[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÆSTA olíuverð í sögunni og tregfiskirí á rækju er farið að segja til sín. Íshaf hf. á Húsavík, eitt stærsta rækjuvinnslufyrirtæki landsins, hefur nú lagt rækjuveiðiskipum sínum öllum þremur tímabundið þar sem veiðarnar standa ekki undir sér.

HÆSTA olíuverð í sögunni og tregfiskirí á rækju er farið að segja til sín. Íshaf hf. á Húsavík, eitt stærsta rækjuvinnslufyrirtæki landsins, hefur nú lagt rækjuveiðiskipum sínum öllum þremur tímabundið þar sem veiðarnar standa ekki undir sér. Fullri vinnslu er engu að síður haldið áfram og byggist hún í síauknum mæli á innfluttri iðnaðarrækju.

Íshaf var stofnað um síðustu áramót og eru eigendur þess Húsavíkurbær, Eskja hf. og Vísir hf. Fyrirtækið er með um 18% úthafsrækjukvótans hér við land, eða 3.600 tonn af 20.000.

Kvótinn náðist ekki

Bergsteinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Íhafs segir reksturinn mjög erfiðan, einkum útgerðina. "Við höfum ákveðið að hætta eigin veiðum í bili. Við erum með fjögur skip, Aldey, Flatey, Húsey og Seley, en Seley var lagt í sumar, enda teljum við okkur í eðlilegu árferði geta náð aflaheimildum okkar á hinum þremur skipunum. Kvótinn náðist reyndar ekki á nýliðnu fiskveiðiári. Það er heimilt að flytja 10% heimildanna milli ára, en þrátt fyrir það féll nokkuð af kvóta okkar ónýtt niður. Við höfum því heimildir til að veiða rúmlega 4.000 tonn á þessu fiskveiðiári. Það á eftir að koma í ljós hvernig gengur, en haustin eru oftast erfið í rækjuveiðunum," segir Bergsteinn.

Verið er að kanna hvort hægt er að koma skipunum í önnur verkefni um tíma. Um 17 manns hafa verið í áhöfnum skipanna þriggja sem ætlunin hafði verið að gera áfram út, en 10 til 12 yfirmönnum hefur ekki verið sagt upp. Bergsteinn segir að þetta sé vissulega erfitt fyrir bæjarfélagið. Þarna tapist 5 til 7 pláss um tíma að minnsta kosti og löndunargengið missi vinnu við löndun úr þessum skipum, en það séu 4 til 5 menn. Auk þess verði ekki tekinn kostur meðan skipin liggi, olía ekki keypt og fleira komi til.

Pundið lækkar

Hann segir að þrátt fyrir þetta sé vinnslan keyrð á fullum, enda sé verið að vinna úr 10.000 til 11.000 tonnum á ári. Það hafi alltaf verið gert ráð fyrir því að um 60% vinnslunnar byggðust á innfluttri iðnaðarrækju, en nú væri það hlutfall orðið hærra.

"Heimsmarkaðsverð á iðnaðarrækju er hátt um þessar mundir, en við kaupum mest af rækjunni af skipum á Flæmska hattinum, einkum Pétri Jónssyni RE. Það bætir svo ekki stöðuna að gengi pundsins hefur að undanförnu lækkað um 5 til 6 krónur, en megnið af framleiðslu okkar er selt í pundum. Eitthvað er þó einnig selt í dönskum krónum og evrum. Eins og staðan er í dag má segja að rekstur vinnslunnar sé við núllið," segir Bergsteinn.