ÓSENNILEGT er, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að Flugleiðir bjóði í ungverska ríkisflugfélagið Malév, en frestur til að bjóða í félagið rennur út í næstu viku.

ÓSENNILEGT er, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að Flugleiðir bjóði í ungverska ríkisflugfélagið Malév, en frestur til að bjóða í félagið rennur út í næstu viku. Flugleiðir hafa skoðað málið í samvinnu við Landsbankann og þykir ýmislegt í rekstri félagsins áhugavert, en komið hefur í ljós að fjárhagsstaða þess er slæm.

Malév var að fullu í eigu ungverska ríkisins. Vegna inngöngu Ungverjalands í Evrópusambandið má ekki veita félaginu ríkisstyrki og hefur það þrýst á sölu þess. Ungversku ríkisstjórninni er hins vegar mikið í mun að félagið verði áfram í rekstri og í útboðsskilmálum eru skilyrði um að nýir eigendur "varðveiti einkenni þjóðarflugfélagsins."

Félaginu var breytt í hlutafélag 1992 og 30% seld til ítalska flugfélagsins Alitalia í lok sama árs. Ítalska fjárfestingarfélagið Simest keypti þá einnig 5% hlut.

Air Invest Kft., sem tveir ungverskir bankar stofnuðu, keypti bréfin af ítölsku fyrirtækjunum 1997. Í ágúst 1999 keypti ungverska ríkið bréfin hins vegar aftur og á nú 99,93% í félaginu. Áformað er að ljúka einkavæðingu þess fyrir áramót.