Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og leikhópurinn Vesturport skrifuðu í gær undir kostunarsamning að andvirði nokkurra milljóna króna.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og leikhópurinn Vesturport skrifuðu í gær undir kostunarsamning að andvirði nokkurra milljóna króna. Er samningurinn vegna uppfærslu Vesturports á leikriti þýska leikritaskáldsins Georgs Büchner sem fyrirhuguð er í Borgarleikhúsinu í janúar 2005 og verður einnig sýnt í Barbican-leikhúsinu í London á næsta ári og vegna áframhaldandi sýninga á uppfærslu hópsins á Rómeó og Júlíu eftir enska leikritaskáldið William Shakespeare. Það verk hefur verið sýnt við góðar undirtektir á Íslandi og í London.

Margrét Sanders, framkvæmdastjóri hjá Deloitte, segir að samningurinn sé tvíþættur. Annars vegar sé um að ræða beinharða peninga og hins vegar vinnuframlag sem felst í endurskoðun, bókhaldi og skattaráðgjöf m.a. en hópurinn þarfnast slíkrar ráðgjafar vegna fyrirhugaðra sýninga verksins í New York og Japan að sögn Margrétar. Ýmis skattaleg álitamál geta komið upp við framkvæmdir sem þessar í ólíkum löndum, að hennar sögn. "Þetta er ávinningur beggja. Við fáum í staðinn fjölda miða á sýningar hópsins hér heima, meðal annars og tengjumst þeim með öðrum hætti. Þetta er stærsti samningur af þessu tagi sem við höfum gert," segir Margrét Sanders.

Hún segir ástæðuna fyrir samvinnunni við Vesturport vera þá að Deloitte telji að uppfærslan á Rómeó og Júlíu sýni ákveðinn ferskleika og nýjungar sem sé það sama og Deloitte standi fyrir á sínum markaði.