Um 370 Hafnfirðingar tóku þátt í íbúaþingi á laugardag þar sem málefni bæjarfélagsins voru rædd.
Um 370 Hafnfirðingar tóku þátt í íbúaþingi á laugardag þar sem málefni bæjarfélagsins voru rædd. — Morgunblaðið/Sverrir
MÁLEFNI miðbæjarins, úrbætur á göngustígum, ný sundhöll og biðlistar eftir tónlistarnámi var meðal þess sem Hafnfirðingar ræddu á íbúaþingi sl. laugardag, en helstu niðurstöður þingsins voru kynntar fyrir bæjarbúum á fundi í Hafnarborg í gærkvöldi.

MÁLEFNI miðbæjarins, úrbætur á göngustígum, ný sundhöll og biðlistar eftir tónlistarnámi var meðal þess sem Hafnfirðingar ræddu á íbúaþingi sl. laugardag, en helstu niðurstöður þingsins voru kynntar fyrir bæjarbúum á fundi í Hafnarborg í gærkvöldi.

Á þinginu komu íbúar með hugmyndir og uppástungur um allt sem þeim lá á hjarta um bæjarfélagið. Ábendingar sem fram komu á þinginu verða flokkaðar niður eftir efni, og fara svo til umfjöllunar í viðeigandi nefndum og ráðum bæjarins á næstunni, þar sem frekari ákvarðanir verða teknar með hliðsjón af tillögunum.

"Mér fannst þetta takast vel í alla staði, þetta var mjög áhugasamt fólk sem kom, þátttakan var í fullu samræmi við það sem við áttum von á. Það komu fram mjög margar ábendingar, hugmyndir og tillögur sem hjálpa okkur til þess að leggja áherslulínurnar," segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar í samtali við Morgunblaðið. "Eitt sem mér fannst gaman að upplifa var að þær tillögur sem lúta m.a. að miðbænum og öðru, og fólk ræddi mikið á þinginu, eru mjög í anda þess sem verið er að vinna að [hjá bæjarfélaginu], þannig að þetta fór mjög vel saman."

Um 370 íbúar mættu á þingið, sem stóð allan laugardaginn. Þar komu fram fjölmargar hugmyndir, t.d. óskuðu bæjarbúar eftir því að stígatengingar innan bæjarins, við nágrannasveitarfélög og við útivistarsvæði við bæinn, yrðu bættar. Einnig var kallað eftir því að ný sundhöll yrði byggð í bænum, og aðstaða til vetraríþrótta bætt. Íbúar voru ekki sáttir við langa biðlista eftir tónlistarnámi og töldu brýnt að bætt yrði úr því hið fyrsta.

Íbúar tiltóku einnig ýmsa kosti við Hafnarfjörðinn, t.d. niðurgreitt íþróttastarf fyrir börn upp að 10 ára aldri. Helstu kostir bæjarfélagsins, að mati íbúa, eru bæjarstæðið, nálægð við sjóinn, falleg náttúra skammt undan, íþróttalífið, þjónustan og bæjarbragurinn, svo eitthvað sé nefnt.

Lítil umræða um ný svæði

Lúðvík segir að það sem hafi komið sér hvað mest á óvart hafi verið að það var fremur lítil umræða um ný byggingarsvæði bæjarins, enda séu þau svæði mikið í deiglunni og verið að vinna að skipulagi fyrir þau. Bæjarbúar hafi frekar viljað ræða málefni miðbæjarins, hvernig megi efla mannlíf og verslun. Hann segir skýringu á því geta t.d. verið að minna hafi verið af íbúum af nýjum svæðum í bænum á þinginu.

"En það segir okkur líka að Hafnfirðingum er mjög annt um sinn miðbæ, við eigum hér bráðum 100 ára gamlan miðbæjarkjarna og það er mjög mikils virði fyrir Hafnarfjörð að hann sé öflugur og sterkur," segir Lúðvík.

Lúðvík segist sannfærður um að fleiri íbúaþing verði haldin í Hafnarfirði í framtíðinni, en segir að nú þurfi að fara yfir málið og ræða t.d. hvort gera eigi þingin að reglulegum viðburði í bæjarlífinu. "Ég er alveg sannfærður um að það er komið til að vera, að tryggja þetta samráð við íbúana sem íbúaþingið býður upp á."