NORRÆNN sérfræðingafundur um erfðafræðilegan fjölbreytileika nytjafiska var haldinn á Hólum í Hjaltadal í síðustu viku. Þátttakendur í fundinum voru þekktir vísindamenn frá öllum Norðurlöndunum.

NORRÆNN sérfræðingafundur um erfðafræðilegan fjölbreytileika nytjafiska var haldinn á Hólum í Hjaltadal í síðustu viku. Þátttakendur í fundinum voru þekktir vísindamenn frá öllum Norðurlöndunum. Fundurinn var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna erfðarannsóknaráðsins.

Markmið fundarins varr að meta núverandi þekkingu á áhrifum fiskveiða á erfðalegan fjölbreytileika sjávarfiska á norrænum hafsvæðum, benda á leiðir til þess að lágmarka tap á slíkum fjölbreytileika og ræða hvernig sé best að forgangsraða aðgerðum.

Að sögn Skúla Skúlasonar, rektors Hólaskóla, hafa sjónir manna á undanförnum árum beinst í æ ríkari mæli að áhrifum veiða á erfðalega eiginleika fiskistofna, sem koma m.a. fram í breytingum á aldri og stærð við kynþroska sem og í ýmsu atferli fiskanna. "Þessu má lýsa sem viðbrögðum fiskanna við þeim aðferðum sem beitt er við veiðarnar. Þá þarf einnig að meta hvort nytjategundin myndar einn eða fleiri stofna því þeir geta brugðist mismunandi við veiðunum. Í flestum tilfellum leiðir svona þróun til minni verðmæta aflans og meiri kostnaðar við veiðarnar. Í sumum tilfellum hefur þetta farið saman við ofveiði eins og frægt er með þorskstofninn við austurströnd Kanada og þá getur endurheimt stofna verið mjög hæg. Þessi fundur er skýrt dæmi um vaxandi áhuga vísindamanna og stjórnvalda á þessum málum," segir Skúli.