Sólbakur EA kom til löndunar á Akureyri í gærmorgun.
Sólbakur EA kom til löndunar á Akureyri í gærmorgun. — Morgunblaðið/Kristján
ALLT var með kyrrum kjörum á löndunarbryggju Brims á Akureyri í gærmorgun þegar ísfisktogarinn Sólbakur EA kom inn til löndunar. Það voru aðeins starfsmenn Brims sem tóku á móti skipinu sem var með um 70 tonna afla og var uppistaðan þorskur.

ALLT var með kyrrum kjörum á löndunarbryggju Brims á Akureyri í gærmorgun þegar ísfisktogarinn Sólbakur EA kom inn til löndunar. Það voru aðeins starfsmenn Brims sem tóku á móti skipinu sem var með um 70 tonna afla og var uppistaðan þorskur. Ráðgert er að löndun hefjist nú í morgunsárið, að sögn Sævars Þorsteinssonar, löndunarstjóra Brims, en í gær var unnið að ýmsum lagfæringum, m.a. settur krapatankur á millidekkið. Sævar sagði ráðgert að Sólbakur héldi til veiða annað kvöld.

Eins og fram hefur komið samþykkti sýslumaðurinn á Akureyri lögbannskröfu útgerðaraðila Sólbaks á fyrirhugaðar aðgerðir sjómannasamtakanna til að hindra löndun úr Sólbaki EA. Forystumenn sjómannasamtakanna hindruðu löndun úr skipinu í rúman sólarhring í síðustu viku, eða þar til þeir voru handteknir af lögreglu og fluttir til skýrslutöku á lögreglustöðina. Forystumenn sjómanna hafa átt í deilum við útgerðaraðila Sólbaks, vegna umdeildra ráðningarsamninga við skipverja, sem standa utan stéttarfélaga. Þeir segjast virða lögbannið en að málinu sé síður en svo lokið af þeirra hálfu.