Fiskmarkaður Uppboðsmarkaður fyrir fisk hefur tekið til starfa í Siglufirði og eru þeir Hafþór Kolbeinsson og Steingrímur Hákonarson hæstráðendur þar.
Fiskmarkaður Uppboðsmarkaður fyrir fisk hefur tekið til starfa í Siglufirði og eru þeir Hafþór Kolbeinsson og Steingrímur Hákonarson hæstráðendur þar. — Morgunblaðið/Alfons
FISKMARKAÐUR Siglufjarðar hóf starfsemi í þessari viku, en í tengslum við hann er einnig boðið upp á slægingu og ýmsa aðra þá þjónustu sem menn kunna að óska.

FISKMARKAÐUR Siglufjarðar hóf starfsemi í þessari viku, en í tengslum við hann er einnig boðið upp á slægingu og ýmsa aðra þá þjónustu sem menn kunna að óska. Það eru fimm aðilar, sem standa að stofnun og rekstri markaðsins, en markmiðið með honum er að efla heimabyggðina.

Þessir aðilar eru Þormóður rammi-Sæberg, Norðurfragt í Siglufirði, Guðrún María fiskverkun, Fiskmarkaður Suðurnesja og Steingrímur Hákonarson. Fastur starfsmaður með honum er Hafþór Kolbeinsson, en starfsmannafjöldi fer annars eftir umsvifum.

Enginn fiskmarkaður hefur verið í Siglufirði og hafi menn viljað koma fiski þaðan á markað hefur hann oftast verið fluttur suður. Í einhverjum tilfellum hefur fiskurinn svo verið keyptur aftur til Siglufjarðar með tilheyrandi kostnaði.

Steingrímur Hákonarson segir að þeir vonist eftir miklum viðskiptum, en uppboð verða daglega, tvö á mánudögum, það fyrra klukkan 08.15 og svo klukkan 13.000 alla virka daga auk laugardaga yfir veturinn.

"Hér er öll þjónusta til staðar. Við erum með slægingu, höfnin er ein sú bezta fyrir öllu Norðurlandi og stutt á miðin. Boðið verður upp á daglegar ferðir með fisk til og frá staðnum og jafnvel tíðari ferðir verði þess þörf. Mönnum af aðkomubátum bjóðum við góða þjónustu og getum jafnvel hjálpað þeim að finna húsnæði. Við vonumst því til að sem flestir muni nýta sér þessa góðu þjónustu hjá okkur og nálægðina við fiskimiðin," segir Steingrímur Hákonarson.