Frá Blómabarnaráði Valhúsaskóla:: "Okkur, unglingum á Seltjarnarnesi, finnst ósanngjarnt hve sveitarfélögin eru stíf í samningaviðræðum við kennarana."

Okkur, unglingum á Seltjarnarnesi, finnst ósanngjarnt hve sveitarfélögin eru stíf í samningaviðræðum við kennarana. Ekki aðeins er það ósanngjarnt í garð kennaranna, heldur einnig okkar grunnskólanemenda, sem vegna verkfallsins missum margar vikur úr skóla. Sama fólk hefur setið í samninganefndum Kennarafélags og sveitarfélaga síðan í febrúar. Nú er kominn október og ætti þess vegna að vera orðið nokkuð ljóst að meðlimir nefndanna eru ekki að vinna saman og lítil von til sátta í bráð. Við vonum að sveitarfélögin geri sér grein fyrir því að þrjóska þeirra komi fyrst og fremst niður á okkur og okkar námi. Við erum framtíð þessa lands. Ekki er laust við að maður fái það á tilfinninguna að sveitarfélögin gleðjist yfir þessari óvæntu sparnaðarleið nú á þessum síðustu og verstu tímum. Skrifað er í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að allir þegnar þess eigi jafnan rétt á menntun. Í tilviki grunnskólanemenda eru það ekki færri en 170 dagar á ári sem við eigum, lögum samkvæmt, rétt á.

Með þvermóðsku sinni eru sveitarfélögin að stytta þessa menntun okkar umtalsvert og brjóta þannig á rétti okkar til náms. Eftir þriggja vikna verkfall eru skóladagar grunnskólanema þegar komnir niður í 155 daga, og eins og staðan er nú gæti verkfallið allt eins staðið í þrjár vikur til viðbótar.

Almenningur fær ekki að vita hvað fer fram á "sáttafundum" sveitarfélaganna og Kennarafélagsins og virðist sem álit ríkisins sé að þetta komi óbreyttum þjóðfélagsþegnum einfaldlega ekki við og þá síst okkur grunnskólanemum, sem þó höfum flest, að minnsta kosti þau okkar sem eldri erum, sterkar skoðanir á þessu máli.

Um 14.000 grunnskólanemar eiga að þreyta samræmd próf á þessu skólaári. Prófum 9.500 þeirra hefur verið frestað um óákveðinn tíma, þ.e. samræmd próf í 4. og 7. bekk munu fara fram tveimur vikum eftir að skólastarf hefst á ný. Ekkert er víst um samræmdu próf 10. bekkjar, en ljóst er að það muni koma stórlega niður á nemendum að missa fleiri vikur úr skóla, ekki síst þeim sem við námsörðugleika eiga að stríða.

Af hverju finnst okkur þessi atriði vera ósanngjörn? Af því að við viljum fá okkar kennslu, við viljum vera vel búin undir lífið og þau verkefni sem bíða okkar í framtíðinni. Nú eru mörg okkar að fara í framhaldsskóla á næsta ári. Nám í skólum á framhaldsskólastigi er áberandi erfiðara en í grunnskólum og hægt er að deila um hve vel við verðum undirbúin undir það nám ef við missum fleiri vikur úr skóla í ár.

Rétt er að geta þess að kennararnir njóta fulls stuðnings nemendaráðs Valhúsaskóla í þeirra kjarabaráttu. Við gerum okkur grein fyrir því að þeir vilja ekki fara í verkfall og að þetta er neyðarúrræði hjá þeim.

Baráttukveðjur.

BLÓMABARNARÁÐ

VALHÚSASKÓLA,

Seltjarnarnesi.

Frá Blómabarnaráði Valhúsaskóla: