Áhuginn endurvakinn "Til langs tíma eru vaxtarfjárfestingar og fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum einn stærsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífi hérlendis og erlendis," segir Gísli Hjálmtýsson.
Áhuginn endurvakinn "Til langs tíma eru vaxtarfjárfestingar og fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum einn stærsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífi hérlendis og erlendis," segir Gísli Hjálmtýsson. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brú Venture Capital stefnir að því að verða leiðandi fjárfestir í vaxtarfyrirtækjum. Soffía Haraldsdóttir ræddi við Gísla Hjálmtýsson, framkvæmdastjóra Brúar, sem telur að áhugi fjárfesta á nýjum fyrirtækjum sé aftur að vakna eftir áfallið sem fylgdi því að netbólan sprakk.

Gagngerar breytingar eru að verða á rekstri Brúar Venture Capital, dótturfélags Straums Fjárfestingarbanka. Unnið er að eflingu félagsins með það að markmiði að Brú verði leiðandi fjárfestir í vaxtarfyrirtækjum á Íslandi.

Brú Venture Capital á rætur sínar í nokkrum fjárfestingarsjóðum sem runnu saman eftir að netbólan sprakk árið 2001. Straumur Fjárfestingarbanki, sem á yfir 80% hlutafjár í Brú, safnaði í kjölfarið til sín helstu fjárfestingarsjóðum í tæknigeiranum, s.s. Íslenska hugbúnaðarsjóðnum, Talentu-hátækni, eignasafni Símans í upplýsingatæknifyrirtækjum og sjóðum sem áður tilheyrðu Eignarhaldsfélagi Alþýðubankans (EFA).

Gísli Hjálmtýsson er framkvæmdastjóri Brúar en hann var nýlega fenginn, ásamt Sigurði Ingiberg Björnssyni, til að leiða eflingu félagsins. Gísli segir eignasafn Brúar í dag fremur mislitt. Fjárfestingarnar hafi að stærstum hluta verið gerðar á tímum netbólunnar af forsvarsmönnum þeirra sjóða sem runnu inn í Brú og þessum fjárfestingum hafi vegnað misvel. Inntur eftir tölum úr rekstri félagsins segir Gísli að rekstrartölur Brúar í dag skipti engu máli. "Hér eru kaflaskipti í rekstri Brúar, félagið er að fara úr því að vera í varnarleik og fjárfesta sáralítið, yfir í að blása til sóknar og verða leiðandi félag á sviði áhættufjármögnunar á Íslandi með virka og kröftuga starfsemi."

Áhugi að vakna aftur

Fjárfestingar í vaxtarfyrirtækjum hafa ekki átt upp á pallborðið á undanförnum þremur til fjórum árum, frá því að netbólan fræga sprakk. Gísli telur þetta vera að breytast.

"Þó svo að sumar fjárfestinganna í netbólunni hafi ekki gengið vel, þá er staðreyndin sú að til langs tíma eru vaxtarfjárfestingar og fjárfestingar í nýjum fyrirtækjum einn stærsti vaxtarbroddurinn í atvinnulífi hérlendis og erlendis. Eðlilega var það mönnum svolítið áfall þegar markaðir hrundu en ég tel að áhugi manna sé að vakna aftur." Hann bendir á að ekki þurfi að líta lengra en á íslensku kauphöllina þar sem séu skráð fyrirtæki eins og Actavis, Össur, Marel, Bakkavör, KB banki og Straumur. "Þetta eru fyrirtæki sem ekki voru til fyrir 25 árum. Það er ekki langt síðan þau voru ný og voru vaxtarfyrirtæki. Í dag eru þau uppistaðan í Kauphöllinni."

Hvað varðar ástæður þess að áhugi er að vakna aftur á fjárfestingum í vaxtarfyrirtækjum segir Gísli að aðstæður séu að breytast. "Margir nöguðu sig í handarbökin í kjölfar þess að bólan sprakk og voru ekki tilbúnir til að fara strax í svona fjárfestingar aftur. Nú hefur hins vegar orðið mikil verðhjöðnun í nýjum fyrirtækjum og fjárfestar eiga þess kost að koma inn á raunhæfari kjörum en var á þessum tíma."

Hvar er næsta Marel?

"Þá eru margir aðrir fjárfestingarkostir að verða ansi dýrir, t.a.m. hér á landi. Og þó svo að verð á hlutabréfamarkaði muni kannski halda áfram að hækka um sinn þá telja margir að vöxtur undanfarinna ára sé brátt á enda. Vaxtarfjárfestingar eru þar af leiðandi aftur orðnar spennandi kostur. Menn eru farnir að líta meira til framtíðar og spyrja sig: Hvar er næsta Marel og hvar er næsti Össur?" Gísli segist finna þennan jákvæða byr með fjárfestingum í vaxtarfyrirtækjum, bæði hjá fólki í atvinnulífinu, lífeyrissjóðunum og hjá stjórnvöldum. Það megi að vissum hluta þakka tilteknum verkefnum sem hafi gengið vel á síðustu misserum. Hann nefnir Latabæ, CCP og Landmat sem dæmi um nýsköpunarfyrirtæki sem virðast ganga vel.

Brú hefur það að markmiði að fjárfesta í vaxtarfyrirtækjum og að sögn Gísla verður bæði fjárfest á Íslandi og erlendis. "Ég sé fyrir mér verulega þörf á að fjárfesta að einhverju leyti erlendis til þess að tryggja íslensku fyrirtækjunum samstarf og markaðsaðgengi." Hann nefnir sem dæmi Landmat, þar sem verið sé að sameina íslenskt fyrirtæki erlendu fyrirtæki m.a. til að bæta aðgang Landmats að mörkuðum.

"Þau íslensku fyrirtæki sem hafa náð árangri, hafa orðið til á Íslandi og byggjast á íslensku hugviti. En þegar kemur að því að þau stækka verulega þá verða þau fyrr eða síðar að stækka út fyrir landsteinana. Við erum búin að brenna okkur á því og ég tel það mjög ranga stefnu, að fyrirtækin byggi sjálf upp sínar markaðs- og dreifingarleiðir erlendis. Það er miklu nær að gera eins og þau fyrirtæki, sem náð hafa árangri, hafa gert. Þau hafa keypt dreifingarleiðirnar og keypt fyrirtæki erlendis til að tryggja sér markaðsaðgang."

Gísli leggur áherslu á að Brú ætli sér að starfa náið með þeim fyrirtækjum sem fjárfest verður í. Í stað þess að setja einungis peninga í sniðuga hugmynd muni Brú taka virkan þátt í uppbyggingu þeirra fyrirtækja sem fjárfest verður í, en muni jafnframt fjárfesta markvisst í öðrum félögum í því skyni að greiða þeim leið að erlendum mörkuðum og síðar skapa möguleika á samruna eða sölu. Mikilvægt sé að huga strax að útgönguleiðum fjárfesta, en sá þáttur hafi oft verið vanræktur.

Út í lok vaxtarferlis

Gísli er mikill áhugamaður um vaxtarfjárfestingar og starfaði við slíkar fjárfestingar í Bandaríkjunum. Jafnframt starfaði hann við rannsóknir hjá bandaríska fjarskiptarisanum AT&T auk þess að vera tæknilegur og viðskiptalegur ráðgjafi fjölmargra nýrra fyrirtækja, m.a. í Kísildalnum. Nú er hann prófessor og deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, og verður það áfram samhliða starfinu hjá Brú. "Markmið tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík er að til verði öflugur hátækniiðnaður á Íslandi og þetta er mikilvægur hluti af því."

Hann neitar því hins vegar að Brú verði í svipaðri starfsemi og Nýsköpunarsjóður. Fyrirtækin sem Brú hafi áhuga á séu heldur lengra á veg komin. "Það verður lítill hluti af okkar fjárfestingum í fyrirtækjum á klakstigi. Við munum beina sjónum okkar að fyrirtækjum sem eru tilbúin með sína tækni og aðferðafræði, eru að komast af stað en þurfa til þess fjármagn og markaðssetningu. Þetta eru fyrirtæki sem geta vaxið og við reynum að hjálpa í gegnum vaxtarferlið en þegar við teljum að vaxtarferlinu sé að ljúka þá viljum við komast út."

soffia@mbl.is