ÁTÖK sem blossað hafa upp í Darfur-héraði í Súdan síðasta mánuðinn hafa valdið því að tvö hundruð þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín, að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Manuels Aranda Da Silva.

ÁTÖK sem blossað hafa upp í Darfur-héraði í Súdan síðasta mánuðinn hafa valdið því að tvö hundruð þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín, að sögn fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Manuels Aranda Da Silva. Ótryggt öryggisástand í héraðinu hefur einnig valdið því að erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til þeirra 1,5 milljóna manna sem þegar voru á vergangi.

Fréttasíða BBC hefur eftir Da Silva að það hafi færst í aukana undanfarnar þrjár vikur að ráðist væri á hjálparstarfsfólk og það rænt. Og um helgina létust tveir starfsmenn Barnaheilla einn særðist lífshættulega þegar bifreið samtakanna varð fyrir jarðsprengju í norðurhluta Darfur.

Þegar ástandið var sem verst í vor, en þá flýðu hundruð svertingja í Darfur ofsóknir vopnaðra sveita araba hamlaði það hjálparstarfi hversu stórt héraðið er og vegir frumstæðir. Gekk illa að koma flóttafólki til aðstoðar af þeim sökum. Nú eru það hins vegar aðstæður í öryggismálum sem helst hamla alþjóðlegu hjálparstarfi, að sögn Da Silvas.

Sameinuðu þjóðirnar hafa hótað súdönskum stjórnvöldum viðskiptaþvingunum ef þau ekki stemma stigu við vargöldinni í Darfur en um 50 þúsund manns hafa dáið í ofbeldinu í héraðinu síðustu átján mánuðina.