Samkvæmt fjárlögum ársins 2005 fær utanríkisráðuneytið um 6,7 milljarða til ráðstöfunar á næsta ári. Af þeim fjármunum munu um 1,7 milljarðar falla til vegna reksturs og stofnkostnaðar við sendiráð Íslands.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2005 fær utanríkisráðuneytið um 6,7 milljarða til ráðstöfunar á næsta ári. Af þeim fjármunum munu um 1,7 milljarðar falla til vegna reksturs og stofnkostnaðar við sendiráð Íslands. Gert er ráð fyrir að rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins muni kosta um 835 milljónir. Kostnaður vegna þátttöku í alþjóðastofnunum nemi um 1,4 milljörðum og er þá Íslenska friðargæslan og framlög í Þróunarsjóð EFTA meðtalin. Um 700 milljónir renna til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og 400 milljónum til viðbótar verður varið til þróunarmála og hjálparstarfa.

Meðfylgjandi tafla er byggð á upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um kostnað við rekstur ráðuneytisins miðað við fjárlög og fjáraukalög. Taflan er miðuð við verðlag hvers árs og tekið er tillit til sértekna.

Á því ellefu ára tímabili sem hér er miðað við hefur kostnaður utanríkisráðuneytisins vaxið hröðum skrefum, úr tæplega tveimur milljörðum árið 1995 í um 6,7 milljarða á næsta ári. Hækkunin nemur um 245% en á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 36%, þ.e. frá janúar 1995 til september 2004. Þetta er þó alls ekki eini mælikvarðinn sem hægt er, eða allskostar sanngjarnt, að beita á útgjöld ráðuneytisins.

Friðargæsla og þróunarsjóður

Útgjöld til þróunarmála, alþjóðlegrar hjálparstarfsemi og alþjóðastofnana hafa hækkað mest. Árið 1995 námu útgjöld til þessara málaflokka um 685 milljónum króna en á næsta ári er gert ráð fyrir að þau verði um 2,4 milljarðar. Mestu munar um framlög til friðargæslu sem hækka úr 82,8 milljónum í 516 milljónir. Þar munar mest um stofnun Íslensku friðargæslunnar en framlög til hennar verða 463 milljónir á næsta ári.

Fast á hæla friðargæslunnar fylgja framlög til Þróunarsjóðs EFTA sem verða tæplega 500 milljónir á næsta ári, tvöfalt hærri en á þessu ári. Um þessa hækkun var samið í tengslum við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins og hún ætti því engum að koma á óvart.

Útgjöld utanríkisráðuneytisins vegna flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli verða um 917 milljónir og rekstur embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli kostar ráðuneytið um 420 milljónir. Rekstrarkostnaður sýslumannsembættisins er reyndar allnokkru hærri eða um 760 milljónir en embættið innheimtir um 340 milljóna sértekjur s.s. vegna öryggisleitar o.fl. og dregur það úr útgjöldum ráðuneytisins sem því nemur.

Mikið hefur verið rætt um kostnað vegna sendiráða Íslands sem hefur hækkað um 260% á þessu tímabili, úr tæplega 600 milljónum í rúmlega 1,5 milljarð. Auk þess hefur um 2,7 milljörðum verið varið til kaupa á húsnæði fyrir sendiráð og sendiskrifstofur, viðhalds, innréttinga og breytinga.

Í skýrslu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sem hann lagði fyrir Alþingi í apríl sl. kemur fram að á átta ára tímabili, frá 1995 til 2002 hafi verið stofnaðar átta sendiráð og sendiskrifstofur. Stofnað var sendiráð í Peking 1995, í Helsinki 1997, fastanefnd hjá Evrópuráðinu í Strassborg 1997, aðalræðisskrifstofa í Winnipeg og fastanefnd hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) í Vín árið 1999. Árið 2001 voru opnuð sendiráð í Tókýó, Ottawa í Kanada og í Mapútó í Mósambík. Bent er á í skýrslunni að stofnun sendiráða hafi setið á hakanum á um 40 ára tímabili eða frá því sendiráð var sett á laggirnar í Bonn árið 1955 og þar til sendiráð var stofnaði í Kína 1995. Ísland hefur nú 20 sendiskrifstofur erlendis, þar af 14 sendiráð.

Í skýrslunn er tiltekið að sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi kostnaður við utanríkisþjónustuna, þ.e. rekstrar- og stofnkostnaður sendiskrifstofna og aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins, staðið í stað milli 1998 og 2003 og verið 0,31% bæði árin. Sem hlutfall af útgjöldum ríkisins hafi kostnaðurinn heldur minnkað, eða úr 0,92% í 0,87%.

Af þessu má sjá að kostnaður við utanríkisþjónustuna sem slíka hefur ekki aukist meira en önnur útgjöld ríkisins. Þykir þó sjálfsagt mörgum nóg um hvort tveggja. Á hinn bóginn hafa útgjöld til annarra málaflokka aukist enn meira s.s. til alþjóðastofnana, friðargæslu og til þróunarmála.

runarp@mbl.is