ÞÓTT Íslendingar hafi dregið úr kynlífsiðkun sinni um 12,5% frá í fyrra eru þeir engu að síður iðnastir við kolann á Norðurlöndunum samkvæmt kynlífskönnun smokkafyrirtækisins Durex.

ÞÓTT Íslendingar hafi dregið úr kynlífsiðkun sinni um 12,5% frá í fyrra eru þeir engu að síður iðnastir við kolann á Norðurlöndunum samkvæmt kynlífskönnun smokkafyrirtækisins Durex. Íslendingar stunda kynlíf 119 sinnum á ári á meðan Danir gera það 101 sinni, Norðmenn 102 sinnum, Finnar 97 og Svíar ekki nema 94 sinnum. Íslendingar voru enn virkari samkvæmt könnun Durex í fyrra en þá stunduðu þeir kynlíf 136 sinnum á ári eða örlitlu sjaldnar en Frakkar sem tróna á toppnum með 137 skipti árlega. Að þessu sinni tóku 350 þúsund manns frá 41 landi þátt í könnuninni og í stuttu máli hefur tíðni kynmaka yfir heiminn snarminnkað frá síðustu könnun eða úr 127 skiptum í 103 árlega að meðaltali.

Staða Íslendinga meðal annarra þjóða heims hvað tíðni kynmaka snertir er hin sama og í fyrra og vermir þjóðin tíunda sætið annað árið í röð.

Eins og fyrr segir eru Frakkar í fyrsta sæti en Grikkir í öðru, þá Serbía, Ungverjaland, Makedónía, Búlgaría, Tékkland og Króatía.

Könnunin sýnir líka að hvergi byrjar fólk eins ungt að stunda kynlíf og hér á landi eða 15,7 ára. Byrja íslensk ungmenni því tæpu ári fyrr en unglingar á hinum Norðurlöndunum, sem byrja 16,5 ára.

Þá sýnir könnunin ennfremur að Ísland er í 12. sæti raðað eftir því hversu ung börn eru þegar kynfræðsla hefst. Eru þau 12,4 ára en Þjóðverjar 11,3 ára og eru í fyrsta sæti á þeim lista.