Gerardo Nuñez, Pablo Marín, Rafael de Utrera og Cepillo fluttu bræðing flamnecotónlistar og djass; Carmen Cortés dansaði. Fimmtudagur 7. október.

Misskilningur á milli forráðamanna Salarins í Kópvogi og gítarleikarans Gerardo Nuñez og félaga varð þess valdandi að tónleikar sem áttu að vera á föstudagskvöldið voru haldnir á fimmtudagskvöldið og öfugt. Á fyrri tónleikunum átti að flytja hreinræktaða klassíska flamencotónlist en á hinum síðari nokkurskonar bræðing sígildrar flamencotónlistar og nútímalegra afbrigða hennar með vænum skammti af djassi. Þessi misskilningur kom ekki í ljós fyrr en tónleikarnir á fimmtudagskvöldið voru byrjaðir og er því óhætt að fullyrða að margir áheyrendur hafi orðið fyrir vonbrigðum. Gítarsólóið í upphafi var einkennilega poppað; flamencodans Carmen Cortés var undarlega nútímalegur og kontrabassaleikur Pablo Marín var allt að því flippaður. Hið eina sem virtist ekta var hinn svokallaði djúpsöngur Rafael de Utrera, en hann var afar tilfinningaþrunginn og hljómfagur.

Burtséð frá því hvað átti og hvað átti ekki að vera á efnisskránni voru tónleikarnir ekkert sérstaklega vel heppnaðir fyrir hlé. Gítarleikur Nuñez var reyndar yfirmáta glæsilegur, fingralipurðin og skýrleikinn var ótrúlegur og krafturinn ekki síðri. Það var bara allt of mikið af honum; endalaus heljarstökk á gítarstrengjunum, endalaus nótnahlaup án þess að nokkur skapaður hlutur gerðist í tónlistinni, það sama aftur og aftur uns líðanin var eins og maður hefði étið yfir sig af rjómaköku.

Til allrar hamingju var stemningin önnur eftir hlé; slagverksleikarinn Cepillo barði kassa sem hann sat á af gríðarlegri fimi og atriðið þar sem hann og Marín lömdu og plokkuðu einn og sama kontrabassann var frumlegt og skemmtilegt. Þegar svo gítarleikarinn bættist í hópinn var tónlistin heildstæðari og naut söngurinn sín þá meira en áður. Og hvað flamencodans Cortésar varðar get ég alltént sagt að persónulega fannst mér gaman að horfa á hann þó ég treysti mér ekki til að dæma um hversu faglegur hann hafi verið. Í það heila var útkoman verulega heillandi og ég held að þegar upp var staðið hafi áheyrendur ekki verið eins illa sviknir af tónleikunum og leit út fyrir í fyrstu.

Jónas Sen