ENGINN sáttafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu samninganefnda grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga fyrr en á mánudag, eftir að ríkissáttasemjari fundaði með deilendum hvorum í sínu lagi í gær.

ENGINN sáttafundur hefur verið boðaður í kjaradeilu samninganefnda grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga fyrr en á mánudag, eftir að ríkissáttasemjari fundaði með deilendum hvorum í sínu lagi í gær.

"Niðurstaðan eftir þá fundi er að ekki er forsenda til að boða fund í dag eða á morgun," sagði Ásmundur Stefánsson eftir fundina. "Báðir aðilar árétta það sem áður hefur fram komið af þeirra hálfu þannig að niðurstaðan var að boða fund á mánudag klukkan eitt." Að sögn Ásmundar ber mikið á milli deiluaðila og afstaða þeirra er mjög eindregin og óbreytt frá því viðsemjendur slitu viðræðum á sunnudag.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segist engar vonir binda við sáttafundinn á mánudag. Miðað við viðbrögð sem samninganefnd kennara fái frá viðsemjendum sínum "þá held ég að sé alveg eins gott fyrir þjóðfélagið að búast við því að það gerist ekki neitt á næstu vikum," segir hann.

Fengu heimild til að leggja fram ný tilboð

Að sögn Birgis Björns Sigurjónssonar, formanns samninganefndar launanefndar sveitarfélaganna, fékk launanefndin heimild í síðustu viku til að gera kennurum ný tilboð sem "við satt að segja bundum mjög miklar vonir við að myndu opna þessar viðræður og leiða jafnvel til samnings á þessum dögum," segir hann, en vill ekki tiltaka hvað fólst í þeim. Það sé hins vegar "áþreifanleg hreyfing" frá fyrra tilboði sem fól í sér kostnaðarauka upp á tæp 19%.

Að sögn Finnboga Sigurðssonar, formanns Félags grunnskólakennara, er tilboð sveitarfélaganna óbreytt frá fyrra tilboði sem lagt var fram í maí, þ.e. launaliðurinn er óbreyttur, en tveggja tíma kennsluskyldulækkun felur vissulega í sér kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin og líklega er Birgir Björn að vísa til þessa.

Kennarar hafa lýst yfir óánægju með að seinni tími kennsluskylduminnkunarinnar komi ekki til framkvæmda fyrr en árið 2008.