Frá Þuríði Guðmundsdóttur:: "GETUR verið að hið nýja leiðakerfi strætisvagna bjóði í mörgum tilfellum upp á skerta þjónustu? Er það samgöngubót að fólk, t.d. börn, aldraðir og hreyfihamlaðir þurfi að ganga enn lengra í snjó, hálku og hvassviðri til að taka strætisvagn?"

GETUR verið að hið nýja leiðakerfi strætisvagna bjóði í mörgum tilfellum upp á skerta þjónustu?

Er það samgöngubót að fólk, t.d. börn, aldraðir og hreyfihamlaðir þurfi að ganga enn lengra í snjó, hálku og hvassviðri til að taka strætisvagn?

Ég vil þakka Kjartani Magnússyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fyrir að vekja máls á þessu í grein sinni í Morgunblaðinu 25. september sl. en þar gagnrýnir hann fyrirhugaðar breytingar á leiðakerfi strætisvagna.

Væri ekki athugandi að minni og sparneytnari vagnar færu um íbúðarhverfi og þar sem þrengsli eru, skiptistöðvum yrði fjölgað og stærri vagnar tækju við á nokkrum aðalstofnleiðum.

Í bæklingi um þetta nýja leiðakerfi er aðeins hluti þess sýndur og mynd á netinu er ekki nógu ýtarleg.

Í vesturborginni mun leið 2 eiga að aka Mýrargötu og ferðir um Framnesveg verða lagðar niður. Þar með lokast fyrir þann möguleika að komast með vagni að þjónustu- og verslunarmiðstöðvum við Hringbraut.

Þetta er aðeins eitt dæmi, en ég hef séð í bréfum til Morgunblaðsins að fleiri eru sáróánægðir.

Ég legg til að bíllausi dagurinn verði lagður niður og að í staðinn komi dagur einu sinni á ári, þar sem hugmyndasmiðum og stuðningsmönnum þessa nýja leiðakerfis verði gert að leggja bílunum sínum sjö hundruð til þúsund metrum frá húsinu sínu.

Það er von mín að borgaryfirvöld endurskoði þessi mál.

ÞURÍÐUR

GUÐMUNDSDÓTTIR,

Ránargötu 42,

l0l Reykjavík.

Frá Þuríði Guðmundsdóttur: