Hollusta Fiskafurðir eru meinhollar en umfjöllun um þær oft  neikvæð.
Hollusta Fiskafurðir eru meinhollar en umfjöllun um þær oft neikvæð. — Morgunblaðið/Alfons
RANNSÓKNIR geta lagt sitt af mörkum til aukinnar fiskneyslu með því að halda á lofti hollustu fiskafurða og hafa á reiðum höndum gögn til að verjast áróðri.

RANNSÓKNIR geta lagt sitt af mörkum til aukinnar fiskneyslu með því að halda á lofti hollustu fiskafurða og hafa á reiðum höndum gögn til að verjast áróðri. Þetta kom fram í erindi Sjafnar Sigurgísladóttur, forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva á dögunum.

Sjöfn sagði að eitt af markmiðum rannsókna Rf væri að hafa áhrif á bæði fiskneyslu og þróun matvæla. Hún benti á að fiskneysla á Íslandi hefði dregist saman um 30% frá árinu 1990 og væri nú um 15 kíló á hvern Íslending á ári eða sem nemur 40 grömmum á dag. Sjöfn nefndi að neysla á mjólkurafurðum væri um 425 grömm og kjöti og kjötvörum um 110 grömm. Kannanir sýndu jafnframt að börnum þætti fiskur lítið spennandi og þar þyrfti að vinna mikið starf í framtíðinni.

Neikvæð ímynd fisks

Sjöfn sagði að umfjöllun um fisk og hollustu fiskmetis væri af afar skornum skammti og reyndar væri neikvæð umfjöllun algengari en jákvæð. Hún benti til dæmis á að fiskafurðir væru afar lítið auglýstar. Öllum væri aftur á móti kunnugt um hollustu til dæmis mjólkurafurða. Þá væri erfitt að finna jákvæðar fréttir um fisk og fiskneyslu, slíkt efni væri helst að finna hjá ýmsum stofnunum og félögum sem hvetja til heilbrigðara mataræðis. Af nógu sé hins vegar að taka þegar kemur að hollustu fisks og það væri mikilvægt að hafa slíkt í huga þegar kemur að rannsóknum og þróun. "Rannsóknir á jákvæðum áhrifum fisks á heilsu manna skapa jákvæða ímynd fisks sem uppsprettu heilnæmra efna, hágæðapróteina og lífsnauðsynlegra fitusýra, vítamína og steinefna. Öflun upplýsinga og miðlun til stjórnvalda, markaðsafla, fyrirtækja og neytenda getur haft áhrif á sölu sjávarafurða og hollustubylgjur er tengjast heilsu, fæði og lífsháttum."

En ekki vantar neikvæða umfjöllun um fisk og fiskneyslu og sagði Sjöfn algengt að settar væru fram misvísandi upplýsingar um hvað er öruggt og hvað ekki. Því væri nauðsynlegt hafa til reiðu aðgengilegar upplýsingar um aðskotaefni og örverur í íslensku sjávarfangi. Jafnframt væri mikilvægt að byggja gögn á vísindalegum vinnubrögðum sem sýni fram á að íslenskt sjávarfang er öruggt, næringarríkt og heilnæmt. Sagði Sjöfn að Rf myndi byggja upp sérfræðiþekkingu á nauðsynlegum sviðum sem lúta að öryggi sjávarfangs og sérhæfa sig í gerð áhættumats á matvælum.

Óplægður fæðubótarakur

Sjöfn ræddi einnig svonefnt markfæði á fundinum en hér á landi er kemur markfæði fyrst og fremst frá mjólkuriðnaðinum, með vörum á borð við LH og LGG+. Sjöfn sagði að rannsóknir á lífvirkum efnum í fiski væru hafnar en Íslendingar væru nánast á byrjunarreit varðandi rannsóknir á hollefnum í matvælum. Og Sjöfn tók enn dæmi af mjólkuriðnaðinum og benti á að árið 1980 hefði allt mjólkurprótein farið til fóðurgerðar. Nú fari hins vegar um helmingur mjólkurpróteins til manneldis og árið 2010 sé gert ráð fyrir að um 70% þess fari til manneldis. Velti Sjöfn því fyrir sér hvort fara mætti svipaða leið með fiskprótein. Þar væru ýmis tækifæri til að þróa nýjar matvælaafurðir, t.d. í íblöndunarefni sem bindiefni og til að auka gæði og nýtingu afurða. Þá nefndi Sjöfn að hágæða fiskprótein væri kjörið í framleiðslu fæðubótarefna og að þar væri óplægður akur.