Straumi og sölunni á hlutum sínum í Íslandsbanka eru Landsbankinn og tengdir aðilar hins vegar komnir lengra frá Íslandsbanka, þar sem aðrir eiga stóra hluti í Straumi. Landsbankinn, Burðarás og Landsbanki Luxembourg eiga nú samanlagt rúmlega 24% hlut í Straumi en hins vegar er beinn eignarhlutur félaganna í Íslandsbanka nú óverulegur.

Stórir hluthafar í Straumi með Landsbankanum og tengdum aðilum eru Kristinn Björnsson og fjölskylda, sem eiga um 14% hlut, Magnús Kristinsson, útgerðarmaður, sem á um 14,5%, og TM sem á tæp 10%.

Í þessu sambandi voru þau athyglisverð ummælin sem höfðu voru eftir Einari Sveinssyni í Morgunblaðinu eftir að Straumur hafði keypt hlutina af Landsbankanum, Landsbanka Luxembourg og Burðarási, að nú væri komið í ljós hver hefði raunverulega verið eigandi Íslandsbankabréfa þeirra Helga og Orra.

Umræður hafa öðru hverju spunnist í þjóðfélaginu um mögulega og frekari hagræðingu í fjármálakerfinu hér á landi en orðin er. Slíkar umræður fengu byr undir báða vængi eftir kaup Straums í Íslandsbanka. Í kjölfar þeirra heyrðust enn á ný bollaleggingar um hugsanlega sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka og einnig Burðaráss og Straums. Mest bar þó á því að rætt var um þann möguleika að Íslandsbanki og Straumur sameinist, sem er nokkuð sem ýmsir telja að liggi nánast í loftinu. Þó eru ekki allir jafn sannfærðir.

Ef markmiðið væri að draga sem mest úr kostaði samhliða því að búa til öflugri einingu, myndi töluvert eflaust nást fram með samruna Landsbanka og Íslandsbanka. Ekki er úr vegi að ætla að áhugi fyrir slíku sé að minnsta kosti til staðar öðrum megin. Sá samruni myndi að öllum líkindum hafa í för með sér fækkun útibúa og starfsfólks samhliða því að útkoman yrði sterkari eining. Hvort yfirvöld myndu samþykkja slíkan samruna, m.a. út frá samkeppnissjónarmiðum, er hins vegar annað mál og alls ekki víst.

Samruni viðskiptabanka og fjárfestingarbanka myndi væntanlega ekki leiða til mikillar hagræðingar í rekstri. Útkoman yrði hins vegar hugsanlega sterkari eining.

Samkvæmt heimildum blaðamanns er nokkur áhugi a.m.k. meðal sumra þeirra sem standa að Straumi á að sameinast Íslandsbanka. Einar Sveinsson og Karl Wernersson segja að þessi hugsanlega sameining hafi ekkert verið rædd innan Íslandsbanka. Samlegðaráhrifin séu ekki mikil og styrkurinn af samruna sé að öllum líkindum minni en ætla mætti við fyrstu sýn, vegna þess hve stór hluti af eigin fé Straums sé bundinn í hlutabréfum í Íslandsbanka. Með samruna myndi þetta eigið fé étast upp. Þetta þyrfti því að leysa ef ætlunin væri að ná fram hagsauka með samruna.

Með hliðsjón af því sem þeir Einar og Karl segja þyrfti Straumur þá væntalega að losa sig við hlutabréf sín í Íslandsbanka og þá vaknar sú spurning hver myndi kaupa.

Samruni innan fárra vikna?

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki þarf samþykki Fjármálaeftirlitsins (FME) að liggja fyrir áður en aðili eignast með beinum eða óbeinum hætti virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Virkur eignarhluti í fjármálafyrirtæki telst vera 10% hlutafjár og þar yfir.

Rétt er að hafa í huga að á meðan FME hefur ekki samþykkt kaup Straums í Íslandsbanka miðast atkvæðisréttur Straums á hluthafafundi við 10% en ekki þau 16,5% sem félagið á.

Samkvæmt upplýsingum frá Straumi hefur félagið sent umsókn um samþykki FME fyrir kaupunum. FME hefur fjórar vikur til að afgreiða erindið, eftir að eftirlitið telur sig hafa fengið öll nauðsynleg gögn.

Skoðun FME í tilfelli Straums snýr að hæfi félagsins til að fara með virkan eignarhlut í Íslandsbanka, fjárhagslegum burðum Straums, faglegri þekkingu, bakgrunni og öðru þess háttar. Þáttur Landsbankans hlýtur að koma til sérstakrar skoðunar hjá FME í þessu sambandi.

Ýmsir viðmælendur blaðamanns telja að það muni ekki vefjast fyrir FME að veita samþykki sitt fyrir kaupunum. Ekkert er þó væntanlega sjálfgefið í þeim efnum.

Það sem FME hlýtur að skoða sérstaklega er til að mynda það að Landsbankinn og tengdir aðilar eiga rúmlega 24% hlut í Straumi, sem á um 40% hlut í TM. Þá á Straumur um 16,5% hlut í Íslandsbanka, sem á 100% hlut í Sjóvá Almennum tryggingum. TM og Sjóvá Almennar eru tvö af þremur stærstu tryggingafélögum landsins.

Kristinn Björnsson sagði í tilefni af kaupum Straums í Íslandsbanka, að stjórn Straums myndi ekki taka frekari ákvarðanir vegna kaupa félagsins á hlut í Íslandsbanka, fyrr en Fjármálaeftirlitið hefði fjallað um kaupin.

Með hliðsjón af ákvæðum í lögum um fjármálafyrirtæki liggur þó fyrir, að hugsanlegur samruni Straums og Íslandsbanka gæti komið til innan fárra vikna ef allar heimildir liggja fyrir og áhugi þeirra sem málið varðar er til staðar.

Aukið samstarf

Samruni Íslandsbanka og Straums myndi að öllum líkindum ekki leiða til mikillar hagræðingar. Straumur með sína 12 starfsmenn er af allt öðrum toga en viðskiptabankinn Íslandsbanki, þar sem starfa um 1.200 manns. Útkoman úr samruna þeirra yrði þó væntanlega öflugri banki.

Stærð banka og fjárhagslegur styrkur hefur sitt að segja um möguleikana til frekari vaxtar. Stærð banka má til að mynda meta út frá markaðsvirði, heildareignum eða eigin fé. Markaðsvirði Íslandsbanka er um 119 milljarðar króna, miðað við verð hlutabréfa félagsins í gær, og markaðsvirði Straums um 55 milljarðar. Ef markaðsvirði sameinaðs banka væri samanlagt markaðsvirði eininganna tveggja, væri hið sameiginlega markaðsvirði um 174 milljarðar. Til samanburðar er markaðsvirði KB banka um 273 milljarðar og Landsbankans um 121 milljarður. Náin eignatengsl eru á milli Landsbankans og Burðaráss. Markaðsvirði þess félags er um 69 milljarðar.

Eigið fé Íslandsbanka á miðju þessu ári var tæplega 33 milljarðar króna og Straums rúmlega 18 milljarðar. Til samanburðar var eigið fé Landsbankans rúmir 32 milljarðar og Burðaráss tæpir 27 milljarðar. Eigið fé KB banka eftir samrunann við danska bankann FIH er hins vegar nú um 96 milljarðar króna.

Viðmælendur blaðamanns segja sumir að með því að líta á Landsbankann og Burðarás saman, annars vegar, og Íslandsbanka og Straum, hins vegar, komi út tvær nokkuð svipaðar einingar eða blokkir, sem séu nær því að slaga hátt upp í KB banka. Meðal annars vegna þessa nánast blasi við að samruni Íslandsbanka og Straums geti verið álitlegur kostur. Ekki þurfi að fara í niðurskurð vegna slíks samruna. Hann auki hins vegar afl sameiginlegs félags til að takast á við stór verkefni og möguleika á aukinni sérhæfingu.

Sumir segja reyndar að þó svo ekki verði gengið formlega frá samruna Íslandsbanka og Straums megi gera ráð fyrir því að þau eignatengsl sem nú eru komin muni a.m.k. stuðla að auknu samstarfi félaganna.

Með samvinnu þeirra fjögurra hluthafa sem keyptu 2,0% hlut LV í Íslandsbanka og aðila þeim tengdum, ásamt með eignarhlut Straums, er komin upp staða sem Íslandsbanki hefur ekki áður verið í. Það mun væntanlega koma fram innan skamms tíma hvort þetta þýðir að línur varðandi Íslandsbanka séu orðnar skýrari en þær hafa verið. Það gæti orðið niðurstaðan. Hins vegar getur ýmislegt að sjálfsögðu gerst áður en hluthafafundurinn í bankanum verður haldinn.

gretar@mbl.is