[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergur Felixson fjallar um gjaldskrá leikskólanna: "Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti fyrir rúmum 10 árum að allir foreldrar gætu sótt um heilsdags leikskólavist."

NOKKUR umræða hefur átt sér stað undanfarið um gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur og hlut foreldra í kostnaði og það fullyrt að giftir foreldrar greiði niður gjöld fyrir einstæða foreldra. Þetta er ekki rétt. Allir skattgreiðendur greiða með sköttum sínum hluta kostnaðar vegna leikskóladvalar allra barna í leikskólum og er það vel því öll berum við ábyrgð á velferð barna landsins.

Frá því að fyrstu lög um dagvistarstofnanir voru samþykkt árið 1973 hefur sá háttur verið hafður á að einstæðir foreldrar hafa fengið hærri niðurgreiðslu hvað varðar leikskólagjöld, en börn giftra foreldra.

Í lögunum var gert ráð fyrir að hlutur foreldra í gjaldi á leikskólum (hálfsdags vist) væri 60% en hlutur foreldra barna á dagheimilum (heilsdags vist), sem nær eingöngu voru fyrir börn einstæðra foreldra og námsmanna, væri 40% kostnaðar.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti fyrir rúmum 10 árum að allir foreldrar gætu sótt um heilsdags leikskólavist. Í kjölfarið var ákveðin gjaldskrá fyrir börn hjóna og sambýlisfólks og er hún hærri en gjaldskrár sem gilda fyrir börn einstæðra foreldra, námsmanna og öryrkja. Um þetta hefur að mestu ríkt sátt en þessi háttur hefur verið hafður á í áratugi í öllum sveitarfélögum sem undirritaður þekkir til.

Sú skoðun hefur komið fram að réttlátara væri að tekjutengja þessa gjaldskrá, eins og þekkist í nágrannalöndum. Það sem mælir gegn því er í fyrsta lagi það skattkerfi sem við búum við og slíkt myndi leiða af sér viðamikla skriffinnsku. Í öðru lagi er mikil fylgni milli tekna og hjúskaparstöðu eins og meðfylgjandi tafla sýnir og myndi það því breyta litlu þó gjaldskrá yrði tekjutengd.

Gjaldskrá leikskóla er til umræðu við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélaga ár hvert og auðvitað getur komið til álita að breyta hlutföllum milli gjaldflokka og er það á ábyrgð stjórnvalda. Það væri þó æskilegt að svipaðar reglur giltu milli sveitarfélaga hvað varðar gjaldtöku leikskólagjalda.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti nýlega tillögur starfshóps um aukna samþættingu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík. Fela tillögurnar m.a. í sér gjaldfrjálst leikskólanám fimm ára barna, sem nemur þremur stundum daglega.

Geta foreldrar leikskólabarna glaðst yfir þeirri lækkun sem varð á gjaldskrá fyrir 5 ára börn í september sl. og nemur 3.360 kr. fyrir einstæða foreldra og 8.400 kr. fyrir gifta og sambúðarfólk.

Upplýsingar um gjaldskrá leikskóla er að finna á vefsíðu Leikskóla Reykjavíkur: www.leikskolar.is.

Bergur Felixson fjallar um gjaldskrá leikskólanna

Höfundur er forstöðumaður Dagvistar barna og framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur.