SIGURÐUR Jónsson, fyrrverandi fyrirliði landsliðsins, og núverandi þjálfari Víkings var ekki ánægður með framgöngu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Sigurður sagði að fara þyrfti í almenna naflaskoðun á leikskipulagi og framgöngu íslenska...

SIGURÐUR Jónsson, fyrrverandi fyrirliði landsliðsins, og núverandi þjálfari Víkings var ekki ánægður með framgöngu íslenska liðsins á Laugardalsvelli í gær. Sigurður sagði að fara þyrfti í almenna naflaskoðun á leikskipulagi og framgöngu íslenska liðsins. "Við vorum arfaslakir í fyrri hálfleik og það leikskipulag sem við beittum hentaði engan veginn í þessum leik. Svíarnir fengu mikið pláss til þess að athafna sig. Við komumst aldrei í boltann á miðjunni og þeir léku sér að því að senda boltann sín á milli. Í raun er ég alveg orðlaus og átta mig ekki á hvað er í gangi," sagði Sigurður.

"Þetta er ekki nógu gott. Menn verða að svara ýmsum spurningum á næstu dögum og vikum og breyta mörgu. Íslenska landsliðið verður aldrei þannig lið að það geti sleppt því að tækla og leika fast. Það er bara staðreynd sem við verðum að vinna út frá.

Sterk vörn útgangspunkturinn

Sterk liðsvörn var ávallt útgangspunktur númer eitt í landsliðinu og verður að vera það áfram ef einhver árangur á að nást. Það má vel vera að sá kraftabolti sem leikinn var hér á árum áður hafi ekki verið áferðarfallegur en ég tel að þeir sem ráða ferðinni verði að taka á málunum með öðrum hætti en við sýndum í þessum leik," sagði Sigurður og gat ekki leynt vonbrigðum sínum.