LJÓST þykir að mjög mikil þátttaka verður í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fara fram 2. nóvember. Sem dæmi má nefna að mikil örtröð var í bænum Rockville í Maryland-ríki í gær þegar frestur til að skrá sig á kjörskrá rann út.

LJÓST þykir að mjög mikil þátttaka verður í forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fara fram 2. nóvember. Sem dæmi má nefna að mikil örtröð var í bænum Rockville í Maryland-ríki í gær þegar frestur til að skrá sig á kjörskrá rann út. Lýsti einn starfsmanna skráningarstofunnar ástandinu sem "brjálæði".

Allt bendir til að mjög mjótt verði á munum í kosningunum. Margir óttast að sagan frá árinu 2000 muni endurtaka sig en þá urðu vandamál sem komu upp við framkvæmd kosninganna í Flórída til þess að ekki varð ljóst fyrr en að nokkrum vikum liðnum hver hefði verið kosinn.

Ýmislegt hefur verið gert til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig - bæði í Flórída og annars staðar - og tækjabúnaður víða verið endurnýjaður. Bent er hins vegar á að alltaf megi búast við byrjunarörðugleikum þegar nýr búnaður er tekinn í gagnið. Að sama skapi þykir ljóst að demókratar og repúblikanar munu fylgjast gífurlega vel með framkvæmd kosninganna að þessu sinni. Telja fréttaskýrendur því hugsanlegt að víða komi upp deilumál sem hugsanlega geti tekið tíma að leysa úr; sem aftur gæti orðið til þess að úrslitin yrðu ekki ljós fyrr en síðar, rétt eins og árið 2000.