* KRISTINN Jakobsson, milliríkjadómari í knattspyrnu, dæmdi leik Moldavíu og Skotlands í undankeppni HM í gærkvöldi í Chisinau í Moldavíu. Aðstoðardómarar voru Pjetur Sigurðsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson, varadómari Egill Már Markússon.

* KRISTINN Jakobsson, milliríkjadómari í knattspyrnu, dæmdi leik Moldavíu og Skotlands í undankeppni HM í gærkvöldi í Chisinau í Moldavíu. Aðstoðardómarar voru Pjetur Sigurðsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson, varadómari Egill Már Markússon. Leiknum lauk með jafntefli, 1:1.

*STUÐNINGSMENN Skota létu Bertie Vogts landsliðsþjálfara hafa það óþvegið eftir leikinn en fyrir leikinn sagði hann að ekkert nema sigur myndi halda HM-draumi Skotlands á lífi. Skotar hafa aðeins fengið eitt stig og eru á botninum í sínum riðli. "Mínir menn lögðu sig alla fram en náðu ekki fram sigri. Ég er óánægður með úrslitin en ekki má gleyma því að Ítalir unnu aðeins hér með eina markinu sem var skorað í leiknum," sagði Vogts.

* ROBBIE Keane, miðherji Tottenham, setti nýtt markamet fyrir Írland er hann skoraði tvö mörk gegn Færeyingum í Dublin í gærkvöldi. Þegar hann skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu jafnaði hann met Niall Quinn, 21 mark, en síðan braut hann metið með því að skora á 33. mín., 2:0. - 22 landsliðsmarkið.

* DAVID Beckham, fyrirliði enska landsliðsins, hefur beðist velvirðingar á því að hafa viljandi fengið gult spjald í leik Englands og Wales á dögunum og þar með farið í leikbann, sem hann tekur út á meðan hann jafnar sig á meiðslum sem hann hlaut í leiknum. Afsökunarbeiðni fyrirliðans kom í kjölfar harðrar gagnrýni á hann fyrir að hafa gert þetta. "Ég veit að þetta var rangt og ég bið knattspyrnusambandið afsökunar, þjálfarann, samherja mína og alla sem standa við bakið á enska landsliðinu, einnig áhorfendur," segir í yfirlýsingu Beckhams sem segir það sárt að hafa gert lítið úr háttvísireglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

* FYRR í gær hafði Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, gagnrýnt Beckham harðlega í blaðaviðtali fyrir að brjóta vísvitandi af sér í landsleik til að geta tekið út leikbann á meðan hann er að ná sér að meiðslum.

"Hvert stefnum við þegar sendiherrar knattspyrnunnar leika ekki heiðarlega?" segir Blatter í samtali við The Sun.