Víkverji hefur tekið þá ákvörðun að fá sér innbústryggingu eftir að hafa fylgst með fréttum af fólki sem misst hefur allar eigur sínar í bruna án þess að hafa haft þessa nauðsynlegu tryggingu.

Víkverji hefur tekið þá ákvörðun að fá sér innbústryggingu eftir að hafa fylgst með fréttum af fólki sem misst hefur allar eigur sínar í bruna án þess að hafa haft þessa nauðsynlegu tryggingu. Innbústryggingu þarf að kaupa sérstaklega og ekki víst að fólk almennt átti sig á því. Ekki vissi Víkverji a.m.k. um þessar tryggingar þegar hann hóf búskap á síðasta áratug. Hélt einfaldlega að innbústrygging væri innifalin í brunatryggingu. En svo er ekki og því ætlar Víkverji að gera bragarbót á.

Það er reyndar langt síðan tryggingasölumenn reyndu að selja Víkverja tryggingar án þess að hann bæði um það. Fyrir fjórum árum keypti Víkverji sér líftryggingu en sagði henni upp eftir tvö ár. Fannst þetta bara vitleysa. Hins vegar heyrir hann það æ oftar nú um stundir hversu gagnlegt sé að kaupa líf- og sjúkdómatryggingu, eða "líf og sjúk" eins og þær kallast á fagmáli. Það má eflaust til sanns vegar færa að þessar tryggingar séu góðar og gildar, a.m.k. hljómar það þannig í auglýsingunum. En Víkverji er efins þegar verið er að ota einhverju að honum með auglýsingum. Ef Víkverji spáir aðeins í neysluhegðun sína þá kemur í ljós að hann kaupir hluti einkum ef þeir spyrjast vel út í kunningjahópnum eða á öðrum vettvangi. Nú hafa innbústryggingar einar og sér ekki farið hátt í auglýsingum en af og til verið fjallað um þær í fréttum. Og það hefur kveikt á Víkverja. Allur er varinn góður.

Yfir í annað. Þegar Víkverji var unglingur dýrkaði hann Jennifer Beals í þeirri frægu mynd Flashdance. Og nú 20 árum síðar skýtur henni aftur upp á yfirborðið í sjónvarpsþáttunum The L Word á Skjá einum. Þessir þættir eru reyndar hálfleiðinlegir og endurtekningarsamir en Víkverji vill ekki missa af þætti og horfir alltaf á hana Jennifer sína. Auðvitað heldur maður tryggð við sitt fólk, hvað annað?