ÍSLAND er í 10. sæti á lista stofnunarinnar World Economic Forum yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims og hefur lækkað um tvö sæti frá því í fyrra. Finnland er sem fyrr í efsta sæti, Svíþjóð er í 3. sæti og Danmörk og Noregur eru í 5. og 6. sæti.

ÍSLAND er í 10. sæti á lista stofnunarinnar World Economic Forum yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims og hefur lækkað um tvö sæti frá því í fyrra. Finnland er sem fyrr í efsta sæti, Svíþjóð er í 3. sæti og Danmörk og Noregur eru í 5. og 6. sæti.

Stofnunin byggir röð sína á ákveðnum forsendum, meðal annars er lögð áhersla á tekjuafgang af rekstri ríkissjóðs, litla spillingu, traust lög og reglur um fyrirtækjarekstur og tækniframfarir.

Finnland er í efsta sæti í þriðja skipti á fjórum síðustu árum. Í skýrslu WEF segir, að ríkisfjármál séu þar í mjög góðu lagi og þjónusta opinberra stofnana til fyrirmyndar. Lítil spilling sé í landinu og fyrirtæki starfi í lagaumhverfi þar sem mikil virðing sé borin fyrir samningum og reglum. Einkafyrirtæki í Finnlandi séu fljót að laga sig að tækninýjungum. Þá sé eftirtektarvert að afgangur hafi verið á rekstri ríkisins í nokkur ár og sé það m.a. gert til að mæta lífeyrisskuldbindingum í framtíðinni.

Bandaríkin eru í 2. sæti á listanum. Segir í skýrslunni, að tækniþróun sé þar á háu stigi og netnotkun sé almenn. Landið fái hins vegar ekki jafnháa einkunn fyrir opinberar stofnanir og ríkisrekstur.

Noregur tók mesta stökkið á milli ára, fór úr 9. sæti í það sjötta. Í skýrslu WEF segir, að Norðmenn hafi bætt stöðu sína á öllum þremur helstu sviðum sem vísitalan mæli, einkum varðandi opinberar stofnanir vegna bættrar lagasetningar. Raunar séu öll Norðurlöndin á virðingarverðum stað í vísitölunni.

Yfirburðastaða í opinberum stofnunum

Samkvæmt skýrslu World Economic Forum hefur Ísland yfirburðastöðu þegar lagt er mat á opinberar stofnanir, en t.d. á sviði tækni er staðan slakari, sérstaklega á sviði nýsköpunar. Með hliðstæðum hætti er lagt mat á samkeppnisvísitölu fyrirtækja, en þar er Ísland í 19. sæti.

Könnunin nær til 8.700 leiðandi aðila í viðskiptalífinu í 104 löndum. Spurningum könnunarinnar er ætlað að fá fram svör við atriðum sem hafa áhrif á viðskiptaumhverfið og eru afgerandi um viðvarandi efnahagslegan vöxt.